Árið 2023 mun röddum sögumanna ekki hafa fækkað en iðnaðurinn hefur dregist saman og nýr veruleiki verður farinn að taka á sig mynd, segir í nýrri skýrslu um stöðu og framtíðarhorfur evrópsks kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðar. Þar er einnig bent á að bransinn sé ekki nægilega meðvitaður um hvaða áhrif þær miklu breytingar sem staðið hafa undanfarin ár muni hafa á framleiðslu og neyslu myndefnis.
Í skýrslunni, sem ber yfirskriftina Do or Die, er reynt að spá fyrir um þróun næstu 3-5 ára með tilliti til fjármögnunar og dreifingar á myndefni. Þetta er í fimmta sinn sem slík skýrsla kemur út á vegum Nostradamus Project, sem er samvinnuverkefni Gautaborgarhátíðarinnar og Lindholmen Science Park. Skýrsluna í heild má lesa hér.
Í inngangi er efnið dregið saman svo:
Starfsgrein okkar er full af krafmiklum sögumönnum. Okkur hættir til að líta á að verk okkar snúist fyrst og fremst um gæði og aðlöðun: ef við gerum aðeins betri bíómyndir eða sjónvarpsefni muni öll okkar vandamál leysast. Í skýrslu ársins höfum við rætt við sérfræðinga á ólíkum sviðum kvikmynda- og sjónvarpsbransans. Ef hægt er að taka saman viðhorf þeirra í eina setningu gæti hún verið þessi: gættu þín á yfirlætinu! Sögur breyta hugum og hjörtum en þær stöðva ekki tímans þunga nið.
Tæknibreytingarnar sem hafa markað djúp spor í okkar grein eru að endurskapa daglegt líf, viðskipti, sambönd og menningu – alla menningu – um allan heim. Við verðum að hætta að segja sjálfum okkur þá sögu að við séum einhvernvegin undantekning. Eins og óperu- og leikhúsin geta auðveldlega upplýst okkur um, duga gæði og áhrifamáttur ekki til að laða að breiðan hóp áhorfenda (jafnvel þó áhorfendurnir falli í stafi yfir snilldinni þegar þeir eru loks mættir). Efnið sem í boði er verður að hafa erindi við líf fólks. Það verður að uppfylla þörf. Og jafnvel enn mikilvægara er að möguleikar til áhorfs verða að passa við takt vinnu og hvíldar. Á margan hátt eru nú að ganga í gegn þær breytingar sem Nostradamus Project hefur fjallað um frá upphafi. Við treystum okkur til að fullyrða að næstu fimm ár verði afar mikilvæg – og ekki aðeins vegna þess að svo er ávallt. Árið 2023 mun röddum sögumanna ekki hafa fækkað en iðnaðurinn hefur dregist saman og nýr veruleiki verður farinn að taka á sig mynd.
Skýrslan er í fjórum köflum. Sá fyrsti greinir stöðu bíómynda í nýju landslagi fjármögnunar og dreifingar. Annar kafli er um hvernig streymisþjónusta og kvikmyndir geta spilað á sama velli og sá þriðji fjallar um þær breytingar sem kvikmyndahúsin eru að ganga í gegnum. Fjórði kaflinn lýtur svo að kynjahallanum og hvernig líklegt er að þróunin verði þar á næstu árum.
Hér verður í stuttu máli gerð grein fyrir efni kaflanna.
1. FIVE FATEFUL YEARS FOR FILM (Fimm örlagarík ár fyrir bíómyndir)
Þrýstingur á dreifiglugga, dreifingarsvæði og aðra þætti hefðbundinnar fjármögnunar gera nýja nálgun á tekjuöflun afar brýna. Sjónvarp er að þessu leyti langt á undan kvikmyndunum, en stafrænar efnisveitur búa við mesta forskotið: bein tengsl við áhorfendur, aðgang að áhorfsgögnum og eru auk þess lausar við hefðbundnar lausnir frá fyrri tíð. Evrópski kvikmyndaiðnaðurinn er í sérstakri hættu. Aukin evrópsk samvinna er nauðsynleg, ekki aðeins varðandi lagasetningu heldur einnig langtíma markmiðasetningu.
2. ALL SWEPT INTO THE STREAM (Hrifist með straumnum)
Sjónvarp er að breytast hratt í stafræna þjónustu. Skil milli línulegrar og safnþjónustu, sem og ókeypis og greiddrar þjónustu, verða sífellt óskýrari. Það verður sífellt erfiðara fyrir neytendur að sjá fyrir sér skjáinn sem þjónustu bundna við tíma. Kvikmyndaiðnaðurinn þarf á skjánum að halda til að frumsýna efni sem er ekki líklegt til að ganga vel í kvikmyndahúsum. Draga mun úr hvata sjónvarpsstöðva til að sýna bíómyndir. Þær gera sig ekki vel í línulegri dagskrá né on-demand þar sem þær rekast oft illa á aðrar streymisveitur. Streymisveitur eru rétt að byrja að átta sig á hvernig best sé að frumsýna bíómyndir. Gert er ráð fyrir að VOD-þjónusta þar sem greitt er fyrir hverja einingu (pay-per-view) muni vaxa verulega. Í Evrópu munu stóru bandarísku efnisveiturnar fjármagna efni í auknum mæli, en svæðisbundin samkeppni við þær mun einnig koma til. Stóru tæknirisarnir eru ekki háðir fjárhagslegri velgengni einstakra verka eða þjónustu og ekki er hægt að keppa við þá í eyðslu. Þar sem samkeppnin mun ekki snúast um miðasölu heldur athygli áhorfenda, verður erindi verka við samtíma sinn jafn mikilvægt og gæði efnis og framleiðslu.
3. A MOVIE THEATRE’S SOUL: EXPERIENCES OR EXCLUSIVITY? (Sál bíóhússins: upplifanir eða einkaréttur?)
Bíóhúsin eru í mjög góðri aðstöðu til að vera öflugir leikendur í upplifunarhagkerfinu. En meðan fjöldi útgefinna mynda eykst og bíógestir sækjast sífellt meira í annarskonar efni, er ekki hægt að ætlast til þess að bíóhúsin frumsýni allar myndir. Raunhæft er að bjóða uppá mismunandi dreifingarleiðir. Búast má við að málamiðlanir verði gerðar varðandi dreifingarglugga á næstu árum. Þegar framboð bíóhúsanna þrengist verður æ mikilvægara fyrir evrópskan kvikmyndaiðnað að framleiða myndir sem höfða til breiðs hóps áhorfenda. Markaðsaðstæður benda til þess að sterkar heimamyndir með háu framleiðslugildi gætu náð árangri. Þetta kallar á nýjar fjármögnunarleiðir og einnig upptöku nýrrar tækni til að styðja við ákvarðanatöku og til að minnka framleiðslukostnað.
4. TIME NOT UP JUST YET BUT CHANGING FAST (Tímarnir eru um það bil að breytast)
Kvenkyns kvikmyndagerðarmenn og áhorfendahópar eru að skipuleggja sig til að ná fram breytingum sem markaðurinn hefur ekki náð að svara í samræmi við eftirspurn – að líkindum vegna þess að mjög hallar á konur þegar kemur að ákvarðatöku. Fleiri en nokkru sinni fyrr veita kynjahalla eftirtekt og telja hausa. Breytingar eru óhjákvæmileg útkoma, en hin slæma staða nú þýðir að kynjajafnvægi mun taka lengri tíma en fimm ár.
Skýrsluna má lesa hér.