Kvikmyndaskólinn áfram starfræktur, leiða leitað varðandi næstu skref

Starfsemi Kvikmyndaskóla Íslands heldur áfram þrátt fyrir gjaldþrot. Háskólaráðherra segir hagsmuni nemenda í forgangi. Rektor skólans, Hlín Jóhannesdóttir, vonast eftir að fá svör um næstu skref í dag.

Þetta kemur fram á vef RÚV og þar segir einnig:

„Við vitum að það er vilji til þess að allavega bjarga nemendum og það er okkar forgangsmál. Þau eru að mæta í skólann og þau fá kennslu og það er bara aðdáunarverður meðbyr og stuðningur sem ég finn bæði hjá kennurum, starfsfólki og nemendum. Maður bara trúir ekki öðru en að þetta fari vel.“

Í tölvupósti sem Hlín sendi starfsfólki og nemendum í gær sagði að skólinn væri gjaldþrota og starfsfólk hefði ekki fengið greidd laun. Stjórnendur ynnu við að færa skólann milli ráðuneyta, frá ráðuneyti menntamála yfir til ráðuneytis háskólamála.

„Það er mjög margt sem myndi breytast við það og við teljum, sem hér störfum og höfum verið hér í lengri tíma og höfum farið í gegnum ýmsar úttektir og ýmislegt annað, að þessi skóli sé fullkomlega á háskólastigi og fræðasviði lista. Það er bara okkar skoðun.“

Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, segir ráðuneytið vinna við að halda utan um nemendur sem eru í skólanum núna.

„Til þess að við tökum við honum í háskólaráðuneytinu þarf að gera einhverjar breytingar og það þarf bara að finna út hvort þær séu skynsamlegar eða hvort við finnum einhverjar aðrar leiðir.“

Er sú vinna í gangi?

„Já, við erum búin að vera með þetta mál mjög lengi en núna erum við í mjög aktívu samtali og það er ekki síst með hagsmuni nemendanna í huga.“

Hlín segir að næstu skref þurfi að skýrast sem fyrst. „Við verðum að fara fá einhver skýr svör, þetta, eins og þú getur ímyndað þér, gengur ekki til lengdar svona.“

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR