Segir á vef RÚV:
Elska veiði og elska vín og gera bara myndir um það sem þeir elska
„Þessi mynd fjallar um fjóra presta sem eru sendir af biskupi Íslands til Spánar til að finna betra messuvín af því kirkjan er í krísu,“ segir Örn. „Þetta á að vera leið til að fjölga í sóknum landsins,“ segir hann. „Betra vín, fleiri kúnnar, meiri meðlög,“ bætir Þorkell við.
Þeir Örn og Þorkell kalla sig Markelsbræður í samvinnu og Guðaveigar er sjötta gamanmyndin sem þeir framleiða en þekktastar mynda þeirra eru trúlega Síðasta veiðiferðin og Allra síðasta veiðiferðin. „Erum við ekki alltaf að segja sögur út frá okkur sjálfum?“ segir Örn. „Við elskum veiði og við elskum vín þannig við gerum bara myndir um það sem við elskum.“
Þrátt fyrir að aðalpersónur myndarinnar starfi sem prestar eru þeir fyrst og síðast bara menn. „Kristur átti við ákveðna skapgerðarbresti að stríða af því við erum bara mannleg, við erum ekki englar,“ segir Þorkell. „Við erum bara að eiga við það sem við eigum öll við. Við viljum gera vel en erum alltaf bara fyrir sjálfum okkur.
Skemmtileg martröð að taka upp mynd á Spáni
Í hlutverkum prestanna fjögurra sem halda til Spánar í messuvínsleiðangur eru Hilmir Snær Guðnason, Halldór Gylfason, Sverrir Þór Sverrisson og Þröstur Leó Gunnarsson. Tökur fóru meðal annars fram á Spáni og það er óhætt að segja að sú ferð hafi verið skemmtileg, og þó. „Fyrir okkur var þetta bara martröð,“ segir Örn. „Við þurftum að komast í gegnum þetta ferli, koma öllu efninu í hús og komast heim að byrja að klippa,“ segir hann og bætir við: „Þessi leikarahópur er auðvitað frábær og þetta var mjög gaman, á köflum.“
„Við veljum svolítið leikara eftir því hvernig er hægt að láta sér lynda við þá,“ segir Þorkell. „Er þetta gott fólk? Er hægt að eiga samskipti utan vinnu? Gera eitthvað skemmtilegt saman? Tala um eitthvað annað en bíó? Ef það er allt gott þá virkar samstarfið.“