Skjaldborg IV: Mamma

Salóme:
Salóme: mamma með alvarlega mótþróaröskun, mamma sem sjaldnast brosir og mamma sem er dul um flesta sína hagi.

Stundum er maður reiður við einhverja manneskju. En stundum er maður reiður öllum heiminum. Og einu sinni var mamma manns allur heimurinn. Fyrstu níu mánuðina bókstaflega – og fyrstu árin eftir það þá var annað fólk flest bara gestir í þessum heimi sem hún mamma gamla virtist að mestu leyti stjórna.

Þess vegna er allt öðruvísi að rífast við mömmu sína en annað fólk. Ég veit alveg að þetta er ekki bara ég – ég hef séð sjálfsöruggt og rammfullorðið fólk breytast í skömmustulega tíu ára krakka þegar mamma þeirra hastar á það. Þegar mamma manns skammar mann þá skammar nefnilega allur heimurinn mann.

Og þótt að við fullorðnumst og samskiptin við foreldrana verða kannski ekki jafn dramatísk og þegar maður tók frekjuköst eða fýluköst bernskunnar og gelgjunnar þá er þetta alltaf inní manni – það að rífast við foreldrana er allt öðruvísi en að rífast við allt hitt fólkið í heiminum. Og einhvern veginn tókst Yrsu Roca Fannberg að gera bíómynd um þessa sammannlegu reynslu.

Myndin heitir Salóme, enda heitir mamma Yrsu Salóme. Salóme er vefnaðarlistamaður og öryrki, hvers vegna veit maður aldrei almennilega enda vill hún alls ekki tala um veikindin. Raunar vill hún helst ekki tala. Ekki við myndavélina allavega. Þetta er heimildarmynd um manneskju sem vill ómögulega vera í heimildamynd. Og maður hugsaði alveg á tímabili: má þetta? Maður hefur heyrt ýmsa heimildamyndagerðamenn lýsa því hvernig þeir láta sögupersónurnar skrifa undir samning fyrirfram – það hefur að minnsta kosti varla verið auðvelt verk að fá Salóme til að skrifa upp á slíkt plagg.

[quote align=“left“ color=“#999999″]Þetta er mamma með alvarlega mótþróaröskun, mamma sem sjaldnast brosir og mamma sem er dul um flesta sína hagi. En þótt hún sé svona mestalla myndina þá fáum við á einhvern skringilegan hátt einhverja óljósa tilfinningu fyrir ungu konunni sem hún var einu sinni, fyrir öllum sigrunum og ósigrunum, fyrir öllu erfiðinu sem hún hefur lifað, fyrir því hvað samband mæðgnanna er sterkt þrátt fyrir allt.[/quote]Það er nánast sama hverju Yrsa spyr mömmu sína að – hún vill sjaldnast svara og ef hún gerir það gerir hún það oftast með skætingi. Oftast vill hún bara þegja og vefa sín listaverk í friði – en þegar hún er beðin um að vera þögul svo Yrsa geti tekið portrett-myndir af henni þá fæst hún venjulega ekki til þess að hætta að tala. Þetta er mamma með alvarlega mótþróaröskun, mamma sem sjaldnast brosir og mamma sem er dul um flesta sína hagi. En þótt hún sé svona mestalla myndina þá fáum við á einhvern skringilegan hátt einhverja óljósa tilfinningu fyrir ungu konunni sem hún var einu sinni, fyrir öllum sigrunum og ósigrunum, fyrir öllu erfiðinu sem hún hefur lifað, fyrir því hvað samband mæðgnanna er sterkt þrátt fyrir allt.

Og þótt Salóme sé allt öðru vísi en mamma mín og sjálfsagt allt öðruvísi en mamma þín þá fjallar myndin á einhvern einkennilegan hátt um mömmur okkar allra. Um konuna sem er allur heimurinn. Og mér sýnist að ég hafi ekki verið einn um að skynja það hvernig myndinni tókst að kvikmynda þessa einkennilegu kennd – enda hlaut hún Einarinn og þau verðlaun eru kosin af fólkinu sem sat með mér í salnum og hló að því hvað Salóme er óforskömmuð og meinfyndin í vandlætingu sinni. En eftir sýninguna töluðu margir um sína útgáfu af þessari óræðu kennd sem þau könnuðust við – og einmitt þess vegna fékk dóttir Salóme Einarinn.

Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson er blaðamaður og gagnrýnandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR