Skýrsla frá Skjaldborg II

Sérlegur tíðindamaður Klapptrés, Þorkell Harðarson, flytur lesendum annan pistil sinn frá Skjaldborgarhátíðinni sem nú fer að ljúka. Lokapistill er væntanlegur.

Sérlegur fréttaritari Klapptrés rétt náði að koma frá sér frásögninni í gær áður en tölva, sími og myndavél urðu rafmagnslaus. Dagurinn í dag fór í að græja hleðslutæki og fleira slíkt, því auðvitað varð það allt eftir á náttborðinu við hliðina á Frank og Jóa bókunum og Sérherbergi Virginu Woolf. Þetta hafðist og nú kemur annar hluti Skjaldborgarbálksins.

Eftir að hafa sinnt samfélagslegum skyldum sínum og skrifað fréttir fyrradagsins í blað gærdagsins var haldið áleiðis í plokkfiskboð Kvenfélagsins á Patreksfirði. Út um dyr félagsheimilisins stigu miklar gufur frá eldamennskunni. Þar var á borðum miklir dallar með ofnbökuðum plokkfisk og sér seyddu rúgbrauði ásamt risaskömmtum af sméri. Eitt augnablik var þetta eins og við værum stödd í Þrymskviðu í átkeppni þrumugoðsins og skósveina jötnahöfðingjans. Þetta var nú samt “bara” á Patró og Skjaldborgarhátíðin var að hálfnast, þessi stórkostlega hátíð sem er að mati sérlegs fréttaritara algerlega einstakt fyrirbæri. Það væri ansi erfitt að skapa þessa stemningu í Reykjavík City til dæmis. Smæðin er nýtt til hins ýtrasta hér og stemningin er afar góð. Plokkfiskurinn var góður – takk fyrir okkur Skjaldborg og Kvenfélagið! Setið var við öll borð sem hægt var að finna í sýslunni og lókallinn mætti vel í plokkarann ásamt heimildamyndagerðarfólki af öllum stærðum og gerðum og var standandi lófatak í lok máltíðarinnar.

Við tók masterclass með heiðursgestinum, hinni lettnesku Lailu Pakalnina. Hún sagði frá vinnubrögðum sínum við kvikmyndagerðina og deildi hvernig ætti að snúa á sjóðina sem heimtuðu bókmenntaverk til að afhenda peninga til kvikmyndagerðar. Það var gott að sjá að leiðirnar fram hjá trénuðu regluverki eru eins allstaðar í heiminum. Hverjar eru leiðirnar? Það vita þau sem mættu á Skjaldborgarhátíðina. Hin sem heima sitja misstu af þessu, sorrí. Það kom Laiku á óvart hversu margar spurningar komu úr sal – hún hafði heyrt að íslendingar væru afar latir við að spyrja á svona uppákomum. Persónuleg skoðun sérlegs er nú sú að það fer yfirleitt eftir gestinum. Ef hann er áhugaverður, er engin skortur á spurningum úr sal.

Kvikmyndagerðarmennirnir Ísold Uggadóttir og Anton Máni Svansson á Skjaldborgarhátíðinni á Patreksfirði, júní 2019 (Mynd: Þorkell Harðarson).

Fólk var útitekið eftir hitabylgju dagsins, blankalogn á firðinum og ekki ský á himni. Nú skyldi tekið á því á flöskuballinu við höfnina. Þar var fiskikar á hafnarbakkanum með bjór og klaka og tók kvikmyndagerðarfólk til óspilltra málanna að slátra þessum veitingum með samstilltu átaki. Samt sást varla vín á nokkrum manni. Mál dagsins voru rædd í þaula í miðnætursólinni langt fram á nótt og skildu allir sáttir. Sumir fóru að sofa fyrr en aðrir, sem skruppu í heitar laugar hér rétt handan við ásinn og lögðu sig þar. Svefn er mikilvægur því sunnudagurinn ber í skauti sér nýjar myndir og spennandi verkefni. Hafandi reynslu gærkvöldsins í pokahorninu fór sérlegur fréttaritari í jöklaúlpu með pylsupakka í vasanum á flöskuballið. Það átti ekki að verða úti aðra nóttina í röð. Enda var þetta allt annað líf … náði samt að villast allverulega og þurfti að finna út úr þessu án þess að komast á Google Maps sökum rafmagnsleysis símans. Þetta tók 90 mínútur að koma sér í náttstað eftir að hafa þrætt allar götur Patró City. Bæjarskipulagið leynir á sér hérna fyrir Westan en í sæng náðist að lokum.

Haninn galaði loks um kl 10:30 hér á Patró og var hlaupið á náttfötunum beint í Skjaldborgarbíóið. Dagurinn byrjaði á stuttum heimildamyndum af ýmsum gerðum, sumar unnar sem verkefni við Háskólann. Þær voru misjafnar að gæðum, engin leiðinleg samt. En margar unnar sem sjónræn ritgerð, frekar en heimildamynd sem fer á djúpið. Best fannst mér mynd um sameiginlegt þvottahús í fjölbýli – Þvottahúsið eftir Aðalbjörgu Árnadóttur. Áhorfendur – sem voru ansi margir í bíóinu miðað við ástandið kvöldið áður – veltust um af hlátri og var það hressandi að sjá svona skemmtilega mynd.

Næst var á dagskrá tvenna parsins Lee Lorenzo Lynch og Þorbjargar Jónsdóttur. Lee var með myndina Yellow Hair um mann sem lifir sínu lífi í gervi raunveruleikasjónvarpsstjörnu – 24/7. Stórskemmtileg mynd sem sérlegur hafði séð á einkasýningu í Bíó Paradís í fyrra. Þetta er eiginlega must see mynd fyrir áhugafólk um jaðarfyrirbæri hins daglega og hvernig sannleikurinn er miklu ótrúverðugari en lygin. Þorbjörg var með myndina A Tree is Like a Man, um leyndardóma Ayahuasca og regnskógarins. Ljóðræn og fín mynd.

Eftir þetta var tekið örstutt hlé og eftirlegukindur næturinnar tíndust í bíóið til að sjá hinn stórskemmtilega lið Verk í vinnslu. Þar var ýmislegt tínt til og voru kvikmyndagerðarmenn komnir mislangt með verkin, fjármögnunina og söluræðurnar. Eldskírn fyrir suma sem fara heim reynslunni ríkari. Önnur reyndari rúlluðu þessu upp, öllu vön. Myndin Band verður vafalaust eftirtektarverð og kynnti Álfrún Örnólfsdóttir hana til sögunnar. Mynd um hljómsveitabissniss frá sjónarhóli kvennasveitar sem gefur sér ár í meik. Þeas að fá borgað í öðru en bjór og hafa efni á pössun þegar farið er á gigg. Önnur mynd sem kom eins og þruma úr heiðskíru lofti og var með nokkuð vel mótaða stefnu var myndin Öll nótt úti. Lúðvík Páll Lúðvíksson kynnti verkefnið sem er um einn af þeim sem sökktu hvalveiðibátunum í Reykjavíkur höfn á sínum tíma … ásamt ýmsum öðrum afrekum á þessu sviði. Mynd sem lítur nokkuð erlendis út og verður gaman að sjá hvernig þróast.

Eftir þetta maraþon voru áhorfsstöðvar hátíðargesta farnar að lýjast og var slökkt á sýningarvélum Skjaldborgarhátíðarinnar – sem hún Ágústa sér um með miklum sóma og á miklar þakkir skildar fyrir. Við tóku pallborðsumræður með þáttöku fulltrúa frá KMÍ og kvikmyndagerðarmanna. Miklar og líflegar umræður sköpuðust fljótlega og voru áhorfendur mjög virkir í spurningum utan úr sal. Þetta staðfestir gríðarlega nauðsyn pallborðsumræðna af þessu tagi og að halda heimildamyndum aðskildum frá leiknum í svona dæmi. Þarna var tekið á ýmsu sértæku í heimildamyndaheiminum og skotið á KMÍ og stofnuninni klappað til skiptis. Það er nefnilega ansi mikið öðruvísi að koma með spurningu til valdsins þar sem það situr fyrir svörum eða að vera á fundi með verkefni á skrifstofunni á Hverfisgötu. Valdið (KMÍ í þessu tilviki) þarf að geta svarað á annan hátt en er oft gert á minni fundum og er það vel.

Skemmst er frá því að segja að þetta var líflegt og KMÍ kom nú betur út úr fundinum en margir spáðu fyrirfram. Það eru ákveðnar áherslubreytingar í gangi og hefði fundurinn þurft að vera klukkutíma lengri, en honum þurfti að slíta til að koma af stað síðustu sýningum dagsins. Það þarf að halda svona pallborðsumræður oftar og tengja bransann sem heild við KMÍ. Eins mætti RÚV og stærri kaupendur koma á svona viðburði. Það er til dæmis enginn frá RÚV hér á Skjaldborg. Það væri gott að tengja kaupendurna við þá sem eru að gera í svona kósí umhverfi þar sem gott er að ræða málin á óformlegan hátt í vestfirskri miðnætursólinni.

Sérlegur fréttaritari Klapptrés skrópar á síðustu sýningunum til að koma fréttum dagsins til ykkar. Það er mikil fiskiveisla í kvöld, þar sem Kristinn stjörnukokkur í vefþáttunum SOÐ eldar. Það ríkir mikil tilhlökkun í matarhjarta allra á Patró. Matarskýrsla á morgun. Ég ætla að vera stilltur í kvöld og sleppa því að villast á leiðinni heim, því ég fann áttavita á bensínstöðinni sem ég verslaði mér. Hvað gæti klikkað? Meira á morgun!

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR