Þessi íslensku verk eru frumsýnd í sjónvarpi yfir hátíðarnar

Fjölmörg íslensk kvikmyndaverk af fjölbreyttu tagi eru á dagskrá sjónvarpsstöðvanna um jól og áramót.

Johnny King eða Jón Víkingsson er Kúreki norðursins.

Kúreki norðursins: sagan af Johnny King – RÚV 25. desember

Heimildarmynd um íslenska sveitasöngvarann Johnny King. Hann er á krossgötum í lífinu og gerir eina lokatilraun til að fara aftur á bak. En um leið þarf hann að gera upp fortíðina sem er eins og myllusteinn um háls hans. Leikstjórn: Árni Sveinsson. Framleiðsla: Republik.

Vivian Ólafsdóttir í Napóleonsskjölunum.

Napóleonsskjölin – RÚV 25. desember

Íslensk spennumynd frá 2023 byggð á samnefndri skáldsögu Arnalds Indriðasonar. Þegar bróðir lögfræðingsins Kristínar rekst á þýskt flugvélarflak úr seinni heimstyrjöldinni á toppi Vatnajökuls dragast þau bæði inn í atburðarás upp á líf og dauða, hundelt af mönnum sem svífast einskis við að halda áratuga gamalt leyndarmál. Leikstjóri: Óskar Þór Axelsson. Aðalhlutverk: Vivian Ólafsdóttir, Jack Fox, Iain Glen, Ólafur Darri Ólafsson, Atli Óskar Fjalarsson, Þröstur Leó Gunnarsson og Nanna Kristín Magnúsdóttir.

Saga Garðarsdóttir og Steindi jr. fara með aðalhlutverkin í Draumahöllinni.

Draumahöllin – Stöð 2 27. desember

Sketsasería með fjölskrúðugu persónugalleríi, þar sem sumum karakterum bregður fyrir reglulega en öðrum sjaldnar. Tekist er á við algeng vandamál eins og að tala vitlaust, vera fjölþreifin, deyja áfengisdauða, kunna partýtrikk og koma með unnustu sína í steggjun. Allt saman aðstæður sem allir kannast við. Þættirnir sex eru skrifaðir af Sögu Garðarsdóttur, Steinþóri H. Steinþórssyni og Magnúsi Leifssyni, sem jafnframt leikstýrir.

Úr þáttaröðinni Grindavík.

Grindavík Stöð 2 Sport 29. desember

Heimildaþættir um líf Grindvíkinga í heilt ár í hamförum í gegnum körfuboltalið bæjarins. Liðið varð að einhverskonar sameiningartákni bæjarins á erfiðum tímum og bjó til samveru stundir fyrir bæjarbúa, segir í kynningu. Þættirnir eru sex talsins og höfundar eru Garðar Örn Arnarsson og Sigurður Már Davíðsson.

Ómissandi endapunktur sjónvarpsársins.

Áramótaskaupið – RÚV 31. desember

Einvalalið leikara og skemmtikrafta rýnir í fréttir, viðburði og uppákomur ársins. Handritshöfundar eru Friðgeir Einarsson, Hugleikur Dagsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, María Reyndal, Ólafur Ásgeirsson, Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson. Leikstjóri: María Reyndal.

Nína Dögg og Elín Hall leika Vigdísi í samnefndri þáttaröð.

Vigdís – RÚV 1. janúar

Íslensk leikin þáttaröð um Vigdísi Finnbogadóttur. Í ríkjandi karlaveldi ákveður einstæð móðir að bjóða sig fram til forseta Íslands. Leið Vigdísar að þessari ákvörðun er þroskasaga ungrar konu sem gefst aldrei upp, sama hvað á dynur. Björn Hlynur Haraldsson og Tinna Hrafnsdóttir leikstýra. Handritshöfundar eru Björg Magnúsdóttir og Ágústa M. Ólafsdóttir. Rakel Garðarsdóttir og Ágústa M. Ólafsdóttir framleiða fyrir Vesturport. Þættirnir eru sex talsins. Annar þáttur verður sýndur sunnudaginn 5. janúar.

Í frjálsu falli (Northern Comfort) – RÚV 1. janúar

Gamanmynd frá 2023 í leikstjórn Hafsteins Gunnars Sigurðssonar. Sarah, framakona á fimmtugsaldri, er haldin óstjórnlegum ótta við að fljúga. Til að bjarga nýtilkomnu ástarsambandi verður hún að yfirstíga flughræðsluna og læra að sleppa tökunum. Aðalhlutverk: Lydia Leonard, Timothy Spalls og Ella Rumpf. Handritshöfundar: Hafsteinn Gunnar Sigurðsson, Halldór Laxness Halldórsson og Tobias Munthe.

Purrkur Pillnikk: Sofandi, vakandi, lifandi, dauður – RÚV 5. janúar

Heimildamynd um hljómsveitina Purrk Pillnikk sem kom eins og vígahnöttur inn í íslenskan tónlistarheim í upphafi níunda áratugarins. Á átján mánaða ferli lék Purrkur Pillnikk ríflega sextíu lög á tæplega sextíu tónleikum. Nær öll lögin voru gefin út að undanskilinni fimm laga syrpu sem bar heitið Orð fyrir dauða og hljómaði aðeins einu sinni – á síðustu tónleikum hljómsveitarinnar. Þegar sveitin varð fertug kom hún saman á ný og tók upp verkið. Mynd eftir Kolbein Hring Bambus Einarsson og Tómas Sturluson.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR