Tækniskólinn (kunnur sem Iðnskólinn til áratuga) kennir ekki kvikmyndagerð.
Fjallað er um málið á vef RÚV:
Illa ígrunduð ákvörðun og mikið þekkingarleysi
Ráðuneytið tilkynnti í dag að nemendum skólans myndi bjóðast að innritast í Tækniskólann og ljúka námi sínu þar. Nemendur yrðu hluti af Tækniakademíu skólans, þar sem nám á fjórða hæfniþrepi fer fram. Þar eru námsbrautirnar stafræn hönnun og vefþróun auk iðnmeistaranáms. Þá mun hefjast vinna við gerð nýrrar námsbrautar í kvikmyndagerð hjá Tækniskólanum.
Kennarar og rektor Kvikmyndaskólans segja að með aðgerðum ráðuneytisins sé að öllu litið fram hjá sérstöðu kvikmyndanáms og margra ára viðræðum og vinnu Kvikmyndaskólans og yfirvalda um að færa nám skólans á háskólastig. Þó nokkur kostnaður af hálfu hins opinbera hafi farið í þá vinnu. Tækniskólinn starfi á framhaldsskólastigi og þess að auki eigi deildir hans fátt skylt við nám í kvikmyndagerð.
„Það er samdóma mat okkar að sú leið sem barna- og [menntamálaráðuneytið] hefur nú kynnt sé ekki bara illa ígrunduð, heldur endurspegli mikið þekkingarleysi á námi í kvikmyndagerð og beri hag nemenda okkar á engan hátt fyrir brjósti,“ segir í tilkynningunni.
Mikil þörf á fólki með fagþekkingu
Kvikmyndaskólinn hafi þróað námskrá, skipulag og sérdeildir skólans yfir lengri tíma og hafi hann komist á lista með virtum erlendum kvikmyndaháskólum í alþjóðlegum úttektum, þrátt fyrir að starfa ekki á háskólastigi.
Tengingin við íslenskan kvikmyndaiðnað sé sterk og þörfin á mannskap með fagþekkingu mikil hér á landi til að manna íslensk og erlend verkefni. Fjöldi útskrifaðra nemenda hafi hlotið verðlaun fyrir störf sín í kvikmyndagerð.
„Við minnum á að Kvikmyndaskóli Íslands hefur útskrifað yfir 600 nemendur úr sérhæfðu námi í kvikmyndagerð. Kannanir hafa sýnt að meirihluti þeirra nemenda starfar alfarið við kvikmyndagerð að námi loknu og fjölmargir því til viðbótar starfa í atvinnugreinum sem grundvallast á sérþekkingu þeirra úr kvikmyndanáminu við skólann.“