Litlar breytingar eru á aðsóknarlistanum þessa vikuna. Þrestir Rúnars Rúnarssonar er áfram í tíunda sæti eftir þriðju sýningarhelgi og Everest Baltasars áfram í því þriðja.
Þrestir Rúnars Rúnarssonar hlaut Silver Hugo verðlaunin í flokki nýrra leikstjóra á Chicago International Film Festival í gærkvöldi. Hátíðin er elsta og ein virtasta kvikmyndahátíðin í Bandaríkjunum.
"Þrestir er þroskasaga ungs manns, sem er að miklu leyti staðnaður sem barn, og myndin skoðar tímabil í lífi hans þar sem hann neyðist til að horfast í augu við fullorðinsárin, sama hversu glötuð þau kunna að virðast," segir Gunnar Theódór Eggertsson meðal annars í Víðsjá Rásar 1 um mynd Rúnars Rúnarssonar.
Þrestir Rúnars Rúnarssonar eru í tíunda sæti á opnunarhelginni meðan Everest Baltasars snýr aftur í efsta sætið. Heimildamyndin Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum gengur ágætlega.
Þrestir Rúnars Rúnarssonar hlaut aðalverðlaunin í svokölluðum 1-2 flokki á kvikmyndahátíðinni í Varsjá í Póllandi sem lauk í kvöld. 1-2 flokkurinn vísar í að myndin sé fyrsta eða önnur mynd leikstjóra.
Valur Gunnarsson fjallar um Þresti Rúnars Rúnarssonar í DV, en almennar sýningar á myndinni hefjast í kvöld. Hann gefur myndinni fjórar stjörnur og segir hana skipa sér fremsta í flokk þeirra bíómynda sem fjalla um hrylling íslenskrar æsku í dag.
Hjördís Stefánsdóttir skrifar um Þresti Rúnars Rúnarssonar í Morgunblaðið og gefur henni fjóra og hálfa stjörnu af fimm. Hún segir áhorfendur finna tilfinningaspennu magnast innra með sér og skynja illþyrmilega að slæmar aðstæður Ara komi til með að versna til muna áður en yfir lýkur.
Vala Hafstað hjá Iceland Review gefur Þröstum Rúnars Rúnarssonar fimm stjörnur af fimm og segir hana undurfallega mynd með djúpan skilning á mannssálinni.
Jason Gorber hjá Twitchfilm sparar ekki lýsingarorðin í umsögn sinni um Þresti Rúnars Rúnarssonar. Hann segir myndina vera eina af sárafáum uppgötvunum ársins og undirstriki áhrifamátt kvikmyndanna. "Hún hefur ríkulega merkingu og vekur sterkar tilfinningar, listrænn andi svífur yfir en einnig ögrun hrollvekjunnar."
Atli Sigurjónsson sem skrifað hefur gagnrýni um kvikmyndir á Klapptré hefur nú verið ráðinn gagnrýnandi Fréttablaðsins. Honum er óskað velfarnaðar í nýju starfi en fyrsta umsögn hans fyrir blaðið er um Þresti Rúnars Rúnarssonar og gefur hann myndinni þrjár stjörnur af fimm.
Þrestir Rúnars Rúnarssonar var rétt í þessu valin besta myndin á San Sebastián kvikmyndahátíðinni. Rúnar veitti verðlaununum viðtöku við hátíðlega athöfn í kvöld. San Sebastián hátíðin er ein af fáum svokölluðum „A“ kvikmyndahátíðum og hafa aðeins örfáar íslenskar kvikmyndir í fullri lengd unnið til aðalverðlauna á slíkum hátíðum.
"Rúnar Rúnarsson hefur gert yfirvegaða frásögn um breytinguna frá unglingsárum til fullorðinsára sem er miklu harkalegri og grimmdarlegri en virðist við fyrstu sýn," segir Alfonso Rivera hjá Cineuropa meðal annars um Þresti sem nú er sýnd á San Sebastian hátíðinni.
David D'Arcy hjá Screen International fjallar um Þresti Rúnars Rúnarssonar sem nú er sýnd á Toronto hátíðinni. D'Arcy segir trausta leikstjórn og stórkostlegt umhverfi lyfta myndinni hátt yfir hefðbundnar unglingamyndir, en ólíklegt sé að myndin nái út fyrir markað listrænna mynda þrátt fyrir aukinn áhuga á íslenskum kvikmyndum.
Jordan Mintzer hjá The Hollywood Reporter fjallar um Þresti Rúnars Rúnarssonar sem sýnd er á Toronto hátíðinni. Mintzer segir myndina frekar hefðbundna sögu sem lyft sé upp af fallegu myndefni og óvenjulegu sögusviði.