Óskarstilnefningum frestað vegna skógareldanna í Los Angeles

Bandaríska kvikmyndaakademían (AMPAS) hefur frestað kynningu á tilnefningum til Óskarsverðlaunanna vegna skógareldanna sem nú geysa á Los Angeles svæðinu. Ýmsar aðrar breytingar hafa verið gerðar, en dagsetning sjálfra Óskarsverðlaunanna hefur ekki breyst enn sem komið er.

Tilnefningar til Óskarsverðlaunanna verða tilkynntar fimmtudaginn 23. janúar klukkan 13:30 að íslenskum tíma. Upphaflega stóð til að tilkynna tilnefningar þann 17. janúar.

Óskarsverðlaunahátíðin fer að óbreyttu fram sunnudaginn 2. mars í Los Angeles, en vangaveltur eru uppi um hvort henni verði frestað.

Þannig hefur Akademían aflýst árlegum hádegisverði fyrir tilnefnda, sem til stóð að færi fram mánudaginn 10. febrúar. Auk þess verður vísinda- og tækniverðlaunum Óskarsins, sem átti að veita þriðjudaginn 18. febrúar, frestað um ótiltekinn tíma.

Kvikmynd Baltasars Kormáks, Snerting, er á stuttlista Óskarsverðlaunanna í flokknum alþjóðleg kvikmynd ársins.

HEIMILDVariety
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR