spot_img

Heimildamyndin UM TÍMANN OG VATNIÐ frumsýnd á Sundance

Verkið er byggt á samnefndri bók Andra Snæs Magnasonar.

National Geographic Documentary Films og Sandbox films hafa gert heimildamynd í fullri lengd upp úr bók Andra Snæs Magnasonar – Um tímann og vatnið.

Leikstjóri verksins er Sara Dosa sem hlaut Óskarstilnefningu fyrir Fire of Love. Einn framleiðenda er Shane Boris sem hlaut Óskarsverðlaun fyrir Navalny. Myndin verður frumsýnd á Sundance kvikmyndahátíðinni í janúar 2026.

Segir í kynningu:

Um tímann og vatnið er heimildarmynd um mennsku og missi í heimi sem upplifir fordæmalausar umbreytingar. Myndin er ekki aðeins innblásin af bók Andra heldur er hún ofin úr kvikmynda og ljósmyndasafni fjölskyldu hans sem spannar meira en 80 ár. Í myndinni eru 16mm kvikmyndir Árna Kjartanssonar sem fanga fyrstu ferðir jöklarannsóknarfélags Íslands í kringum 1955, til 8mm mynda sem Kristín Björnsdóttir móðir hans tók upp úr 1975 og síðan VHS og stafrænar myndir sem Andri hefur sjálfur fangað frá 1995. Þriggja kynslóða kvikmyndasaga verður síðan að tímahylki sem ávarpar komandi kynslóðir. Andri Snær er meðframleiðandi, meðhöfundur og sögumaður verksins.

National Geographic tímaritið og heimildamyndirnar voru mér mikill innblástur þegar ég var barn, þannig að segja má að bernskudraumur rætist með því að hafa mitt eigið verk undir merkjum þeirra, segir Andri Snær. Fire of Love er ein fallegasta heimildarmynd sem ég hef séð. Þar sést hvað Sara og hennar teymi eru góð í að segja sögu og setja saman fundið efni, þau tóku kvikmyndasafn fjölskyldunnar og ófu úr henni listaverk ásamt nýju efni.

Um tímann og vatnið er dreift af National Geographic Films, Sandbox Films í samvinnu við Ninmah Foundation. Hún er framleidd af Signpost Pictures, í samvinnu við hið íslenska Compass Films. Handrit, leikstjórn og framleiðsla er í höndum Söru Dosa. Óskarsverðlaunahafinn Shane Boris ásamt Elijah Stevens and Jameka Autry eru framleiðendur. Meðframleiðsla er í höndum Heather Millard og Andra Snæs Magnasonar.

Yfirframleiðendur eru Carolyn Bernstein, Tim Horsburgh, Jessica Harrop, Caitlin Mae Burke, Kristín Ólafsdóttir, Nina Fialkow, Moudhy Al-Rashid og Sam Frohman. Aðstoðar framleiðendur eru Natalia Fuentes og Freyja Kristinsdóttir, umsjónarmaður heimildaöflunar var Karólína Stefánsdóttir og Halldóra Þorláksdóttir kom einnig að framleiðslunni.

Myndin hefur verið um þrjú ár í vinnslu á Íslandi, kvikmyndaðir hafa verið jöklar og náttúra á austurlandi og vesturlandi með nokkuð stóru íslensku teymi. Eftirvinnsla fer nú fram á Íslandi til að ljúka verkinu í tæka tíð fyrir frumsýningu.

Við erum yfir okkur glöð að hafa fengið að fara í þetta ferðalag með hinum magnaða leikstjóra Söru Dosa og hennar teymi. Andri opnaði fjölskyldusafnið fyrir okkur og þegar það bætist við magnaðar jöklamyndir frá Íslandi þá er myndin veisla fyrir augað ásamt því að Andri Snær er sögumaður verksins. Margir Íslendingar unnu við verkið sem var ánægjulegt að vinna með ásamt mögnuðu teymi Bandaríkjamanna. Við getum ekki beðið eftir Sundance, segir Heather Millard meðframleiðandi.

Um tímann og vatnið eftir Andra Snær Magnason hefur verið gefin út á meira en 30 tungumálum. Bókin þykir óvenjuleg um leið og hún er aðgengileg þar sem fjölskyldusaga, vísindi og goðafræði mynda eina heildstæða frásögn. Um Tímann og vatnið er notuð í skólum víða um heim og hefur líka ratað til vísindamanna og fólks í atvinnulífinu.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR