Baltasar með mörg járn í eldinum

Baltasar Kormákur leikstjóri.
Baltasar Kormákur leikstjóri.

Universal mun framleiða Vikingr, víkingamynd Baltasars Kormáks, sem hann hefur lengi haft í undirbúningi.

Fyrirtæki Baltasars RVK Studios er meðframleiðandi ásamt Tim Bevan, Nathalie Marciano og Eric Fellner hjá Working Title og Marc Platt og Adam Siegel frá Marc Platt Productions. Baltasar leikstýrir myndinni sem byggð er á handriti hans og Ólafs Egils Egilssonar. Universal og Baltasar hafa áður unnið saman að myndunum 2 Guns og Contraband. Greint er frá þessu á vef Hollywood Reporter.

Þá segist Vísir hafa áreiðanlegar heimildir fyrir því að Baltasar muni einnig leikstýra kvikmynd um leiðtogafundinn í Höfða 1986. Verkefnið kallast Reykjavik og mun Michael Douglas leika Ronald Reagan en Christoph Waltz verður Gorbachev.

Baltasar vinnur nú að eftirvinnslu Everest sem frumsýnd verður í september 2015 , en myndin er einnig framleidd af Universal og Working Title. Þá er skammt í að tökur hefjist á sjónvarpsþáttaröðinni Ófærð sem framleidd er af RVK Studios. Baltasar mun leikstýra hluta þáttanna en aðrir leikstjórar verða Baldvin Z, Börkur Sigþórsson og Óskar Þór Axelsson.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR