Hjördís Stefánsdóttir skrifar um Grimmd Antons Sigurðssonar í Morgunblaðið og gefur henni þrjár stjörnur. Hún segir leikstjóra og leikara nálgist efniviðinn af nærgætni sem einkennist af djúpu, óhvikulu og áræðnu innsæi, en frásögnina rislitla og næstum langdregna.
Umsögn Hjördísar er sem hér segir:
Glæpasagan Grimmd er önnur frásagnarmynd upprennandi kvikmyndagerðarmannsins Antons Sigurðssonar í fullri lengd. Anton nam leikstjórn og framleiðslu við Kvikmyndaskóla Íslands og hefur greinilega brennandi áhuga á faginu. Með elju og drífandi ástríðu fyrir listsköpun sinni réðist hann í gerð metnaðarfullrar frumraunar og frumsýndi hrollvekjuna Grafir og bein í kvikmyndahúsum hérlendis haustið 2014. Handrit þeirrar myndar var þó fallvalt, svo að heildarútkoman rann að mestu út í sandinn. Antoni tekst heldur betur upp að þessu sinni þótt annmarkar á frásagnarfléttu og framvindu séu aftur Akkilesarhæll heildarinnar.
Grimmd er málsmeðferðardrama sem hefst á því að tvær barnungar systur finnast myrtar á snjóbreiðu í Heiðmörk, tveimur sólarhringum eftir að þær hurfu sporlaust af leikvelli í Árbænum. Óhug slær á þjóðina, sem fylgst hefur grannt með leitinni að systrunum, og spjótin beinast að lögreglunni, sem hefur fáar haldbærar vísbendingar og nánast engin sönnunargögn til að byggja á. Málið er í höndum tveggja reyndra rannsóknarlögreglumanna, þeirra Eddu Davíðsdóttur (Margrét Vilhjálmsdóttir) og Jóhannesar Schram (Sveinn Ólafur Gunnarsson), en þau neyðast til að velta við hverjum steini í leit að svörum og byrja á að kalla inn alla þekkta og áður dæmda níðinga sem brotið hafa á börnum. Þrátt fyrir að þau séu bæði staðráðin í að leysa málið tekur að hrikta í samstarfinu og stoðum réttvísinnar þegar málið heldur áfram að vinda upp á sig og dragast á langinn. Draugar fortíðar fara á stjá og ýfa upp gömul sár og þegar þjóðin ókyrrist enn frekar fer að örla á múgæstum nornaveiðum og óttadrifnum hefndarþorsta. Þá er voðinn vís og góð ráð dýr.
Mikil rannsóknarvinna
Mikil rannsóknarvinna liggur að baki handritinu og sögunni. Lögreglan veitti ráðgjöf og bauð leikurum og tæknifólki að fylgjast með framkvæmd rannsókna og verklagi við yfirheyrslur. Einnig fengu aðstandendur greinargóða innsýn í starf meinatækna og annarra tæknimanna við öflun og úrvinnslu ýmiss konar sönnunargagna. Fyrir vikið fylgir handritið eiginlega starfsháttum lögreglu of raunsæislega eftir þannig að sagan verður ekki mjög grípandi og flæði ekki nógu gott. Lögreglan þarf vissulega að elta uppi alla áðurdæmda níðinga í svona viðkvæmum málum þegar sönnunargögnin eru ekki afgerandi en nákvæmar útilokunaraðgerðir með ótal öngstrætum eru einar og sér ekki nægilega spennandi upplag að góðri sakamálamynd. Frásögnin verður rislítil og næstum langdregin því hún er keyrð á svipuðum takti út í gegn og mikið er um óþarfa útskýringar og vafstur. Flétta myndarinnar er einnig frekar almenn eins og í formúlubyggðum framhaldsþáttaseríum. Myndin er vel gerð og dramað sannfærandi en ekki eftirminnilega sértækt. Betra hefði verið að leggja út af framandlegri glæp sem væri ráðgáta í sjálfum sér eða kenjóttari, sérvitrari aðalsöguhetjum til að brydda upp á hádramatískt raunsæið eins og til dæmis var gert í Mýrinni (2006).
Efniviður myndarinnar er viðkvæmur og vandmeðfarinn en leikstjóri og leikarar nálgast hann af nærgætni sem einkennist af djúpu, óhvikulu og áræðnu innsæi. Út frá mannlegri samkennd er rýnt í orsakir og afleiðingar viðurstyggilegs níðingsskapar á fórnarlömb, aðstandendur þeirra og samfélagið í heild. Sagan varpar ljósi á það hvernig illrjúfanlegur grimmur vítahringur viðheldur sér þar sem flestir níðingar voru sjálfir brotaþolar í æsku. Þessi fórnarlömb verða síðar óforbetranlegir úlfar í sauðagæru sem bera ósýnileg ör og þurfa dag hvern að kljást í leynd við hamlandi persónuleikabresti um leið og þeir leita að ást og viðurkenningu annarra, oft dreymandi um skilorð og annað tækifæri.
Margar eftirminnilegar senur
Helstu persónur myndarinnar eru vel skapaðar og gæddar átakanlegum tilfinningum og innra sálarstríði þar sem angist, harmur og heift eru ytri tjáningarmyndir rotinnar innri kviku þöggunar og myrkra fjölskylduleyndarmála. Leikstjórinn heldur ágætlega utan um þennan nokkuð stóra hóp persóna og leikurunum er gefið gott andrúm til að gera hlutverkum sínum frámunalega góð skil. Fyrir vikið eru margar sterkar og eftirminnilegar senur í myndinni. Sveinn Ólafur fer á kostum í viðsjárverðum yfirheyrslum og frammistaða Margrétar Vilhjálms er sannfærandi út í gegn en hún er einna tilþrifamest í spennuþrungnustu senu myndarinnar þar sem hún sækir heim tvo skuggalega sambýlinga sem báðir kalla sig Jón. Hannes Óli Ágústsson á leiksigur í hlutverki einfeldningsins Magna þar sem hann pukrast um og liggur á meinfýsnum gægjum í íþróttahúsi barnaskóla. Samskipti Magna við móður sína, leikna af Ólafíu Hrönn Jónsdóttur, eru einnig krassandi. Pétur Óskar Sigurðsson sýnir meistaratakta í hlutverki samfélagslega olnbogabarnsins Andra, sem gengur hálfbrösulega að fóta sig í lífinu. Nærvera hans og ásjóna á skjánum fær ein og sér á áhorfendur. Atli Rafn Sigurðsson og Salóme Gunnarsdóttir gera sínum persónum einnig góð skil þótt aðstæður þeirra séu stundum svolítið klisjukenndar.
Kvikmyndatakan er frambærileg, áferðarfögur og skýr. Mikið ber á áhrifaríkum nærmyndum af svipbrigðamiklum andlitum eða enn ýktari nærmyndum af ákveðnum líkamshlutum fórnarlamba. Fallegar yfirlitsmyndir af borgarlandslaginu fangaðar með drónum létta svo á nárýni nærmyndanna. Sviðsmyndir og förðun eru vel heppnuð og raunsæ án þess að verða of ágeng og miðla stóískri hluttekningu og virðingu fyrir viðfangsefninu. Talsetning myndarinnar stingur svolítið í stúf en á móti kemur að hvert sagt orð heyrist greinilega. Annmarkar í handriti eru eins og fyrr segir helsti Akkilesarhæll heildarinnar en að sama skapi líða yfir tjaldið margar afar eftirminnilegar og vel leiknar senur. Þær virka eins og ljóslifandi raunsannar örsögur sem skyggnast inn í rotin samfélagsmein, þar sem meinlegar illa upprætanlegar fýsnir grassera, bak við luktar dyr og í fylgsnum brostinna sála.