Filmur sem fundust á botni Faxaflóa fyrr í þessum mánuði eru úr sovéskri bíómynd frá árinu 1968. Starfsmenn Kvikmyndasafns Íslands hafa þurrkað filmurnar og skoðað þær síðustu daga. RÚV greinir frá.
Í frétt RÚV um málið segir m.a.:
Þann 2. júlí fengu skipverjar á humarskipinu Fróða filmur í trollið. Filmunum var komið til Kvikmyndasafns Íslands, sem rannsakaði þær nánar, eins og fréttastofa hefur greint frá. Grunur lék að myndirnar væru úr bandaríska herskipinu Alexander Hamilton, sem fórst á Faxaflóa árið 1942.
Þurrkuðu filmurnar og færðu á klippiborð
Erlendur Sveinsson, forstöðumaður safnsins, hefur síðustu daga undið ofan af filmunum og þurrkað þær, enda sjóblautar eftir áratuga veru á hafsbotni. Því næst voru þær vafðar upp á kjarna og færðar á klippiborð til skoðunar.
„Ég sá strax að ég myndi geta náð römmum út úr henni. Og veiddi út nokkra ramma á ljósmyndavél og gekk frá þeim síðan á Facebook síðu okkar. Og ég var svona að vona að einhver myndi reka augun í þetta,“ segir Erlendur.
Upp úr krafsinu kom sovésk mynd
Þá var ákveðið að skanna tvær spólur sem tekist hafði að þurrka og horfa á þær.
„Sem mér fannst náttúrulega með gríðarlegum ólíkindum. Að við værum komnir með kvikmyndir frá hafsbotni í land og það er búið að þurrka þær og koma þær í skanna og við værum að horfa á þær og skoða,“ segir Erlendur. Þegar rýnt var í myndina sáu Erlendur og félagar að um sovéska mynd væri að ræða.
„En hversu gömul hún var og það allt saman, það var náttúrulega óljóst.“
Sveitalögga frá kaldastríðsárunum
Í dag leystist gátan. Myndin er ekki frá því úr síðari heimsstyrjöld, heldur frá árinu 1968 – í miðju kalda stríðinu.
Það var Mikhail Timofeev sem benti á þetta á Facebook-síðu Kvikmyndasafnsins í dag. Timofeev er búsettur á Íslandi en hann sá myndina sem barn. Myndin heitir Derevenskij detekviv,“ eða Sveitalöggan og er frá árinu 1968 og fjallar um lögreglufulltrúann Aniskin og störf hans í litlu sveitaþorpi.
Filmufundurinn vakið mikla athygli
Fundur skipsverjanna á Fróða hefur vakið nokkra athygli. Rússneska sendiráðið sendi Kvikmyndasafninu í Moskvu fyrirspurn um myndina og Alþjóða kvikmyndasafnasambandið bauðst til að senda dreifibréf til allra 162 meðlima sambandsins, í þeirri von að finna út úr því um hvaða mynd væri að ræða.
Það er þó á reiki hvað myndin var að gera á botni Faxaflóa en henni gæti hafa verið kastað útbyrðis úr sovésku skipi einhvern tímann á áttunda áratugnum.
Sjá nánar hér: Sovésk „sveitalögga“ á botni Faxaflóa | RÚV
Að neðan er svo fyrri hluti stuttrar myndar sem Kvikmyndasafnið vann um kvikmyndarfundinn.