Greining | „Hrútar“ mest sótta íslenska myndin 2015

Verðlaunahrútar.
Hrútar er mest sótta íslenska kvikmyndin 2015.

Íslenskum myndum í kvikmyndahúsum fjölgaði nokkuð 2015 en um leið varð töluverður samdráttur í aðsókn og markaðshlutdeild miðað við 2014 sem var eitt besta ár íslenskra kvikmynda hvað aðsókn varðar síðan mælingar hófust. Hrútar varð mest sótta íslenska myndin 2015.

Sýningum á íslenskum kvikmyndum (þ.m.t heimildarmyndum) fjölgaði í kvikmyndahúsum árið 2015 þar sem þær voru 16 talsins miðað við 9 kvikmyndir árið á undan. Þessa fjölgun má m.a. rekja til þess að nú eru upplýsingar um sýningar í Bíó Paradís með í fyrsta sinn á lista FRÍSK (þó að Klapptré hafi áður birt slíkar upplýsingar).

Þrátt fyrir fjölgun voru tekjur íslenskra kvikmynda umtalsvert minni árið 2015 eða 73.824.318 kr. sem er um 63 prósenta lækkun frá árinu á undan þegar íslenskar myndir höluðu inn tæpar 197 milljónir króna. Aðsókn 2015 nam 61.847 gestum í samanburði við 148.146 gesti 2014.

Árið 2014 var reyndar einkar gott ár en þá var m.a. kvikmyndin Vonarstræti stærsta mynd ársins. Aðeins ein íslensk mynd kemst á topp tuttugu listann yfir vinsælustu myndir ársins 2015 en það er kvikmyndin Hrútar sem var fjórtánda vinsælasta mynd ársins með heildartekjur upp á rúmar 29 milljónir króna og er myndin enn í sýningu eftir 32 vikur.

Þær þrettán íslensku kvikmyndir (og heimildarmyndir) sem sýndar voru á árinu voru með 4,8 prósent af markaðnum í tekjum talið en árið 2014 voru 9 íslenskar myndir með 13,3 prósent af heildartekjum. Til samanburðar voru sjö íslenskar myndir með 3,6 prósent af markaðnum í tekjum talið árið 2013.

Hér að neðan má sjá listann yfir aðsókn og tekjur á íslenskar kvikmyndir 2015. Athugað að röðun á listann er eftir aðsókn, sem breytir röðinni lítillega miðað við þann lista sem FRÍSK sendir frá sér þar sem miðað er við tekjur.

Aðsókn á íslenskar kvikmyndir 2015

HeitiDreifingTekjurAðsókn
HrútarSena29.201.840 kr.21.546
FúsiSena17.441.514 kr.13.083
BakkSena9.329.860 kr.7.515
AlbatrossSena2.952.260 kr.4.470
ÞrestirSena3.890.310 kr.3.913
Stúlkurnar frá KleppjárnsreykjumBíó Paradís3.797.400 kr.3.058
WebcamSena2.758.650 kr.2.717
AusturSena781.930 kr.1.319
Óli prikSena931.440 kr.1.175
Hvað er svona merkilegt við það?Samfilm494.300 kr.546
Jóhanna - Síðasta orrustanBíó Paradís396.500 kr.521
Horizon (Sjóndeildarhringur)Bíó Paradís298.800 kr.498
BlóðbergSamfilm670.100 kr.491
Algjör Sveppi og Gói bjargar málunum*Samfilm414.614 kr.366
VeðrabrigðiBíó Paradís128.800 kr.310
Trend BeaconsBíó Paradís236.400 kr.196
I want to be weirdBíó Paradís99.600 kr.123
73.824.318 kr.61.847

Heimild: FRÍSK | *Frumsýnd 2014, tölur 2015 | Blóðberg var frumsýnd á Stöð 2, sýningar í kvikmyndahúsum hófust um viku síðar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR