Hildur Harðardóttir skrifar á Kvikmyndir.is um Ég man þig eftir Óskar Þór Axelsson og segir meðal annars: „Skipting á borð við þessa þar sem stokkið er á milli frásagna er ekki ný af nálinni í kvikmyndum, en hún er vandmeðfarin. Hvernig sögurnar tvær tengjast er vissulega óvenjulegt á skemmtilegan hátt, en þetta uppbrot heftir flæði frásagnarinnar.“
Hildur segir ennfremur:
Þegar sögurnar tvær blandast verður formið flókið. Saga Freys myndi flokkast sem glæpasaga en saga þríeykisins er hins vegar spennusaga með ívafi hryllings. Formið sem þær eiga sameiginlegt er draugasagan. Skipting á borð við þessa þar sem stokkið er á milli frásagna er ekki ný af nálinni í kvikmyndum, en hún er vandmeðfarin. Hvernig sögurnar tvær tengjast er vissulega óvenjulegt á skemmtilegan hátt, en þetta uppbrot heftir flæði frásagnarinnar. Í tilfelli glæpasögunnar um Frey sleppur þessi tvöfalda frásögn fyrir horn, en í spennuhryllingnum á Hesteyri hverfur óttinn og spennan sem búið var að byggja upp við þessi stökk og tengingin við söguna og persónur hennar slitnar.
Persónurnar og einkum fortíð þeirra er nokkuð klunnalega kynnt til sögunnar. Þessi þáttur gengur fljótt yfir líkt og til að tryggja að áhorfandinn sé örugglega með á nótunum svo að atburðarrásin geti haldið áfram. Þar af leiðandi verða samtölin oft á tíðum stirð og óraunveruleg. Þrátt fyrir þessa annmarka á handritinu leysa leikarar sitt verkefni vel, einkum Jóhannes Haukur Jóhannesson sem leikur Frey, en honum tekst vel að sýna lífsvilja manns sem hefur lifað erfiða tíma. Gaman hefði verið að kynnast betur lögreglukonunni Dagnýju sem Sara Dögg Ásgeirsdóttir fór einstaklega vel með og Anna Gunndís í hlutverki Katrínar var ekki síðri.
Það sem skapar að mestu leyti spennu og þá sérstaklega í sögunni á Hesteyri er tónlist myndarinnar sem gefur til kynna að eitthvað sé stöðugt undiriggjandi. Hún er drungaleg, spennuþrungin, oft á tíðum voru hljóðin óþægileg og nístu inn að beini. Tónlistin lætur vita af stöðugri nærveru drauganna tveggja, Benna og Bernódusar (Arnar Páll Harðarson) og lætur okkur bíða í eftirvæntingu eftir því að þeir birtist og geri eitthvað illt. Þeir birtast vissulega sjaldan en tónlistin gefur okkur þá tilfinnigu að það sé alltaf að koma að því. Við fáum meira að segja stundum sjónarhorn draugsins Bernódusar þegar hann fylgist með þríeykinu, en það lætur áhorfendur finna enn sterkar fyrir nærveru hans og mögulegum áformum. Auk þess kemur dimma íslenska þjóðlagahefðin skemmtilega inn í myndina með þulunni Móðir mín í kví kví. Fimmundartónlistin á vel við umhverfið og hvernig unnið er með draugalega þjóðsagnahefð innan þess. Tökuvélin leikur við landslagið á Hesteyri sem er heillandi og fallegt en ógnandi í senn. Þetta er landslag þar sem þjóðsagnahefðin fæddist. Garðar, Katrín og Líf eru föst innan þessara náttúruafla. Komast hvergi.
Sjá nánar hér: Kvikmyndir.is