Greining | „Everest“ mest sótta myndin á Íslandi 2015, aðsókn eykst í bíó

Ingvar E. Sigurðsson leikur rússneska fjallgöngugarpinn Anatoli Boukreev í myndinni.
Everest varð mest sótta myndin 2015 á Íslandi.

Aðsókn í kvikmyndahúsin jókst lítillega á síðasta ári miðað við það síðasta, eða um 2,8%. Þá jukust tekjur um 4,44% miðað við 2014. Þetta er nokkur viðsnúningur frá undanförnum árum þar sem hægur samdráttur í aðsókn og tekjum átti sér stað. Everest Baltasars Kormáks varð mest sótta myndin á árinu.

Aðsókn og tekjur 2015

Aðsóknartekjur kvikmyndahúsa árið 2015 voru kr. 1.551.569.621 en það er 4,44 prósenta aukning frá árinu 2014 þegar tekjur námu kr. 1.485.618.475. Fjöldi þeirra sem mættu í kvikmyndahús á árinu 2015 var 1.382.494 manns, sem er aukning um 2,8 prósent frá árinu 2014 en þá var fjöldi þeirra sem mættu í kvikmyndahús 1.344.569.

Það má því segja að bíóárið 2015 hafi verið nokkuð gott þar sem aðsókn í kvikmyndahús hefur verið að dragast saman undanfarin ár en að þessu sinni fer aðsókn upp á milli ára í fyrsta skipti síðan 2009.

Á árinu voru sýndar fjórar myndir þar sem aðsókn var yfir 50.000 manns. Þá raða tvær stærstu myndirnar sér á lista yfir topp tuttugu vinsælustu kvikmyndir á Íslandi frá upphafi mælinga. Það eru myndirnar Everest, sem varð vinsælasta kvikmynd landsins með rúmar 89 milljónir í tekjur, og Star Wars: The Force Awakens, sem var með tæpar 80 milljónir í tekjur um áramótin þótt hún hafi ekki verið frumsýnd fyrr en 18. desember síðastliðinn.

Sú síðarnefnda er enn í sýningu og munu því heildartekjur hennar verða hærri. Fyrsti sýningardagur kvikmyndarinnar var jafnframt sá tekjuhæsti í íslenskri kvikmyndasýningasögu og var hún þá sýnd allan sólarhringinn. Sú mynd var jafnframt stærsta mynd ársins í Bandaríkjunum.

Taka skal fram að FRÍSK, samtök myndrétthafa á Íslandi, mæla vinsældir kvikmynda ávallt í tekjum, en ekki aðsókn. Ekki er búið að núvirða tekjur eldri kvikmynda.

Þróun miðaverðs

Meðalverð á bíómiða var um 1.123 kr., sem er um 1,6 prósenta hækkun frá árinu á undan og er verð bíómiða á Íslandi sambærilegt við meðalverð bíómiða í Bandaríkjunum (áætlað að lágmarki 8,34 bandaríkjadalir á árinu 2015, þ.e. um 1.098 kr.). Miðaverð hér er lægra en í löndunum í kringum okkur en til samanburðar má geta þess að meðalverð í Bretlandi árið 2014 var 1.299 kr. og í Danmörku um 1.540 kr. Það skal tekið fram að hér er einn hæsti skattur á bíómiða í heiminum eða 25 prósent árið 2015 (24 prósent virðisaukaskattur og eitt prósent STEF-gjald). Þess má einnig geta að skattur á aðgöngumiðum kvikmyndahúsa í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi er á bilinu 6–10,5 prósent.

Þá var franska myndin Ömurleg brúðkaup eða Qu’est-ce qu’on a fait au Bon Dieu? mjög vinsæl í kvikmyndahúsum í byrjun árs með tæpar 24 milljónir í tekjur af seldum aðgöngurmiðum.

Í fyrsta sinn á árinu 2015 voru tekjur af miðasölu í Bíó Paradís með í gagnagrunni FRÍSK um aðsóknartölur kvikmyndahúsanna. Séu þær tölur dregnar frá til að fá réttan samanburð á milli ára, hafa heildartekjurhækkað um 3,4 prósentur og aðsókn um 1,7 prósentur.

Hér að neðan má sjá þróun í tekjum og aðsókn í kvikmyndahús á Íslandi 2005-2015 (heimild: FRÍSK):

GRAF-tekjur kvikmyndahúsa-2005-2015 GRAF-aðsókn kvikmyndahúsa-2005-2015

Listi yfir 20 tekjuhæstu myndir á Íslandi 2015 (Heimild: FRÍSK):

HeitiDreifngTekjurAðsókn
EverestMyndform89.120.246 kr.67.436
Star Wars: The Force AwakensSamfilm77.905.126 kr.58.672
SpectreMyndform63.513.261 kr.52.850
MinionsMyndform52.938.218 kr.54.206
Jurassic WorldMyndform49.348.627 kr.39.604
Avengers: Age Of UltronSamfilm48.517.104 kr.39.839
Hobbit: The Battle of the five Armies **Myndform40.658.985 kr.31.971
Fast & Furious 7Myndform34.702.525 kr.30.313
Inside OutSamfilm34.590.537 kr.36.549
Hunger Games Mockingjay part 2Myndform33.737.545 kr.25.460
Mission Impossible: Rogue NationSamfilm33.685.489 kr.28.931
Mad Max: Fury RoadSamfilm33.173.684 kr.26.915
The SpongeBob Movie: Sponge Out of WaterSamfilm32.310.934 kr.35.598
HrútarSena29.201.840 kr.21.546
The MartianSena27.468.611 kr.19.928
Kingsman:Secret ServiceSena27.034.676 kr.24.744
PaddingtonMyndform25.472.607 kr.28.316
Hotel Transylvania 2Sena24.096.448 kr.24.293
Ömurleg brúðkaup (Serial Bad Weddings)Sena23.820.741 kr.21.461
Pitch Perfect 2Myndform23.680.379 kr.20.536

*Kvikmynd enn í sýningu og því ekki um endanlegar heildartekjur eða aðsókn að ræða| **Frumsýnd 2014, tölur 2015.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR