spot_img

Baltasar tekur að sér hlutverk hjá Baldvin Z

Leik­stjór­inn Baltas­ar Kor­mák­ur snýr aft­ur á hvíta tjaldið en hann mun leika í nýj­ustu kvik­mynd Bald­vins Z, sem ber heitið Dark Oce­an, ásamt Ólafi Darra Ólafs­syni, Þor­steini Bachmann og Þor­valdi Davíð Kristjáns­syni.

Þetta kemur fram á mbl.is og þar segir einnig:

Variety grein­ir frá og seg­ir Bald­vin Z, einn eig­anda fram­leiðslu­fyr­ir­tæk­is­ins Glassri­ver, hafa sann­fært leik­stjór­ann um að snúa sér aft­ur að leik­list­inni og taka að sér hlut­verkið.

Þá verða leik­ar­arn­ir og söguþráður mynd­ar­inn­ar kynnt­ir í dag á Nor­ræna meðfram­leiðenda­markaðnum sem hald­inn er í Haugesundi í Nor­egi en um þá kynn­ingu sjá Bald­vin Z, hand­rits­höf­und­ur­inn Matth­ías Tryggvi Har­alds­son og Guðgeir Arn­gríms­son, fram­leiðandi hjá Glassri­ver.

„Baltas­ar er frá­bær leik­ari og ég hef reynt að fá hann á hvíta tjaldið í þónokk­urn tíma en hann er bara alltaf mjög upp­tek­inn!“ er haft eft­ir Bald­vin Z.

„Spennuþrungn­asta mynd sem ég hef nokk­urn tím­ann gert“

Í mynd­inni mun Baltas­ar Kor­mák­ur leika skip­stjóra á fiski­skipi í Norður-Atlants­hafi.

Baltas­ar Kor­mák­ur er einna þekkt­ast­ur ytra sem leik­stjóri Hollywood­mynd­anna 2 Guns og Be­ast, fyr­ir Ev­erest og ís­lensk­ar mynd­ir á borð við Snert­ingu en fyr­ir þá mynd fékk hann til­nefn­ingu til Kvik­mynda­verðlauna Norður­landaráðs í fyrra.

Að leik­list­ar­námi loknu lék hann í fjöl­mörg­um kvik­mynd­um, þar á meðal í sinni eig­in mynd 101 Reykja­vík en síðasta hlut­verk hans á hvíta tjald­inu var í kvik­mynd­inni Eiðnum frá ár­inu 2016.

„Þetta verður ein spennuþrungn­asta mynd sem ég hef nokk­urn tím­ann gert. Ég vil kasta þér um borð þannig að þú mun­ir aðeins ná and­an­um eft­ir eina og hálfa klukku­stund,“ seg­ir Bald­vin Z og bæt­ir því við að hug­mynd­in að mynd­inni hafi kviknað þegar hann las frétt árið 2015 þar sem fram kom að árið 1995 hafi hóp­ur sjó­manna farið í land til að hjálpa til við að finna þá sem höfðu graf­ist und­ir í snjóflóðinu fyr­ir vest­an.

„Eft­ir þessa átak­an­legu reynslu fóru þeir beint aft­ur út á sjó og dvöldu þar í mánuð. Þeim var bannað að tala um þessa upp­lif­un og máttu held­ur ekki tjá til­finn­ing­ar sín­ar. Það var svo ekki fyrr en tveim­ur ára­tug­um síðar að þeir gátu rætt op­in­skátt um þetta og beðið um and­leg­an stuðning,“ seg­ir hann.

HEIMILDMbl.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR