Kolbeinn skrifar:
Guðaveigar er nýjasta kvikmyndin úr smiðju Markel-bræðra eins og þeir eru oft kallaðir, en það eru þeir Örn Marinó Arnarson og Þorkell S. Harðarson. Þeir hafa, í gegnum framleiðslufyrirtæki sitt Markell Productions, komið að myndum eins og Síðustu veiðiferðinni, Ömmu Hófí, Saumaklúbbnum og Fullu húsi. Eins og í flestum af þessum myndum eru aðalpersónur Guðaveiga á miðjum aldri, áfengi iðulega við hönd og vitleysisgangur í fyrirrúmi.
Guðaveigar fjallar um fjóra presta sem þurfa að fara til Spánar til þess að finna nýtt messuvín því messuvín kirkjunnar er af skornum skammti. Nýtt og gott vín er talið geta jafnvel stækkað söfnuðinn sem mætir til kirkju. Prestarnir fjórir samanstanda af stórskotaliði íslenska grínheimsins en með hlutverk þeirra fara Hilmir Snær Guðnason sem Gísli, Halldór Gylfason sem Jón, Þröstur Leó Gunnarsson sem Villi og Sverrir Þór Sverrisson, betur þekktur sem Sveppi, sem Mummi. Prestarnir búast við því að vera hífaðir nær allan tímann á Spáni svo Gísli fær gamlan vin sinn, leikinn af Sigga Sigurjóns, til þess að vera bílstjóri ferðarinnar. Það er þó ekki fyrr en, inn í flugvél er komið að þeir komast að því að vinurinn kemst eftir allt saman ekki með. Í stað hans mætir dóttir hans, María sem Vivian Ólafsdóttir leikur. Það er þó ekki langt liðið á ferðalagið þegar veður skipast í lofti, María er alki og þegar vélin lendir á Spáni er hún orðin svo blindfull að hún er búin að missa alla meðvitund. Áfengisneysla og vínsmökkun þessara fimm hrakfallabálka er meginstef myndarinnar og fylgjast áhorfendur með þeim fara á milli vínekra í sólríkum sveitum Spánar. Á meðan á sér allskonar vitleysisgangur stað og koma til dæmis spænska lögreglan, loftbelgir og þvagleggir við sögu.
Inn í annars raunsæja atburðarás slæðast nokkur atriði þar sem himnesk kraftaverk eiga sér stað og stinga þau í stúf við restina af myndinni. Þessir súrrealísku töfrar eru þó mjög heillandi á sama tíma og þeir eru fyndnir. Hin trúarlega umgjörð myndarinnar gerir það því til dæmis mjög fyndið í stað óþolandi þegar frásagnartækið deus ex machina, eða guð í vélinni, er notað til þess að fleyta sögunni fram. Í öðrum myndum væri til dæmis skrítið að prestarnir sleppa úr að því er virðist ómögulegum aðstæðum einfaldlega vegna þess að t.d. hurð er allt í einu ólæst. Í Guðaveigum er þetta þó algjörlega skýrt sem verk guðs sem gerir það bara fyndnara. Endir myndarinnar og úrlausn er þannig til dæmis virkilega skemmtileg og frumleg.
Það sem vantar þó er drifkraftur eða rauður þráður í gegnum myndina. Hún samanstendur af fyndnum atriðum en í mörgum tilfellum væri hægt að breyta röðinni á þeim eða skipta þeim út. Meirihluti myndarinnar fylgir sama strúktúrnum. Fimmenningarnir mæta á stað, eitthvað fyndið gerist, þau fara, áhorfendur sjá myndefni af víni eða vínekrurnar séðar úr lofti. Svo byrjar nýtt atriði ótengt því sem á undan kom og svo framvegis. Grín vindur lítið sem ekkert upp á sig og margir klóra sér eflaust í kollinum yfir því í hvaða átt sagan á að vera að fara. Einnig eru ástæðurnar fyrir gjörðum persónanna stundum ruglingslegar og mótsagnakenndar.
Persónusköpuninni er því miður ábótavant. Í síðustu veiðiferðinni birtast svipað vitlausir kallar en ólíkt Guðaveigum fá áhorfendur mun fleiri tækifæri til þess að kynnast þeim og þeirra innra lífi. Þó eru kallarnir fleiri í Síðustu veiðiferðinni. Prestarnir eru allir að díla við erfiðleika heima fyrir og það væri enn skemmtilegra að sjá þá tala saman og finna lausnir við þeim vandamálum, eitthvað sem væri algjörlega hægt að gera á kómískan hátt. Jafnvel væri hægt að láta tilætlanir þeirra stangast á svo þeir væru í stærri klípu. Í staðinn blandast þeir saman í prestahóp og það er bara Hilmir Snær sem fær að standa upp úr sökum þess að vera sjálfskipaður leiðtogi hópsins. Efniviðurinn er einfaldlega ekki nægur til þess að fylla 100 mínútna mynd. Sökum þess að rauða þráðinn vantaði fannst undirrituðum stundum alveg eins geta verið kortér eða klukkutími eftir af myndinni. Þetta er einnig sökum þess að atriði byggja sjaldan á því sem á undan kom. Vandræðin eiga sér stað og eru leyst innan þessara stuttu atriða áður en farið er í næsta atriði og næstu vandræði. Það er ekki fyrr en undir lokin að eitthvað vindur upp á sig og verður þar af leiðandi bæði erfiðara að glíma við og fyndnara. Efnið hefði án efa hentað mjög vel í klukkutíma mynd eða grínseríu sem samanstæði af 20 mínútna þáttum. Það eru nefnilega ófá óborganleg atriði í myndinni. Guðaveigar er oft drepfyndin. Það er því synd að hægari og efnisminni atriðin valdi því að myndin missi ítrekað dampinn eftir fyndnu og sniðugu atriðin.
Til dæmis eru oft notuð skot til þess að fylla þessar 100 mínútur, sem fengin hafa verið af svokölluðum myndefna lagerum, Shutterstock er þar án efa frægasta dæmið. Þar er hægt að kaupa afnot af myndefni sem einhverjir aðrir hafa skotið, þetta eru ekki mikilvæg skot, víni hellt í glas og þess háttar en þau virka mjög furðuleg í samanburði við hin atriði myndarinnar þar sem að þau einfaldlega líta öðruvísi út. Staðsetning myndarinnar er svo falleg nú þegar að það er enn undarlegra að þau hafi verið valin til notkunar. Það er fullt af gullfallegum skotum af sveitum La Rioja, og fyrir okkur sólþyrstu Íslendingana jaðrar við að þau geti læknað skammdegisþunglyndið.
Það er samt sem áður augljóst að myndin er drifin áfram af því að hafa gaman, hvort sem það er fyrir aðstandendur eða áhorfendur. Eins og góðum vitleysis grínmyndum sæmir er nóg um kúk og piss. Ef áhorfendur eru aðdáendur mynda Markelsbræðra nú þegar þá er Guðaveigar án efa að fara að skemmta. Innan myndarinnar flæðir áfengið um allt, og er ekki ólíklegt að hún njóti sín jafnvel best þegar áhorfendur eru í svipuðu ástandi og persónur myndarinnar. Það eru ekki margar grínmyndir gerðar hér á landi, hvað þá grínmyndir sem reyna hvað þær geta til þess að vera ekki alvarlegar. Það er því að vissu leyti virðingarvert að Markel bræður séu að halda uppi heiðri vitleysisgangsins. Vitleysisganginn mætti þó beisla í fágaðra form svo hann nái að skila sér. Það er eitt að vera ölvaður en annað að vera bæði ölvaður og skemmtilegur.