Myndin var tekin upp í Loðmundarfirði sumrin 2022 til 2024.
Segir í kynningu:
Á hverju ári, í þrjá mánuði, safnast tólf þúsund fuglar og fimm manneskjur saman í afskekktum íslenskum firði, Loðmundarfirði.
Hjónin Ólafur Aðalsteinsson og Jóhanna Óladóttir eru birtingarmynd þeirrar sjaldgæfu og hnignandi tengingar mannsins við náttúruna. Ólafur, sem í ákveðnum hópum er talinn einn fremsti fuglafræðingur heims þótt hann hafi enga formlega menntun á því sviði, finnur bæði frið og tilgang meðal hinna fiðruðu vina sinna í hinum einangraða og goðsagnakennda Loðmundarfirði, sem hefur verið í eyði síðan á sjöunda áratug síðustu aldar.
Hér er ekkert farsímasamband. Nútíminn er fjarri.
Fuglarnir snúa aftur á hverju sumri. Loðmundarfjörður er þögull í níu mánuði ársins. Staður hrífandi fegurðar og djúprar einveru.
Í rúma tvo áratugi hafa þau séð um æðarfuglana og byggt upp blómlega varpstöð á Sævarenda. Þegar þau byrjuðu fyrir tuttugu og tveimur árum voru þar aðeins 176 hreiður. Í dag eru um sex þúsund hreiður í jafnmörgum „húsum“ fyrir fuglana. Eins og lítið þorp, nema að þar búa engir menn, aðeins fuglar.
Barátta þeirra endurspeglar lífsbaráttu fuglanna. Á hverju sumri takast æðarfuglarnir og ungar þeirra á við aðsteðjandi hættur frá tófum, hröfnum og máfum. Ólafur, sem áður var þekktur refaveiðimaður, reynir nú að hlífa refunum þegar hann getur en stundum þarf hann að bregðast við. Við hrafnana heldur hann brothættum friðarsamning: gefur þeim að éta svo þeir láti varpstöðina í friði.
Leikstjórar eru Mika Kaurismäki, Ingvar Þórðarson og Ragnar Axelsson. Tökumaður er Birgit Guðjónsdóttir og klippari er Nina Ijäs. Magnús Jóhann gerir tónlistina og Addi 800 sér um hljóðið.













