Ingibjörg Haraldsdóttir ljóðskáld, þýðandi og kvikmyndagagnrýnandi er látin 74 ára að aldri. Ingibjörg lærði kvikmyndagerð við Kvikmyndaskóla ríkisins (VGIK) í Moskvu og lauk Mag. art prófi í kvikmyndastjórn þaðan 1969. Frá árinu 1975 skrifaði hún um kvikmyndir fyrir dagblaðið Þjóðviljann um árabil. Hennar verður minnst fyrir skarpa og næma sýn sína á kvikmyndalistina.
Það var gaman að sjá tæknilega endurbætta útgáfu af Morðsögu (1977) Reynis Oddssonar í Háskólabíói í gær. Þetta er allavega í fjórða skiptið sem ég sé myndina (síðast fyrir fáeinum árum) og enn tekst henni að koma manni á óvart. Hún hefur einfaldlega elst mjög vel, er afar nútímaleg, bæði hvað varðar efnistök og nálgun, sem og merkilegur vitnisburður um samtíma sinn.