Minning | Nokkur orð um Ólaf H. Torfason

Ólaf­ur H. Torfa­son, rit­höf­und­ur, fjöl­miðlamaður og kvik­mynda­fræðing­ur, lést 17. júlí s.l. á sjö­tug­asta ald­ursári.

Ólaf­ur fædd­ist í Reykja­vík 27. júlí 1947. Hann varð stúd­ent frá MR 1969 og stundaði nám í kvik­mynda- og fjöl­miðla­fræði við Kaup­manna­hafn­ar­há­skóla 1970-73. Ólaf­ur starfaði meðal ann­ars sem kenn­ari, fjöl­miðlamaður, kvik­mynda­fræðing­ur og kvik­mynda­gagn­rýn­andi. Auk þess lagði hann stund á mynd­list og fékkst við fræðistörf og ritstörf af ýmsu tagi.


Nokkur orð um ágætan kunningja minn, Ólaf H. Torfason. Við kynntumst gegnum sameiginlega ástríðu á kvikmyndum, en áður hafði ég heyrt hans getið; einhverjir höfðu hvíslað að mér að besti kvikmyndagagnrýnandi landsins skrifaði reglulega í það virðulega rit Heima er best. Þeir voru nokkrir á áttunda, níunda og tíunda áratugnum sem skrifuðu reglulega af þekkingu um kvikmyndir; Erlendur Sveinsson og Sigurður Sverrir Pálsson með kvikmyndaþætti sína í Sjónvarpinu á áttunda áratugnum, Sverrir skrifaði líka í Moggann. Ingibjörg Haraldsdóttir á Þjóðviljanum, Árni Þórarinsson í Morgunblaðið og víðar, Egill Helgason í Helgarpóstinn. Svo var það Ólafur, sem framan af var eins og huldumaður í mínum huga; Heima er best blasti ekki beinlínis við. En svo fór hann að vinna fyrir Útvarpið, Rás 2 og varð fastagestur í vitundinni.

Ólafur gassaðist ekki áfram né óð á súðum, hann hugleiddi – það var stundum eins og hann væri að hugsa upphátt þegar hann talaði eða skrifaði. Þetta var hans eigin stíll, oft heimspekilegur en líka alþýðlegur, stílbrögð oft knöpp. En hann leyfði sér oft að fara út fyrir efnið, þræða fáfarnari troðninga og slóðir – en þó ekki – því hann vissi að kvikmyndirnar spanna vítt húmanískt svið, þær ná yfir allt – og því leyfilegt að vísa hingað og þangað í leit að kjarna máls. Líka annað; hann var einnig í hópi þeirra fyrstu sem sækja sér kvikmyndafræðimenntun og kemur síðan heim með þær hugmyndir, sem ekki síst kristallast í spurningunni um hvernig kvikmyndirnar leggjast í íslenskri menningu (hvað sem það nú er).  

Fljótlega eftir að ég hóf að ritstýra Landi & sonum, málgagni kvikmyndagerðarmanna um miðbik tíunda áratugsins, komst ég að því að Ólafur átti ýmiskonar óbirt efni um íslenskar kvikmyndir í fórum sínum, gjarnan hugleiðingar þar sem horft var vítt yfir svið. Vangaveltur um persónur íslenskra kvikmynda, áherslur íslenskra leikstjóra, átökin milli kvikmynda og sjónvarps og margt fleira. Hann var svo vinsamlegur að láta mig hafa þetta efni og það birtist í blaðinu yfir nokkurra ára tímabil. Margt var þarna virkilega áhugavert – og þetta var þakklátt efni, því ekki voru margir í þessum pælingum á þessum tíma og kannski ekki enn; að horfa vítt yfir svið, íhuga og gæta að einu og öðru (jú, það fer  skánandi).

Ég var vissulega ekki alltaf sammála Ólafi, annað eins væri nú, en ég fann að við trúðum á sama konseptið um erindi kvikmyndanna við manneskjuna og samfélagið vítt og breitt, ekki endilega hið félagslega eða pólitíska (líka þó) en fremur sjálfa fagurfræðina, nálgunina. Að í lifandi myndum byggi sérstök lýsing á heiminum, ólík öllu öðru og að áhrifin væru einstök, upplifunin andleg og maður væri ekki samur á eftir.

Takk fyrir að deila hugsunum þínum með okkur, Ólafur. Hvíl í friði.       

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR