Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda verður haldin í þrettánda sinn á Patreksfirði um hvítasunnuhelgina, 7.-10. júní. Á hátíðinni í ár verða frumsýndar fjórtán íslenskar heimildamyndir og kynnt verða sex verk í vinnslu.
Óhætt er að segja að hátíðin sé þekkt fyrir einstakt andrúmsloft, fjölbreytta kvikmyndadagskrá og sérstaklega vel lukkaða skemmtidagskrá.
Heiðursgestur hátíðarinnar í ár er hollenski heimildamyndaleikstjórinn Heddy Honigman sem fæddist í Lima, höfuðborg Perú árið 1951, nam kvikmyndagerð í Róm en hefur búið og starfað í Hollandi síðan árið 1978. Hún á að baki langan og fjölbreyttan feril og eftir hana liggur mikið höfundaverk. Myndir hennar hafa unnið til ótal verðlauna um heim allan og hefur hún hlotið ófáar viðurkenningar fyrir ævistarf sitt fyrir kvikmyndir á borð við Metal y Melancholia (1994), O Amor Natural (1996), The Underground Orchestra (1998), Forever (2006), og El Olvido (2008). Honigman er þekkt fyrir að vera beinskeittur og næmur spyrill með lúmskan húmor en eitt af megin þemum í myndum hennar er eiginleiki mannsins til að aðlagast og lifa af.
Hátíðin verður sett í Skjaldborgarbíó kl 20:30 föstudaginn 7. júní en opnunarmyndin verður Metall og Melankólía (Metal y Melancholia) frá árinu 1995 eftir Honigman. Þar slæst hún í för með leigubílstjórum í Lima, höfuðborg Perú, og í gegnum samtöl við margar og ólíkar persónur dregur hún, af sinni sérstöku list, upp portrett af augnabliki þjóðar. Önnur mynd Honigman, El Olvido, sem einnig var gerð í Perú verður svo á dagskrá á öðrum degi hátíðar og meistaraspjall með heiðursgesti verður á sínum stað sama kvöld.
Á vef hátíðarinnar má nálgast upplýsingar um myndir og verk í vinnslu sem verða til sýningar á Skjaldborg 2019.