Þið munið hann Derras

Skarphéðinn Guðmundsson.
Skarphéðinn Guðmundsson.

„Er Derras að byrja?“ spurði hún einhvern tímann, Dóra gamla í Þrándarholti. Heimilisfólkið vissi alveg hvað hún átti við, jafnvel þótt hún ruglaði saman tveimur eftirlætis sjónvarpsþáttum þjóðarinnar um langt árabil, nefnilega þáttunum um hinn skarpskyggna þýska rannsóknarlögreglumann Derrick, og þáttunum um hina skrautlegu olíufjölskyldu sem kenndir voru við heimahaga þeirra, Dallas. Dóra mátti ekki missa úr þátt, ekki frekar en drjúgur hluti þjóðarinnar. Þannig hefur sjónvarpið verið hluti af daglegu lífi okkar Íslendinga, hluti af fjölskyldunni, allar götur síðan útsendingar hófust á þessum degi fyrir 50 árum, 30. september 1966.

Merkilega lítið hefur breyst síðan. Enn fangar sjónvarpið hug okkar þannig að vart líður sá dagur að við horfum ekki á eitthvert sjónvarpsefni. Meginmunurinn er að nú einskorðast áhorfið ekki við dúklagt sjónvarp í stofunni eftir kvöldmat heldur erum við sífellt að horfa á einhvers konar sjónvarp í einni eða annarri mynd, öllum stundum dagsins. Ef ekki á hina hefðbundnu, svokölluðu línulegu dagskrá, þá veljum við okkur stund og stað til að horfa á það sjónvarpsefni sem við sjálf kjósum hverju sinni og smellum á fréttamyndir eða styttri sjónvarpsklippur sem orðnar eru helsta aðdráttaraflið á Netinu. Við höfum aldrei horft jafn mikið á sjónvarp og því er sjónvarp þýðingarmeira nú en nokkru sinni áður.

Sannkölluð sjónvarpsþjóð

Þegar boðið er upp á vandað íslenskt efni á borð við Ófærð, Orðbragð, Landann, Skaupið eða Söngvakeppnina sest bróðurpartur þjóðarinnar enn fyrir framan tækin og deilir saman upplifuninni. Annað eins áhorf er fáheyrt og þekkist vart á Vesturlöndum. Sömu sögu er að segja af beinum útsendingum frá viðburðum eins og Eurovision eða íþróttamótum þar sem íslenskt afreksfólk slær í gegn. Þegar þjóðarhagur er í húfi kveikir fólk líka á sjónvarpinu og upplifir saman fréttaskýringaþætti, stóra viðburði, söguleg augnablik, hamfarir, sigra og áföll. Guð blessi Ísland. Þessi augnablik, hvort sem þau eru gleðileg eða sorgleg, skipta miklu máli fyrir þjóðarvitund okkar og samkennd og þau eru enn merkilegri nú en áður, því að samkeppnin um athygli okkar hefur aldrei verið meiri og framboð af upplýsingum og afþreyingu, einkum erlendis frá í gegnum Netið, er endalaust.

Kunnum gott að meta

Íslendingar horfa mikið á sjónvarp. Meira en flestir aðrir. Með sömu rökum og við höfum gjarnan kallað okkur bókaþjóð er því vel hægt að kalla okkur sjónvarpsþjóð. Viðhorfskannanir og áhorfsmælingar hafa sýnt að Íslendingar vilja öðru fremur horfa á vandað og fjölbreytt íslenskt sjónvarpsefni. Íslendingar vilja láta skemmta sér, fræðast og vera upplýstir. Þeir taka fagnandi, af áhuga og með opnum huga, íslensku menningarefni af hvers kyns toga sem greinilega hefur verið skapað og framleitt með hæfileikum og af listfengi. Íslenskir sjónvarpsáhorfendur kunna gott að meta, gera kröfur og glápa ekki á bara hvað sem er. Íslendingar eru vandlátir sjónvarpsáhorfendur og hafa vit á sjónvarpi.

Rödd lýðræðisþjóðar

Sjónvarp er því ekki bara eitthvað sem styttir stundir. Ekki einhver falskur félagsskapur, stundastyttir sem narrar okkur á flótta undan raunveruleikanum að loknum erfiðum vinnudegi. Sjónvarp er menningarmiðill. Sjónvarp er þing. Sjónvarpið okkar hefur á liðnum árum verið og er enn leikhús, bíó, kappleikur, bókasafn, skóli, leikvöllur og samkomuhús. Sjónvarpið okkar er rödd lýðræðisþjóðar. Sjónvarpið okkar er enn og verður áfram langáhrifamesta miðlunarform hvers kyns menningar og upplýsinga – hvort sem því er miðlað í gamla „imbann“, tölvuna eða símann.

Sjónvarp sem á erindi

Ríkisútvarpið hefur frá upphafi sinnt innlendri dagskrárgerð fyrir sjónvarp og þar hlýtur megintilgangur þess að liggja til framtíðar. Að undanförnu höfum við lagt aukna áherslu á innlenda dagskrárgerð og sjaldan ef nokkru sinni hefur hlutfall af nýju innlendu efni verið hærra á RÚV en einmitt um þessar mundir. Ein ánægjulegasta viðbótin við þá flóru er KrakkaRÚV og Krakkafréttir. Á tímum óhefts framboðs af erlendu, óþýddu efni vill RÚV bjóða yngstu áhorfendunum vandað íslenskt eða talsett efni, sem gerir þau hæfari til að taka þátt í opnu og lýðræðislegu samfélagi, auk þess að gleðja og skemmta. Um þessa yngstu áhorfendur gilda nefnilega sömu grunnlögmál og um fullorðna.

Á þeim fimmtíu árum sem liðin eru síðan fyrstu sjónvarpsútsendingar hófust hefur þjóðin sýnt það æ ofan í æ að hún kýs framar öðru vandað íslenskt sjónvarpsefni. Ákallið eftir vandaðri íslenskri dagskrárgerð eykst með auknu framboði erlends afþreyingarefnis í gegnum erlendar fréttaveitur og einkamiðla. Því kalli hyggjumst við á RÚV svara. Það er því aldrei að vita nema að senn líði að því að Dóra gamla og aðrir íslenskir sjónvarpsáhorfendur geti notið æsispennandi glæparannsókna Diðriks, hins íslenska kollega Derricks, og fylgst spennt með ástum og örlögum íslenskrar kvótafjölskyldu á Dalvík. Því að það er íslenskt sjónvarp og þannig á íslenskt sjónvarp áfram að vera.

Til hamingju með daginn, kæra sjónvarpsþjóð, og sjáumst hress og með ekkert stress á opna húsinu á morgun í Efstaleiti og á Akureyri.

Skarphéðinn Guðmundsson

Dagskrárstjóri sjónvarps

Skarphéðinn Guðmundsson
Skarphéðinn Guðmundsson
Höfundur er dagskrárstjóri RÚV sjónvarps.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR