Óttar Guðnason er tökumaður myndarinnar „Hitman: Agent 47“

Óttar Guðnason tökumaður.
Óttar Guðnason tökumaður.

Um helgina verður kvikmyndin Hitman: Agent 47 frumsýnd um allan heim, en henni er dreift af 20th Century Fox. Óttar Guðnason er tökumaður myndarinnar en hann hefur meðal annars myndað tvær mynda Baltasars Kormáks, Little Trip to Heaven og Inhale.

Fréttatíminn ræddi við Óttar:

„Tökurnar kláruðust í maí á síðasta ári,“ segir Óttar. „Svo hefur hún verið í kringum 14 mánuði að skolast til í klippi og eftirvinnslu. Þetta er framhald myndarinnar Hitman frá árinu 2007, og er byggt á samnefndum tölvuleik. Þetta er einn af þessum stóru tölvuleikjum og fyrri myndin gekk gríðarlega vel fjárhagslega. Svo stóð til að gera ákveðið vörumerki úr þessari mynd, sem gekk ekki alveg eftir svo það liðu sjö ár þar til að ráðist var í að gera aðra, sem er þessi mynd sem tilbúin núna,“ segir Óttar.

Frumsýnd í 6.500 kvikmyndahúsum
Óttar var einn af nokkrum kvikmyndatökumönnum sem þóttu koma til greina fyrir myndina og segir hann að hann hafi hreppt hnossið af nokkrum ástæðum. „Leikstjóri myndarinnar, Alexander Bach, er pólskur, og hefur eingöngu unnið við auglýsingar undanfarin ár,“ segir Óttar. „Ég hafði aldrei unnið með honum en við eigum marga sameiginlega vini. Hann gerði lista með þremur tökumönnum sem hann hafði heyrt af, og ég var einn af þeim. Svo byrjaði hálfgert umsóknarferli. Myndin er stúdíómynd, sem þýðir að það er eitt af stóru kvikmyndaverunum, 20th Century Fox, sem framleiðir hana. Þeir vilja ganga úr skugga um að tökumaðurinn sé fær, vinni hratt, sem sparar þeim pening og tíma og að hann sé samvinnuþýður og þess háttar,“ segir Óttar.

„Um leið og Fox gaf grænt ljós á mig, þá hófust tökur. Um helgina er kvikmyndin frumsýnd á sama tíma í Evrópu og Bandaríkjunum og hún fær mikla dreifingu, sem þýðir að það eru miklar vonir bundnar við hana. Það er óvenjulegt að mynd sé frumsýnd í báðum heimsálfum í einu og hún er að fara í fjögur þúsund kvikmyndahús í Ameríku og 2500 hús í Evrópu sem er brjálæðislega mikið,“ segir Óttar. „Mér var boðið út á frumsýninguna í Berlín, þar sem allir verða viðstaddir. Ég hreinlega nenni því ekki þar sem myndin er döbbuð á þýsku þar,“ segir Óttar.

Stiklu myndarinnar má sjá hér að neðan.

Sjá nánar hér: Sjómannslíf að vera tökumaður í Hollywood – FRÉTTATÍMINN

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR