Þetta kemur fram á mbl.is og þar segir einnig:
Variety greinir frá og segir Baldvin Z, einn eiganda framleiðslufyrirtækisins Glassriver, hafa sannfært leikstjórann um að snúa sér aftur að leiklistinni og taka að sér hlutverkið.
Þá verða leikararnir og söguþráður myndarinnar kynntir í dag á Norræna meðframleiðendamarkaðnum sem haldinn er í Haugesundi í Noregi en um þá kynningu sjá Baldvin Z, handritshöfundurinn Matthías Tryggvi Haraldsson og Guðgeir Arngrímsson, framleiðandi hjá Glassriver.
„Baltasar er frábær leikari og ég hef reynt að fá hann á hvíta tjaldið í þónokkurn tíma en hann er bara alltaf mjög upptekinn!“ er haft eftir Baldvin Z.
„Spennuþrungnasta mynd sem ég hef nokkurn tímann gert“
Í myndinni mun Baltasar Kormákur leika skipstjóra á fiskiskipi í Norður-Atlantshafi.
Baltasar Kormákur er einna þekktastur ytra sem leikstjóri Hollywoodmyndanna 2 Guns og Beast, fyrir Everest og íslenskar myndir á borð við Snertingu en fyrir þá mynd fékk hann tilnefningu til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs í fyrra.
Að leiklistarnámi loknu lék hann í fjölmörgum kvikmyndum, þar á meðal í sinni eigin mynd 101 Reykjavík en síðasta hlutverk hans á hvíta tjaldinu var í kvikmyndinni Eiðnum frá árinu 2016.
„Þetta verður ein spennuþrungnasta mynd sem ég hef nokkurn tímann gert. Ég vil kasta þér um borð þannig að þú munir aðeins ná andanum eftir eina og hálfa klukkustund,“ segir Baldvin Z og bætir því við að hugmyndin að myndinni hafi kviknað þegar hann las frétt árið 2015 þar sem fram kom að árið 1995 hafi hópur sjómanna farið í land til að hjálpa til við að finna þá sem höfðu grafist undir í snjóflóðinu fyrir vestan.
„Eftir þessa átakanlegu reynslu fóru þeir beint aftur út á sjó og dvöldu þar í mánuð. Þeim var bannað að tala um þessa upplifun og máttu heldur ekki tjá tilfinningar sínar. Það var svo ekki fyrr en tveimur áratugum síðar að þeir gátu rætt opinskátt um þetta og beðið um andlegan stuðning,“ segir hann.













