Minning | Þorfinnur Guðnason 1959-2015

Þorfinnur Guðnason.
Þorfinnur Guðnason.

Þorfinnur Guðnason kvikmyndagerðarmaður er látinn, 55 ára að aldri. Þorfinnur var einn helsti heimildamyndasmiður Íslendinga og á að baki fjölda slíkra verka.

Hann útskrifaðist 1987 frá California College of Arts and Crafts þar sem hann lagði stund á nám kvikmyndagerð. Í framhaldi af því hóf hann störf hjá Sjónvarpinu þar sem hann starfaði um árabil sem myndatökumaður, klippari og dagskrárgerðarmaður.

Um miðbik tíunda áratugsins sneri hann sér að gerð heimildamynda. Fyrsta myndin sem hann sendi frá sér var Húsey árið 1995. Önnur mynd hans er Hagamús: með lífið í lúkunum, sem vakti mikla athygli og hefur verið sýnd og verðlaunuð víða um lönd.

Þriðja mynd Þorfinns er Lalli Johns frá árinu 2001. Myndin var sýnd í Háskólabíói á sínum tíma við áður óþekktar vinsældir heimildamyndar á vettvangi kvikmyndahúsa. Hún hlaut einnig Edduverðlaunin sem heimildamynd ársins.

Fjórða heimildamynd Þorfinns, Grand Rokk, fjallar um andrúmsloftið á samnefndu veitingahúsi og 2004 sendi hann frá sér fimmtu mynd sína, Hestasögu, sem einnig hefur ferðast víða.

2009 sendi hann frá sér kvikmyndina Draumalandið sem hann gerði í samvinnu við Andra Snæ Magnason. Myndin er mest sótta heimildamynd íslenskrar kvikmyndasögu og hlaut Edduverðlaun sem heimildamynd ársins auk þess að vera sýnd á ótal hátíðum um veröld víða.

Síðastliðin fimm ár sendi Þorfinnur frá sér þrjár myndir; Garðarshólma (2010) um eftirmála hrunsins og tilraun til nýrrar samfélagsuppbyggingar, Bakka-Baldur (2011) um náið samband manns og hests – og nú rétt fyrir síðustu áramót Víkingó um íslenskan hanaatshaldara og vini hans í Dóminíska lýðveldinu.

 

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR