spot_img

Staðan í greininni og tækifæri til sóknar rædd á Kvikmyndaþingi

Kvikmyndaþing 2025 fer fram í dag, miðvikudaginn 26. nóvember, kl. 17 í Bíó Paradís. Yfirskrift þingsins er Verðmætasköpun og menningarspegill – tækifærin í íslenskri kvikmyndagerð.

Að þinginu standa Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Samtök kvikmyndaleikstjóra, Félag leikskálda og handritshöfunda, Félag kvikmyndagerðarmanna og Samtök iðnaðarins.

Staðan í greininni og tækifærin í áframhaldandi stuðningi

Í tilkynningu segir að markmið þingsins sé að varpa ljósi á þau miklu tækifæri sem felast í áframhaldandi þróun og stuðningi við kvikmynda- og þáttagerð á Íslandi, bæði menningar- og efnahagslega.

Framleiðsla sjónvarpsþátta og kvikmynda, hvort sem um er að ræða innlend eða erlend verkefni, skapar fjölda beinna og óbeinna starfa og getur vaxið enn frekar með markvissum stuðningi við greinina.

Á þinginu verður farið yfir stöðu greinarinnar, en færri íslenskar kvikmyndir eru frumsýndar í ár en oft áður. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar fækkar þeim enn á næsta ári. Á þinginu verður farið yfir tillögur að frekari fjárfestingu sem skila mun auknum efnahagsumsvifum en ekki síður menningarverðmætum og fjölbreyttu framboði efnis á íslensku.

Anton Máni Svansson, formaður SÍK og Hrönn Kristinsdóttir, stjórnarmaður í SÍK munu fara yfir stöðu greinarinnar og tækifærin sem felast í viðbótarfjárfestingu í kvikmyndagerð. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og Gísli Snær Erlingsson, forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar, ávarpa þingið.

Fundarstjóri verður Hrönn Sveinsdóttir, formaður SKL.

Þá mun fólk úr ólíkum áttum innan greinarinnar líta við á milli dagskrárliða ásamt Bergi Ebba sem ætlar að fjalla um afnám tortryggninnar.

Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, lokar þinginu.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR