Baltasar Kormákur mun leikstýra kvikmyndinni Arthur the King á næsta ári. Mark Wahlberg fer með aðalhlutverkið, en þetta verður í þriðja sinn sem þeir Baltasar vinna saman.
Sagt er frá þessu á vef RÚV og vitnað í Variety:
Vefur Variety segir frá því að myndin hafi fengið heitið Arthur the King og handritið sé skrifað af Michael Brandt sem á að baki myndir eins og 3:10 to Yuma og Wanted. Í bókinni sem byggt er á er sögð sönn saga Mikaels Lindnords, fyrirliða sænsks liðs sem tók þátt í svokölluðu Adventure Racing, þar sem þátttakendur keppa í að komast yfir erfið landssvæði eins og regnskóga eða jökla. Lindnord rakst á flækingshund í frumskógi í Ekvador árið 2016 þar sem lið hans var við keppni. Eftir að Lindnord henti kjötbita til rakkans tók hann upp á því að elta hann og liðið um gríðarlanga vegalengd í hrikalegri færð þar til þeir náðu að leiðarenda. Eftir það tók Lindnord hundinn að sér og flutti hann með sér heim til Örnsköldsvíkur í Norður-Svíþjóð, og skrifaði svo sögu sína. Tökur á myndinni eiga að hefjast í byrjun næsta árs. Mark Wahlberg lék í myndunum Contraband og 2 Guns sem Baltasar leikstýrði einnig.
Sjá nánar hér: Baltasar leikstýrir Wahlberg í þriðja sinn | RÚV