Staðan í íslenskri kvikmyndagerð rædd á Stockfish

Staða íslenskrar kvikmyndagerðar verður rædd á bransadögum Stockfish. Hátíðin stendur frá 3.13. apríl.

Umræðan er hluti af bransadögum Stockfish, en heildardagskrána má sjá hér.

Aðgangur er ókeypis. Stockfish kynnir umræðuna svo:

Kvikmyndagerð hefur verið á mikilli siglingu hérlendis undanfarin ár og hróður íslenskra kvikmynda- og sjónvarpsþátta farið víða. Hver króna sem ríkið fjárfestir í kvikmyndaiðnaðinum skilar sér margfalt til baka. Þrátt fyrir það á fagið nú undir högg að sækja með lækkun framlaga til Kvikmyndasjóðs.

Endurgreiðslukerfi kvikmynda- og sjónvarpsþátta er tiltölulega nýtilkomið á Íslandi, en vert að staldra við og meta stöðuna: Hvað höfum við lært og hvert stefnir íslensk kvikmyndagerð í dag?

Umræðum stýrir blaðakonan Marta Balaga.

Við pallborðið, sem fram fer í Norræna húsinu laugardaginn 12. apríl kl. 14, koma saman fulltrúar allra fagfélaga í kvikmyndagerð á Íslandi, auk þeirra Gísla Snæs Erlingssonar, forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar og Örnu Kristínu Einarsdóttur, skrifstofustjóra skrifstofu menningar og skapandi greina hjá Mennta- og menningarráðuneytinu. Fulltrúar fagfélaganna eru Hrönn Sveinsdóttir Samtök kvikmyndaleikstjóra (SKL), Anton Máni Svansson formaður Samtaka íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK), Hilmar Sigurðsson frá Samtökum íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK), Drífa Freyju- og Ármannsdóttir frá Félagi leikmynda- og búningahönnuða (FLB), Sveinbjörn I. Baldvinsson formaður Félags handritshöfunda og leikskálda (FIH), Sigríður Rósa Bjarnadóttir frá Félagi kvikmyndagerðarmanna (FK) og María Sigríður Halldórsdóttir formaður Félags kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi (Wift). Hilmar Sigurðsson verður með stutta samantekt áður en pallborðið hefst.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR