spot_img

Rýnt í SVÖRTU SANDA í Lestinni: Þrusugóðir glæpaþættir

Júlía Margrét Einarsdóttir rithöfundur rýnir í þáttaröðina Svörtu sanda í Lestinni á Rás 1. Þættirnir eru allir aðgengilegir á Stöð 2+.

Júlía Margrét segir:

Í litlu samfélagi getur verið erfitt að tala um innlenda list á gagnrýninn hátt, því það er nánast algengara en ekki að maður þekki að minnsta kosti frænku einhvers þeirra sem kom að sköpuninni. Ég hef dáðst að þeim sem rýna í íslenska list og þora að gera það á heiðarlegan hátt, því listamenn eru viðkvæmir og það er sárt að fá slæma umsögn um  eitthvað sem maður hefur unnið að mánuðum og jafnvel árum saman. Ekkert gaman fyrir meðvirkan gagnrýnanda að hitta svo viðkvæma listamanninn á kránni næstu helgi eftir slæma útreið. En samtalið er mikilvægt og það þarf að vera hægt að segja hvað mætti betur fara að mati gagnrýnanda, að greina hreinskilið frá ef ekki þótti takast nógu vel til. Það er ekki einfalt hlutverk að mínu mati, en nauðsynlegt. Svo þegar ég stóð frammi fyrir því verkefni að rýna í glænýja sjónvarpsþætti, glæpaþættina Svörtu sanda sem sýndir eru á Stöð 2, fannst mér það aðeins kvíðvænlegt. En ég minnti sjálfa mig strax á að vera heiðarleg, jafnvel þó það kynni að vera erfitt. Það reyndist þó ekkert erfitt þegar upp var staðið. Hér kemur heiðarleg greining á þessum spánýju glæpaþáttum.

Allir að tala um Verbúðina

Þættirnir voru frumsýndir um svipað leyti og Verbúðarþættirnir sem komu sem ferskur gustur í stundum staðnaða íslenska sjónvarpshefð. Frumlegt og þjóðlegt umfjöllunarefni, spennandi dramatík og dásamleg en líka nöturleg nostalgía hefur heillað landann. Verbúðin hefur eins og flestir vita vakið umtal og mikla hrifningu, skiljanlega. Lítið sem ekkert hafði ég hins vegar heyrt af Svörtu söndum þegar fyrsti þátturinn var settur af stað eitt sunnudagskvöldið og ég óttaðist að það væri vegna skorts á gæðum. Hvers vegna var annars enginn að tala um þá?

Engir flatir karakterar og engin illa skrifuð samtöl

Ég bjó mig undir að þurfa mögulega að greina frá einhverjum þeim göllum sem maður verður stundum var við í íslenskri þáttagerð, til dæmis að hér væri á ferðinni þokkaleg flétta en að handritið hefði gleymst. Díalógar væru klaufalegir, leikarar hljómuðu eins og þeir væru að lesa tilkynningar af prompter þegar þeir ættu að tjá hug sinn. Eða mögulega að samtöl væru notuð til að tilkynna framvindu sögunnar en hljómuðu ekkert eins og raunverulegar manneskjur að tala.

Það hefur of örlað á tilhneigingu til að skapa persónur til að nota eingöngu sem sögumenn en ekki fólk með persónuleika og baksögu. Ég óttaðist að karakterar væru andlausir eins og oft er, sá sem er vondur væri alveg skelfilega vondur en góða fólkið flatt. Ég get sagt það strax að það tók ekki nema um þrjár mínútur af áhorfi að losna við allan þennan ótta. Svörtu sandar gerast ekki sekir um neina af þessum óþarflega algengu syndum í kvikmynda- og þáttagerð. Engir flatir karakterar, engin illa skrifuð samtöl, handritið gleymdist hvergi á leiðinni.

Það er kannski ekki að undra. Þættirnir eru úr smiðju hins þaulreynda Baldvins Z sem hefur margoft sannað að hann veit fullkomlega hvað hann er að gera þegar hann situr í leikstjórastólnum. Hann leikstýrir og skrifar handritið ásamt Ragnari Jónssyni og Aldísi Ömuh Hamilton sem einnig fer með aðalhlutverk.

Smábæjarharmleikur og mögulegt morð

Þeir fjalla um lögreglukonuna Anítu sem snýr aftur í smábæinn sem hún ólst upp í. Um leið og hún rennur í hlað í bæinn finnst lík ungrar erlendrar konu við sandfjöruna. Svo virðist sem hún hafi hrapað niður af bjarginu fyrir ofan, mögulega af slysförum, en þegar önnur erlend kona finnst slösuð og kveðst hafa verið hrint fer Anítu og teyminu að gruna að eitthvað gruggugt sé á seyði.

Aníta rannsakar málið ásamt lögreglustjóranum Ragnari, þorpslækninum Salomon og lögregluteyminu á staðnum. Inn í söguna af túristakonunum ungu og voveiflegum örlögum þeirra fléttast flækjur í persónulegu lífi Anítu. Hún hefur verið að halda við giftan kollega sinn sem hún er enn ástfangin af, og á í stormasömu sambandi við bæinn.

Sambandið við móður hennar er eitrað og á milli þeirra eru óuppgerðir erfiðleikar úr fortíðinni, æska Anítu í bænum hefur ekki verið hamingjurík, bæði vegna móðurinnar en líka eineltis sem hún hefur orðið fyrir. Óumflýjanlegar minningar streyma upp á yfirborðið og gera henni erfitt um vik í rannsókninni. Hún fellir hug til uppeldisfrænda síns en ber enn tilfinningar í brjósti til gifta mannsins. Konan hans er hins vegar ákveðin í að koma í veg fyrir frekari rómans þeirra á milli. Þetta hljómar kannski ekki eins og frumlegustu efnistök heims, og er það ekki – en þættirnir ætla sér ekki endilega að vera bilaðslega frumlegir, heldur að skila því vel sem gerir góðan sjónvarpsþátt. Og það gera þeir.

Stórkostlega vel leikið

Það sem blasir við á fyrstu örfáu mínútunum, og sefar angist stressaðs gagnrýnanda, er stórkostlegur leikurinn. Díalógarnir eru merkilega raunsannir og flæða eðlilega. Fyrstu senurnar á milli Aldísar Ömuh og Þórs Tuliniusar, sem fer með hlutverk Ragnars lögreglustjóra, gefa strax vísbendingu um gott, spennandi, tilfinningaþrungið og vandað ferðalag.

Í samskiptum þeirra verður strax áþreifanleg dýnamík sem gefur forvitnilegar vísbendingar um flókna baksögu þeirra og marglaga samband. Aron Mola birtist svo sem lögreglumaður á staðnum sem segir stuðandi brandara um látna konu í fjörunni og er ansi óviðeigandi, en hann er virkilega sannfærandi í túlkun sinni á dónalegu, taktlausu en vel meinandi sveitalöggunni og gúmmítöffaranum Tómasi. Lára Jóhanna er algjörlega frábær í hlutverki lögreglukonunnar Fríðu sem veitir karakternum tilgerðarlausa dýpt, mann langar að vera vinkona hennar. Ævar Þór Benediktsson í hlutverki rannsóknarlögreglumannsins Gústa sem hefur verið að halda við Anítu skilar sínu sömuleiðis vel, stóískur en stressaður lögreglumaður sem reynir að vera faglegur á meðan hann hamast við að bjarga hjónabandinu og bæla tilfinningar til ungu lögreglukonunnar. Þór Tulinius er algjörlega á heimavelli á skjánum og mun vonandi sjást miklu oftar þar í framtíðinni, Kolbeinn Arnbjörnsson í hlutverki æskuvinarins og uppeldisfrændans nær að bregða upp mynd af brotnum manni sem er bálskotinn í lögreglukonunni okkar, óþægilegur á dularfullan hátt. Aldís Amah er glæsileg í erfiðu aðalhlutverkinu, eðlileg, trúverðug og örugg og nær áhorfandanum strax á sitt band.

Leiksigur þáttanna á svo Steinunn Ólína sem er gjörsamlega mögnuð í hlutverki hinnar illa áttuðu móður Anítu. Spennan í sambandi þeirra tveggja verður óbærileg frá fyrsta fundi, í hikandi en þéttu faðmlagi fyrir utan æskuheimilið, og ágerist þegar líður á þættina. Rifrildin sár og erfið, væntumþykjan flókin en mikil í senn á einhvern brenglaðan hátt. Mæðgnasenurnar og dýnamíkin sem leikkonurnar og leikstjórinn ná þarna fram eru magnaðar, jafnflottar og þær eru stuðandi.

Raunsæislegar senur

Það er ljóst að Baldvin Z hefur ákveðið að ná fram ofurraunsæi í senum sínum og tekst það afar vel í samstarfi við leikarana. Tilfinningin við áhorf er sú að hér sé áhorfandinn sem fluga á vegg að fylgjast með raunverulegum fjölskylduerjum og lögreglurannsókn, senurnar nánast í heimildamyndastíl. Þær eru þó oft fulllangar, stundum hvarflar að manni að það hefði mátt byrja þær seinna og hætta fyrr, en hæg framvindan er þó í stíl við margt annað sem hefur náð vinsældum upp á síðkastið í skandinavískri þáttagerð. Þannig stigmagnast spennan hægt og örugglega en ekki með látum og æsingi – en hún stigmagnast sannarlega.

Myrkur og minningabrot

Það er notast við endurlit, Aníta fær flassbökk í sögunni og í stað þess að nota önnur hljóð eða lit til dæmis en annað í skynveruleika Anítu til að undirstrika að hún sé hér að sjá sýnir eða upplifa minningar úr æsku, þá spretta þau fram á sama hátt og annað sem er að eiga sér stað í nútíma sögunnar sem gerir það fyrst um sinn ruglingslegt að greina á milli þess sem er að gerast og þess sem Aníta ímyndar sér.

Hlutverk minningabrotanna er að ýta undir þá staðreynd að Aníta á erfiðar og óuppgerðar minningar frá bænum sem krauma undirniðri, en er illa stætt þar mikið lengur og munu áður en varir brjóta sér leið upp á yfirborðið. Þessi endurlit fannst mér persónulega óþörf og ekki bæta neinu við söguna, allt sem minningabrotin sögðu kom skýrar og betur fram í samskiptum karakterana, bæði eineltið og vanræksla móðurinnar, svo þeim hefði mátt sleppa en þau trufluðu samt ekkert skelfilega.

Lýsingin í þáttunum er afar dempuð eins og oft er í glæpaþáttum. Til að undirstrika alla þessa ömurð er auðvitað nánast alltaf dimmt og það er sem karakterum sé illa við ljósrofa því það er nánast alltaf rökkvað á heimilum þeirra. Myndatakan er tilraunakennd og djörf á köflum og ansi flott, rammarnir margir sem listaverk og ég hvet áhorfendur til að gefa þeim gaum.

Einföld glæpasaga og góð afþreying

Sagan er ekki langsótt, ekki of flókin og ekki sú frumlegasta en hún er vel útfærð. Þannig er ekki allt of langt skotið í útúrsnúningum og tilgerð heldur er sagan þétt og sannfærandi í einfaldleika sínum. Hér er ekki um að ræða sögu eða þáttaröð sem breytir heiminum, þáttagerð eða lífi þess sem horfir enda ætlar hún sér það ekki. Ætli hún sér að vera góð glæpasaga og afþreying þá er hún einmitt það og skilar sínu virkilega vel.

Fólk er víst að tala um Svörtu sanda

Síðan ég horfði á Svörtu sanda, límd við skjáinn og impóneruð yfir leik, karaktersköpun og samtölum, hef ég orðið vör við að ég hafði rangt fyrir mér varðandi umtalið sem þættirnir eru að fá. Það er fjöldi fólks að horfa og margir mæra Svörtu sanda á samfélagsmiðlum og víðar, enda eiga þættirnir það skilið. Það þarf enginn að kvíða því að gagnrýna Svörtu sanda, það veit ég núna því ég get sagt það með fullkominni sannfæringu að hér eru á ferðinni þrusugóðir glæpaþættir sem skrifa sig inn í sívinsæla skandinavíska nordic noir hefð sem hefur verið á gífurlegri uppleið. Svörtu sanda má auðveldlega flokka í hæsta gæðaflokk í þeirri deild.

Hlusta má á umsögn Júlíu Margrétar hér að neðan, umfjöllun hennar hefst á 02:18.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR