Gunnar Hansen, leikari í kunnum bandarískum hrollvekjum, lést í gær 68 ára að aldri. Gunnar var fæddur í Reykjavík en fluttist til Bandaríkjanna 5 ára gamall. Hann er kunnastur fyrir hlutverk sitt sem þroskahefta mannætan Leatherface í The Texas Chainsaw Massacre eftir Tobe Hooper frá 1974. Hann lék einnig lítið hlutverk í mynd Júlíusar Kemp, The Reykjavik Whale Watching Massacre frá 2009.
Gunnar og fjölskylda fluttist til Maine þar sem Gunnar bjó mesta alla sína tíð. Hann stundaði nám við The University of Texas í norrænum fræðum og ensku. Hann fór í prufur þegar Tobe Hooper og hans teymi kom til Austin að gera The Texas Chainsaw Massacre og var ráðinn í hlutverk Leatherface. Myndin vakti gríðarlega athygli og naut mikillar aðsóknar á sínum tíma. Óhætt er að segja að hún hafi haldið nafni Gunnars á lofti allar götur síðan.
Gunnar starfaði einnig við skriftir fyrir tímarit, auk þess sem hann gaf út bækur og skrifaði kvikmyndahandrit. Alls lék hann í um 30 hryllingsmyndumá ferlinum og við andlát sitt vann hann að kvikmyndinni Death House, bæði sem leikari og handritshöfundur. Myndin er sögð væntanleg á næsta ári.Gunnar lék lítið hlutverk í kvikmynd Júlíusar Kemp, The Reykjavik Whale Watching Massacre, sem gerð var eftir handriti Sjón 2009 og kinkar greinilega kolli til hinnar frægu hrollvekju frá Texas. Persónu Gunnars, Pétri skipstjóra, er eftirminnilega komið fyrir kattarnef snemma í myndinni.