Margrét Örnólfsdóttir formaður FLH – Félags leikskálda og handritshöfunda, fór við þriðja mann á heimsráðstefnu handritshöfunda í Varsjá 1. og 2. október síðastliðinn. Hún segir frá því sem á daga þeirra dreif í eftirfarandi pistli.
Við vorum eins og börn eftir langvarandi sælgætisbindindi sem fá loksins sjoppuleyfi, undirrituð og tveir félagar til viðbótar úr Félagi leikskálda og handritshöfunda, þegar við héldum á heimsráðstefnu handritshöfunda í Póllandi fyrr í þessum mánuði, því það er ekki á hverjum degi sem gefst tækifæri til að hitta á einu bretti kollega alls staðar að úr heiminum til að ræða fagið, hagsmunamálin og allt mögulegt sem viðkemur handritsskrifum – sýna sig og sjá aðra úr þessum annars sviðsljósfælnasta hópi kvikmyndageirans.
Heimsráðstefna handritshöfunda (World Conference of Screenwriters) er stærsti viðburður sinnar tegundar í heiminum og að honum standa Evrópsku handritshöfundasamtökin FSE og IAWG (International Affiliation of Writers Guilds). Ráðstefnuna í ár sóttu fulltrúar 30 handritshöfundasamtaka víðs vegar að úr heiminum en að baki þeim standa um 56 þúsund félagar. Markmiðið er að auka samskipti og samstarf, efla samhug meðal höfunda heimsins og skerpa á meðvitund um nauðsyn þess að standa sameiginlegan vörð um hagsmuni höfunda í umhverfi þar sem æ erfiðara verður að verja höfundarétt og tryggja réttlátar tekjur af hugverkum.
Hið skandínavíska fenómen
Heimsráðstefnan í Varsjá var sú þriðja í röðinni, áður hefur hún verið haldin í Aþenu ‘09 og í Barcelona fyrir tveimur árum, en nú voru það Pólverjarnir sem buðu heim og gerðu það með miklum myndarbrag. Hátíðin opnaði með nýjustu kvikmynd Andrzej Wajda, Man of Hope, sem er ævisögulegmynd um Lech Walesa. Wajda var sjálfur viðstaddur sýninguna og hélt tölu á eftir. Hann hafði auðvitað frá fjölmörgu áhugaverðu að segja frá 60 ára ferli sem einn helsti kvikmyndagerðarmaður Póllands, meðal annars það hvernig kvikmyndagerðarmenn í Póllandi lærðu smám saman að koma handritunum í gegnum nálarauga ritskoðunar á tímum kommúnistastjórnarinnar.
Boðið var upp á tveggja daga stútfulla og fjölbreytta dagskrá með pallborðsumræðum um allt frá því að skrifa fyrir börn og ungmenni til fyrirlestra um samningatækni. Ein umræða var helguð stöðu og hlutdeild kvenna, bæði sem höfunda og söguhetja, og sérstök ályktun um nauðsyn þess að stuðla að auknu jafnræði meðal kynjanna í geiranum var samþykkt í lok ráðstefnunnar. Ein umræðan bar yfirskriftina „The Scandinavian Phenomenon“ og þar var eins og titillinn gefur til kynna sjónum beint að ótrúlegri velgengni skandinavísks sjónvarpsefnis á síðustu árum.
Hvað eru skandínavarnir að gera svona rétt? spyr fólk sig út um allan heim í þeirri von að geta lært eitthvað hagnýtt af því (við auðvitað líka). Handritshöfundar Brúarinnar tóku þátt í þeim umræðum, þau Camilla Ahlgren og Nicolaj Scherfig. Meginniðurstaðan um skandinavíska fyrirbærið var líklega sú að í þessum löndum eru ekki skörp skil milli kvikmynda- og sjónvarpsgeirans, fólk vinnur jönfnum höndum í báðum miðlum, líkt og tíðkast hér á landi. Þannig fær sjónvarpsefni, á borð við Brúnna og Borgina, góðan tíma í þróun en er ekki ofurselt þeim hraða sem oft einkennir sjónvarpsframleiðslu.
Í akkorði við sápuóperuskrif
Í flestum löndum Austur- og Suður-Evrópu er aftur á móti lítið eða ekkert samband milli sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu. Sjónvarpsstöðvarnar sjá alfarið um sína framleiðslu og soga til sín vinnuafl – ungir handritshöfundar eru ráðnir strax á lokaári í kvikmyndaskóla til að vinna í akkorði við að skrifa sápuóperur á færibandi, þar eru peningarnir eða eins og einn prófessor í handritsgerð við kvikmyndaskólann í Búlgaríu sagði: „Nemendur mínir eru margir á miklu hærri launum en ég og vilja ekki sjá að skrifa handrit að kvikmyndum – það krefst of mikilla fórna, bæði tíma- og peningalega“.
En í Varsjá voru öll dýrin í skóginum vinir – sápuóperuhöfundur frá Írlandi skálaði við listrænt þenkjandi kvikmyndahandritshöfund frá Finnlandi – allir fundu einhverja snertifleti og almennt virtist fólk átta sig á að það væri að langmestu leiti að fást við það sama – að skrifa drama. Annað sem þjappar hópnum saman er sameiginlegur óvinur. Margir hafa inngróið horn í síðu framleiðenda vegna sárrar reynslu af lélegum samningum eða vanefndum en nú virðist þó sem sú óvild sé víkjandi þar sem hagsmunir höfunda og framleiðenda gegn nýjum og öflugri ógnvaldi fara að miklu leiti saman. Stærsta málefni kvikmyndageirans er að sjálfsögðu hið gjörbreytta landslag í dreifingu kvikmynda- og sjónvarpsefnis á netinu og það stríð þurfa allir eigendur höfundarréttavarins efnis að heyja í sameiningu.
Margt góðra gesta
Gestir og þátttakendur komu víða að en meginuppistaðan var þó Evrópubúar. Danirnir mættu með heilt fótboltalið og varamenn. Allar hinar Norðurlandaþjóðirnar höfðu einnig öflugar sendinefndir og það vakti talsverða eftirtekt hversu fjölmenn íslenska sendinefndin var að þessu sinni, því auk okkar þriggja sem mættum héðan gegnir Sveinbjörn I. Baldvinsson embætti forseta FSE. Stóru Evrópuþjóðirnar voru annars áberandi: Þýskaland, Bretland og Frakkland en minna fór fyrir Austur-Evrópuþjóðunum enda er þar ríkjandi svokölluð “autor” hefð, þar sem leikstjórinn skrifar handritið sjálfur, og í mörgum þessara landa eru af þeim ástæðum ekki einu sinni starfandi sérstök samtök handritshöfunda. Bandaríkjamenn og Kanadamenn voru einnig fjölmennir en færri komu frá öðrum heimsálfum, þó voru þarna höfundar frá Ísrael, Suður-Afríku, Nýja Sjálandi og Indlandi svo eitthvað sé nefnt. Auk handritshöfunda sóttu ráðstefnuna fjöldi lögfræðinga og annarra starfsmanna höfundasamtaka og pólska pressan fylgdist spennt með öllu saman.
Og þá er komið að því að “neimdroppa” svolítið, ef það þýðir eitthvað, því hver þekkir nöfn handritshöfunda? Aðrir en handritshöfundar? Jæja, þessi kafli er þá skrifaður sérstaklega fyrir handritanerðina. Nokkrar stórstjörnur töluðu á ráðstefnunni, kanónur á borð við Tom Fontana (Oz, Homicide: Life on the Street) Andrew Davis (House of Cards, Bridget Jones Diary, A Room With a View) og Hagai Levi (In Treatment, The Affair), Howard Rodman (Savage Grace) sem er varaforseti WGAW (Writers Guild of America West), Olivia Hetreed (Girl With a Pearl Earring) forseti WGGB (Writers Guild of Great Britain) og Lucy Alibar sem var tilnefnd til Óskarsverðlauna 2012 fyrir handritið að kvikmyndinni Beasts of the Southern Wild.
Í lok ráðstefnunnar var svo tilkynnt að næsta heimsráðstefna yrði haldin í París 2016, svo við getum strax farið að hlakka til. Fyrir áhugasama er hér tengill á heimasíðu þar sem hægt er að kynna sér málið frekar.
Að lokum langar mig að hvetja handritshöfunda sem kunna að leynast þarna úti til að ganga í félagið okkar FLH, sem beitir sér fyrir málefnum sem tengjast handritshöfundum og stendur vörð um hagsmuni stéttarinnar. Munið: Við skrifum handrit og allir hinir fá vinnu – ekki láta telja ykkur trú um neitt annað!