Andri Snær Magnason rithöfundur skrifar eftirmæli um Þorfinn Guðnason kvikmyndagerðarmann í Herðubreið. Útför Þorfinns fór fram frá Hallgrímskirkju s.l. föstudag.
Andri Snær segir meðal annars:
Ég kynntist Þorfinni Guðnasyni þegar kvikmyndun á Draumalandinu stóð fyrir dyrum og við Sigurður Gísli Pálmason, framleiðandi myndarinnar, leituðum að leikstjóra. Við höfðum samband við Þorfinn og ég man að ég var nokkuð feiminn við að hafa samband við hann, fannst ég jafnvel dálítið höfðingjadjarfur. Þorfinnur hafði haft mikil áhrif á mig þegar ég var sjálfur að spá í hvernig ætti að feta listabrautina, myndin um hagamýsnar Óskar og Helgu var ólík flestum náttúrulífsmyndum sem ég hafði séð og svo kom Lalli Johns, einkennileg mynd, sorgleg, fyndin, heillandi og napurleg og aftur – ólík öllu því sem maður hafði séð í íslenskri kvikmyndagerð. Hún fékk mann til að hugsa á annan hátt um þetta listform sem heimildarmyndin er.
Við unnum náið saman í nokkur ár á meðan Draumalandið var í vinnslu, það sem átti að verða nokkurra mánaða átaksverkefni árið 2006 varð að nokkurra ára samvinnu og síðar að góðri vináttu.
Þegar maður hugsar núna til baka þá var vinnan með Toffa kringum Draumalandið býsna ævintýraleg en þetta voru sérkennilegir tímar, nánast óraunverulegir í minningunni. Að aka um Austurland og heimsækja Örn í Húsey, snæða hjá honum heilsteiktan hrygg af selkóp sem var veiddur í Jöklu, að ríða meðfram ánni og niður að ósi, að ríða um land sem hafði þegar breyst og myndi gerbreytast að örfáum árum liðnum. Þarna hafði Toffi sjálfur dvalið 12 ára gamall og gert sína fyrstu heimildarmynd um þetta einstaka svæði. Við lágum heila nótt yfir lítilli tjörn og biðum á meðan Toffi leitaði að hinu fullkomna augnabliki: þegar lómurinn myndi skríða úr hreiðri sínu og synda á spegilsléttri tjörn í töfrabirtunni. Það tók um sex klukkustundir að ljúka skotinu – en það tókst og við fönguðum 7 sekúndur fyrir myndina.
Og ennfremur:
Þorfinnur hafði næmt auga, hann var mikið og vel lesinn, hann var mikill dundari og hafði áhuga á að vinna leikið efni, skrifa bækur og var með ótal járn í eldinum.
Hann hafði góðan og sérkennilegan húmor, hann hafði gaman af sérstöku fólki, óvenjulegum aðstæðum og súrrealisma í hinu daglega lífi. Í Bakka-Baldri er það maður úr Svarfaðardal sem heimsækir hest sinn til Hawaii og í Víkingo er aðalhetjan framsóknarmaður sem lifir tvöföldu lífi og reynist vera einskonar goðsögn í hanaati í Dóminíkanska lýðveldinu sem leitar ráðgjafar hjá vúdúpresti. Toffi átti sín fingraför, einskonar stef eða vatnsmerki sem honum þótti gaman að smeygja inn í myndir sínar og myndirnar hans voru allar persónulegar á einhvern hátt – þótt þær fjölluðu ekki beinlínis um hann sjálfan.
Eftirmælin í heild sinni má lesa hér: Hinir fengu rödd, hann fékk auga. Eftirmæli um Þorfinn Guðnason : Herðubreið.