RVK Studios kaupir eignir undir kvikmyndaver á 301 milljón

gufunes001Borgarráð samþykkti samhljóða á fundi sínum í dag kaupsamning við framleiðslufyrirtæki Baltasars Kormáks, RVK-studios, sem kaupir fjórar fasteignir á Gufunesi fyrir rúmar 301 milljón undir kvikmyndaver sem félagið er með á teikniborðinu. RVK-studios greiðir jafnframt tæpar tvær milljónir á ári vegna vilyrðis fyrir um 19.200 fermetra svæði austan bygginganna.

RÚV greinir frá og þar segir ennfremur:

Eignirnar tilheyrðu áður gömlu Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi og eru meðal annars birgðageymsla og hráefnisgeymsla – samtals 8.391 fermetri.

Kaupverðið er 301 milljón og samkvæmt drögum að kaupsamningi, sem kynnt voru í borgarráði í morgun,  verður það greitt í tveimur jöfnum greiðslum. Sú fyrri við afhendingu eignanna í byrjun ágúst, sú seinni fyrir 1. febrúar á næsta ári.

Í drögunum kemur þó fram að áður en greiðslan í febrúar verður innt af hendi verður gerð eiturefnarannsókn á jarðveginum.  Leiði rannsóknin til þess að jarðvegurinn teljist mengaður af eiturefnum sér Reykjavíkurborg til þess að hreinsa svæðið og bera kostnaðinn af því. Komi í ljós að jarðvegurinn sé of mengaður getur Reykjavik Studios rift samningnum.

Þá kemur einnig fram að starfsemi RVK studios og Íslenska gámafélagið verði að láta sér lynda saman. Gámafélagið verður nefnilega áfram til staðar á svæðinu næstu sex árin. Þó á að gera ráðstafanir sem eiga að halda ónæði af starfseminni í lágmarki og að hún komi ekki í veg fyrir að hægt verði að nýta kvikmyndaverið eins og ráð er fyrir gert.

RVK -studios fær einnig vilyrði til þriggja ára fyrir 19.200 fermetra svæði austan við byggingarnar og greiðir fyrir það þúsund krónur á fermetra á ári hverju eða tæpar tvær milljónir.

Í vilyrðinu kemur fram að markmið framleiðslufyrirtækisins sé að byggja upp svokallað menningar- og/eða kvikmyndaþorp með þjónustu sem slík starfsemi gerir kröfu um.  Greiðslan fyrir vilyrðið rennur upp í lóðarverðið  ákveði RVK studios að nýta sér það.

Baltasar óskaði í fyrrasumar eftir viðræðum um kaup á hluta af gömlu Áburðarverksmiðjunni undir aðstöðu fyrir kvikmyndastarfsemi þar. Í bréfi framleiðslufyrirtækisins til borgaryfirvalda kom meðal annars fram að allt benti til þess að víkingamynd, sem leikstjórinn hefur verið með í vinnslu síðastliðinn áratug, verði að veruleika á næstu misserum í samstarfi við bandaríska aðila.  Verkefnið væri mjög stórt og þyrfti aðstöðu hér á landi – áhugi væri á því að kanna möguleika á uppbyggingu við Gufunes.

Sjá hér: Kaupir eignir undir kvikmyndaver á 301 milljón | RÚV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR