Handrit: Ari Folman, lauslega byggt á The Futurological Congress (Kongres futurologiczny) eftir Stanislaw Lem
Aðalhlutverk: Robin Wright, Harvey Keitel, Danny Huston, Paul Giamatti, Kodi Smit-Pchee, Sami Gayle og Jon Hamm
Lengd: 122 mín.
Ísrael, 2013
[/message_box][/column]Það var stutt viðtal við íslenska brellumeistarann Daða Einarsson í Fréttablaðinu nýlega og við hliðina á var rammi með ferilsskránni hans. Og þegar rennt er yfir listann þá kemur örugglega mörgum spánskt fyrir sjónir að það hafi yfir höfuð þurft tæknibrellur í sumar þessar myndir.
Það eru tuttugu ár síðan Spielberg kynnti okkur fyrir tölvuteiknuðum risaeðlum. Fram að þeim tíma voru tæknibrellur oftast eitthvað sem ekki var hægt að framkalla öðruvísi – ef það stangaðist ekki á við náttúrulögmálin var það að minnsta kosti lífshættulegt. En eftir því sem tölvutæknin hefur þróast þá fer hún að taka yfir raunveruleikann, senur sem vel væri hægt að gera í alvörunni eru einfaldlega orðnar ódýrari eða viðráðanlegri með gígabætum.
Tölvan lætur líka betur að stjórn, í tölvunni geturðu stjórnað veðrinu. Bíómyndir verða því tölvuteiknaðri með hverju árinu. Gollum og Hulk voru skiljanlega báðir tölvuteiknaðir, það kemur hins vegar meira á óvart að höfuð aðalleikkonunnar í Málmhausi hafi verið skeytt á atvinnugítarleikara fyrir erfiðustu gítarsenurnar og að leikstjóra Blood Diamond fannst einfaldara að tölvuteikna tár á hvarma Jennifer Connolly en að fá leikkonuna aftur á tökustað.
Nú síðast skeytti Lars von Trier andlitum „alvarlegra“ leikara á líkama klámmyndastjarna fyrir grófustu senurnar í Nymphomaniac. Sjálfsagt voru margir leikararnir fegnir því að sleppa við erfiðustu atriðin – en verða þeir jafn fegnir ef þeir sleppa alveg við það að leika í nánustu framtíð?
Þetta er sú framtíð sem The Congress fjallar um. En hún byrjar í nútímanum. Robin Wright, prinsessan úr The Princess Bride *, æskuástin úr Forrest Gump og eiginkonan úr House of Cards, leikur í þetta skiptið einfaldlega Robin Wright. Sem hefur brennt allar brýr að baki sér og fær síðasta sénsinn – hlutverk ævinnar – sem hún mun leika það sem eftir er ævinnar. Það tekur þó ekki nema eina klukkustund – það þarf einfaldlega að skanna hana hana inní tölvukerfi frá öllum hliðum, allar hennar tilfinningar, allar mögulegar og ómögulegar hreyfingar – þangað til að Robin Wright er vistuð til eilífðarnóns á tölvudrifi. Sú Robin Wright getur leikið hvaða hlutverk sem Maramount-mógúlunum hugnast án þess að hin raunverulega Robin þurfi að gera nokkurn skapaðan hlut.
Leikstjórinn Ari Folman (Waltz With Bashir) vinnur hér á mörkum teiknimynda og leikinna – ríflega helmingurinn er teiknaður og tæplega helmingur leikinn. Upphafskafli myndarinnar er þó einna stirðastur – sá hluti er leikinn en leikur flestra leikaranna er ansi teiknimyndalegur – en þar er þó Robin Wright sjálf undanskilin. Maður skynjar hana strax þarna sem manneskju í teiknimyndaheimi. En lokasena þessa hluta er þó mögnuð – þegar leikkonan er skönnuð og umboðsmaðurinn (Harvey Keitel) segir stuttu og átakanlegu útgáfuna af ævisögu leikkonunnar – til þess eins að kreista réttu tilfinningarnar út.
[quote align=“right“ color=“#999999″]Þegar við hverfum stuttu síðar inní teiknimyndaheiminn kemst myndin hins vegar á flug og endalausar og forvitnilegar pælingar um sjálfið, útópíur og framtíðina hellast yfir mann hraðar en maður nær að melta[/quote] Þegar við hverfum stuttu síðar inní teiknimyndaheiminn kemst myndin hins vegar á flug og endalausar og forvitnilegar pælingar um sjálfið, útópíur og framtíðina hellast yfir mann hraðar en maður nær að melta – þetta er sannarlega mynd sem þarf að sjá oftar en einu sinni – og því til viðbótar er leikið með endalaus skemmtileg myndasögu-, listasögu- og kvikmyndaminni samhliða því. Sterkasta atriðið í magnaðri mynd er þó þegar við hverfum til raunveruleikans á nýjan leik.Atriðið minnir helst á þegar Clive Owen gengur í gegnum mannþröngina með fyrsta barn barnlausrar veraldar í Children of Men – andlitin eru öll ofur-realísk og í ofur-raunveruleikanum finnst manni maður uppgötva mennskuna aftur. Svo sér maður að þetta eru allt hálfgerðir uppvakningar. Þessi leikni framtíðarveruleiki myndarinnar reynist um sumt teiknimyndalegur eins og hinn leikni hlutinn – en gengur miklu betur upp sem slíkur.
Nálæg og fjarlæg framtíð
The Congress nýtir sér vel þá kosti sem hin nálæga framtíð veitir myndinni. Framtíðarmyndum mætti raunar vel skipta í nálæga og fjarlæga framtíð. Þegar hún er fjarlæg er frelsið ólíkt meira og þú hefur tækifæri til að vinna með ýmsa hluti sem eru ekki endilega á dagskrá í nútímanum – og getur áhyggjulaus skellt inn svifbrettum án þess að renna í grun að það muni valda angistarfullri bið hjá öllum bíónördum veraldar 29 árum síðar.
Þegar framtíðin er nálæg er hins vegar auðveldara að kasta akkeri í huga áhorfenda, akkeri sem tengir beint við þeirra eigin upplifanir og hvert þær geta mögulega leitt okkur. Þetta akkeri var í vissum skilningi fjær okkur í myndum um yfirvofandi heimsendi í kringum aldamótin (eins og 12 Monkeys, Strange Days og áðurnefnd Children of Men) því þar var verið að vinna með stef sem grandalausir Vesturlandabúar eru gjarnir á að hunsa, stef á borð við þriðja heims fátækt og loftslagsáhrif. Congress sver sig hins vegar meira í ætt við Her og The Matrix og ýkir einfaldlega veröld sem við erum nú þegar stigin inn í – heim alltumlykjandi tölvuvæðingar og sífellt tölvuteiknaðri bíómynda. Heim sem einhvern tímann hefði verið kallaður gerviheimur en verður sífellt raunverulegri.
Svo er skemmtileg tenging við Hollywood-söguna að láta Danny Huston (sonur John, barnabarn Walter og hálfbróðir Anjelicu) leika vonda umboðsmanninn í þessari sögu um endalok leiklistarinnar. En ef þetta reynist í alvöru síðasta hlutverk Robin Wright þá hefur hún að minnsta kosti loksins fengið metnaðarfulla burðarhlutverkið sem hún átti skilið. **
[divider scroll_text=““]* Ég skal alveg viðurkenna að mestu vonbrigði mín við myndina voru að Cary Elwes hafi ekki verið einhvern veginn skrifaður inní hana.
** Prófið samt að horfa aftur á Forrest Gump – og takið eftir því hvernig Jenny-in hennar Robin Wright heldur myndinni í raun saman.