Stikla annarrar syrpu Ófærðar hefur verið opinberuð, en þættirnir verða á dagskrá RÚV í haust.
Í umfjöllun Menningarsíðu RÚV um nýju syrpuna segir m.a.:
Í grunninn virðast þættirnir fjalla um rannsókn á andláti tveggja manna. En söguþráðurinn er öllu flóknari en það segir Baltasar Kormákur leikstjóri. „Áhorfendur mega búast við seríu sem er lík þeirri fyrri, en að mörgu leyti mjög ólík.“
Þáttaröðin fjallar um hitamál líðandi stundar, eins og erlent vinnuafl og stóriðju. „Inn í þetta kemur þjóðernishyggja, mörk hennar og aðstaða fólks sem býr í uppsveitum,“ segir Baltasar. Umhverfismál koma einnig við sögu, hálendið og virkjun þess. „Mér finnst best takast þegar spennusögur fjalla um samfélagið og alvarleg mál á áhugaverðan hátt,“ segir hann.
Allt leikur bókstaflega á reiðiskjálfi í stiklunni, vegna jarðborana og virkjanaframkvæmda. „Við notum ýmis mál í kringum okkur til að skapa ákveðið samhengi,“ segir Baltasar, „menguð vatnsból og fleira.“ Þá hefur verið gott að hafa Yrsu Sigurðardóttur, verkfræðimenntaðan glæpasagnahöfund, innanborðs en hún kom að handriti þáttanna. „Hún veitti okkur innsýn í ýmsa hluti varðandi virkjanir og áhrif þeirra á umhverfið. Við nýtum okkur alla þá þekkingu sem stendur okkur til boða.“