Konur, kvikmyndir og Cannes: Tími jafnaðar er framundan

Þáttakendur pallborðsins, frá vinstri: Jessica Hausner leikstjóri, Michele Maheux einn stjórnenda Toronto hátíðarinnar, James Hichey frá Írska kvikmyndasjóðnum, framleiðandinn Lydia Dean Pilcher, Sindre Guldvog forstöðumaður Norsku kvikmyndastofnunarinnar, Anna Serner forstöðumaður Sænsku kvikmyndastofnunarinnar og Agnieszka Holland leikstjóri.

Dögg Mósesdóttir, formaður WIFT á Íslandi, var á kvikmyndahátíðinni í Cannes á dögunum og sótti þar meðal annars málþing um konur og kvikmyndagerð sem haldið var af Sænsku kvikmyndastofnunni og WIFT Nordic. Hún birtir hér hugleiðingar sínar um málþingið og efni þess.


Tími jafnaðar er framundan ef marka má fyrirsögn pallborðs sem átti sér stað 20. apríl síðastliðinn á Cannes kvikmyndahátíðinni, “5050 by 2020” Global Reach. Pallborðið var á vegum sænsku kvikmyndamiðstöðvarinnar og Wift Nordic, félag kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi á Norðurlöndum. Wift Nordic er samstarfsverkefni fimm formanna og stjórnarmanna Wift frá Svíþjóð, Finlandi, Danmörku, Noregi. Ég er fulltrúi Íslands í félaginu. Wift Nordic hefur starfað í þrjú ár og hefur haldið vinnustofur, námskeið og pallborðsumræður á kvikmyndahátíðum aðallega á Norðurlöndum.

Pallborðsumræðurnar fóru fram í höllinni sjálfri Les Palais og salurinn var þétt setinn af konum í meirihluta (eins og alltaf). Fyrstar á sviðið voru tvær frábærar fyrirmyndir, leikstjórarnir, Agniezka Holland og Jessica Hausner. Agnieszka er lifandi goðsögn sem þarf vart að kynna og Jessica Hausner (44 ára frá Austurríkir) á tikomumikinn feril að baki en þrjár af sex myndum hennar hafa verið valdar í Un Certain Regard flokkinn á Cannes og sjálf hefur hún setið í dómnefnd í sama flokki.

Ég varð fyrir svolitlum vonbrigðum þegar Agnieszka hóf einhvers konar látbragðsleik til að lýsa feimnum stúlkum í atvinnuviðtölum. Hún vildi meina að konur þyrftu bara að bera höfuðið hátt og þá gengi þeim betur í bransanum. Anna Serner, forstöðukona sænsku kvikmyndamiðstöðvarinnar, var fljót að skila skömminni og benti á að konur fá þau skilaboð frá samfélaginu að þær eigi að lúta höfði því rödd þeira hafi ekki sama vægi og karla.

Eins og frægt er orðið hefur Anna Serner náð að jafna kynjabilið í úthlutunum sænska kvikmyndasjóðsins á aðeins tveimur árum, þetta er sögulegur hraði. Þessu náði hún fram af mikilli sannfæringu með einföldum og afdráttarlausum aðgerðum. Sú áhrifaríkasta var að hóta kynjakvóta, við það tók bransinn kipp og sá um restina.

Formenn WIFT á Norðurlöndum. Frá vinstri: hin danska Nanna Frank Rasmussen, hin finnska Jenni Koski, Dögg Mósesdóttir, hin norska Ingebjörg Torgesen og hin sænska Helene Granqvist.

Hvað eru gæði?

Anna talaði um hugtakið gæði. Oft er talað um að kyn eigi ekki að skipta máli, styrkir séu veittir á forsendum gæða. En hvað eru gæði og hver ákveður hvað eru gæði? Nýleg sænsk rannsókn við málvísindadeild háskólans í Lundi sýndi fram á tvískiptar skoðanir á gæðum sama texta eftir því hvort sami textinn var sagður eftir konu eða karl. Ef sagt var að textinn væri eftir konu, þótti hann illa skrifaður, innihaldið vanhugsað og orðaforðinn lélegur en sami textinn með “karlhöfundi” þótti með afburðum vel skrifaður, hugmyndin og orðaforðinn góður. Það gefur auga leið að þessi kynjaði lesskilningur hlýtur að hafa áhrif á mat á kvikmyndaumsóknum.

Í kjölfar Önnu Serner stigu á svið, Sindre Guldvog forstöðumaður norska kvikmyndasjóðsins,  James Hickey frá írska kvikmyndasjóðnum og Michèle Maheux, framkvæmdastjóri Toronto International Film Festival í Kanada. Þessir aðilar hafa allir ákveðið að beita aðgerðum til þess að jafna kynjahlutföllin. Að mínu mati virðist mesti krafturinn vera í Kanadamönnum. Kanadíski sjóðurinn ætlar að gera enn betur og stefnir á jöfn kynjahlutföll í úthlutunum árið 2019 og árið 2020 ætla þeir sér jöfn hlutföll í listrænum lykilstöðum. Telefilm Canada hefur sett markmið fyrir 2020 að jafna hlutföllin á öllum fjármögnunarstigum og í öllum listrænum lykilstöðum og fleiri á borð við Canadian Broadcasting Corporation, TIFF og Société de développement des entreprises culturelles hafa sett sér markmið um að jafna hlutföllin, fjölga kvenhlutverkum og jafna hlutföll kvenna í lykilstöðum fyrir árið 2020.

Sænska leiðin orðin að útflutningsvöru

Hin svokallaða sænska  leið í kvikmyndajöfnuði er orðin að eins konar útflutningsvöru. Anna hefur um árabil ferðast um allan heim til að bera út boðskapinn og miðla af reynslu sinni.

Eins og Svíar segja þá eru þeir “bäst i klassen” (bestir í bekknum).  Kannski nokkuð leiðinlegt fyrir okkur Íslendinga því við erum best þegar kemur að jafnrétti á flestum sviðum nema þá helst á sviði kvikmynda og lista. Með nýja kvikmyndasamkomulaginu má vænta jákvæðra breytinga, þar sem hvatt er til jöfnuðar bæði fyrir framan og aftan myndavélarnar. Vonandi verður Ísland dúxinn í bekknum á komandi árum, en til þess þurfum við að vanda okkur og halda okkur við efnið.

Frá hægri: Anna Serner, Jessica Hausner og Agnieszka Holland.

Mikið verk fyrir höndum

Eitt er þó víst að mikið verk er fyrir höndum á heimsvísu eins og kom bersýnilega í ljós á Cannes í ár sem hefur lengi verið karllæg. Aðeins ein kona ,Jane Campion, hefur unnið Gullpálmann í sjötíu ára sögu hátíðarinnar. Sofia Coppola var önnur í röðinni til þess að vinna til verðlauna fyrir leikstjórn í aðalkeppninni en mynd Sofiu var kvenlæg endurgerð á kvikmyndinni The Beguiled. Kannski er kominn tími á að endurgera alla kvikmyndasöguna frá kvenlægu sjónarhorni.

Lítill skilningur virðist vera fyrir vinnandi mæðrum á hátíðinni. Palenstínska leikstýrunni Anne Marie Jacir var neitað um aðgang að höllinni til að ná í passann sinn. Hún er með ungabarn á brjósti en ungabörn eru ekki velkomin í höllina. Svo má ekki gleyma því að mitti og læri leikkonunar Claudia Cardinale voru fótosjoppuð, til að grenna hana, á aðalplakati Cannes.

Á blaðamannafundi dómnefndar Cannes talaði leikkona Jessica Chastain sérstaklega um að hún hafi orðið fyrir áfalli yfir birtingamynd kvenna í myndunum í aðalkeppninni. Hún óskaði jafnframt eftir fleiri og fjölbreyttari kvenkarakterum.

Breytingin þarf að koma að innan

Við getum við talað um kynjahallann í endalausum pallborðum meðal kvenna og beitt ýmsum aðgerðum til þess að ná framförum . Þegar uppi er staðið þarf breytingin að koma að innan með skilning og viðhorfsbreytingu og þá fara aðgerðirnar að virka og þær virka hratt þegar að fólk í valdastöðu, eins og Anna Serner, tileinkar sér þær. Það er kannski engin tilviljun að Kanadamenn hafi verið með tilkomumestu aðgerðirnar í þessu pallborði, við vitum öll hvernig mann kanadíska þjóðin kaus til forseta.

Dögg Mósesdóttir
Dögg Mósesdóttir
Höfundur er leikstjóri, handritshöfundur og formaður WIFT á Íslandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR