Tvær nýjar stuttmyndir, Búi eftir Ingu Lísu Middleton og Fótspor eftir Hannes Þór Arason, taka þátt í Alþjóðlegu barnakvikmyndahátíðinni í Giffoni á Ítalíu sem fram fer 14.-22. júlí næstkomandi. Giffoni hátíðin er ein sú kunnasta á sínu sviði. Búi hefur einnig verið valin til þátttöku á Nordisk Panorama sem fram fer í Malmö í haust, en önnur stuttmynd Ingu Lísu, Ævintýri á okkar tímum, vann til verðlauna þar 1993.
Hannes Þór, leikstjóri Fótspors, segir í tilkynningu:
„Við erum alveg í skýjunum með þessar fréttir enda er Giffoni ein sú allra stærsta í flokki barnamynda. Þetta er sérstaklega ánægjulegt þar sem myndin var gerð fyrir mjög lítinn pening og hlaut enga opinbera styrki. Við erum vongóðir að þetta muni opna fyrir okkur margar dyr að öðrum hátíðum og sjónvarpssölum.”
Fótspor fjallar um samband afa við barnabarn sitt og hvernig þeir brúa kynslóðabilið í gegnum knattspyrnu.
Sigurður Skúlason og Elías Óli Hilmarsson fara með aðalhlutverkin. Tinna Hrafnsdóttir, Þorsteinn Guðmundsson og Hlynur Þorsteinsson eru í öðrum hlutverkum. Hannes Þór framleiðir einnig ásamt Arnari Benjamín Kristjánssyni.
Arnar Benjamín framleiðir einnig Búa Ingu Lísu Middleton ásamt Skúla Malmquist hjá Zik Zak. Myndin, sem frumsýnd var á RÚV í vetur, segir af Önnu 9 ára sem er utangátta í nýju hverfi við hraunið í Hafnarfirði í kjölfar flutninga. Börnin í hverfinu taka henni ekki vel í fyrstu, en þegar einn strákanna, Búi, hvetur hana til að fremja hetjudáð til að sýna krökkunum hvað í henni býr breytist allt. En Búi er ekki allur þar sem hann er séður…
Inga Lísa vann handritið uppúr fyrsta kafla barnabókar sem hún vinnur nú að og fjallar um vináttu Önnu og Búa og hvað það er flókið að að eiga vin sem enginn annar sér. Inga Lísa hefur alltaf haft mikinn áhuga á álfum og huldufólki og skrifaði BA ritgerð sína um hina ‘Huldu þjóð Íslands’.
Með helstu hlutverk fara Anja Sæberg, Bjarni Kristbjörnsson, Nanna Kristín Magnúsdóttir og Hanna María Karlsdóttir.
Myndin er styrkt af Kvikmyndamiðstöð islands og RÚV.