Kvikmynd sem öskrar á núið segir Valur Gunnarsson í DV um Webcam. „Jú, þetta er Ísland og hér gerum við hlutina í öfugri röð. Sagan fjallar því ekki um að glata sakleysi sínu heldur frekar um að endurheimta það.“
Valur segir meðal annars:
Hér er engin íslensk sveitasæla, heldur erum við stödd í stórborginni Reykjavík. Nóg er af fiskum í sjónum og ef einhver stendur sig ekki er honum samstundis hent aftur út í. Og það er margt við myndina sem öskrar einmitt á núið. Á tímum þar sem byltingarhugtakið snýst meira um að vera ber að ofan heldur en efnahagslegt réttlæti er spurningin um hvort kærastar eigi einkarétt á að sjá kærustur sínar naktar eða hvort það teljist kvennakúgun í hæsta máta relevant. Og eiga karlmenn í dag eitthvað erindi við konur, eða felst frelsið í því að nota þá til eingangsbrúks á meðan raunveruleg sambönd geta bara átt sér stað kvenna á milli?
Það er erfitt að átta sig á því hvar maður hefur Webcam, hvort hún sé satíra eða fúlasta alvara. Því virðist tekið sem gefnu að sönn ást felist ekki í því að öppdeita sambandsstatusinn á Facebook heldur að eiga mök saman á Webcam. Samræðurnar virka þó flestar sannar og sumar eru listilega vel skrifaðar, svo sem „ellefti september á alltaf við“-senan. Dýpri rannsókn á umfjöllunarefninu hefði skilað fyrsta flokks mynd, en hér er þó nóg til að tala um og er það nokkurs virði. Velkomin í samtímann.
Sjá nánar hér: Klámkynslóðin, taka 2 – DV