Nýjasta bíómynd Baldvins Z, Fyrir Magneu, hlaut á dögunum 1,7 milljón norskra króna í styrk frá Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum. Það samsvarar rúmum 23 milljónum íslenskra króna. Verkefnið, sem fer í tökur síðsumars, hefur einnig hlotið styrk frá Kvikmyndamiðstöð auk þess sem RÚV tekur einnig þátt í fjármögnun.
Baldvin Z ræðir við breska vefinn Crimetime um þáttaröðina Case (Réttur 3), nálgunina og hugmyndirnar bakvið verkið. Einnig kemur hann inná framtíðarverkefni og stöðuna í íslenskri kvikmyndagerð.
Breska sjónvarpsstöðin Channel 4 hefur keypt sýningarréttinn að þáttaröðinni Réttur 3 sem Baldvin Z leikstýrði. Þáttaröðin verður sýnd á sérstakri VOD rás stöðvarinnar, Walter Presents, sem sérhæfir sig í þáttaröðum á erlendum tungumálum.
Ólafur Arnalds tónlistarmaður og Baldvin Z vinna nú að tónlistarmyndinni Island songs. Tökur munu standa yfir í allt sumar víðsvegar um Ísland og mun Ólafur vinna með völdum tónlistarmanni á hverjum stað. Hugmyndin er að birta nýtt lag vikulega, á mánudögum frá og með deginum í dag.
Sjónvarp Símans hefur tryggt sér sýningarréttinn á sjónvarpsþáttaröð sem Baldvin Z og samstarfsfólk hans er með í undirbúningi. Þættirnir verða 13 og er fyrirhugað að serían verði tilbúin eftir tvö til þrjú ár.
RÚV frumsýnir þáttaröðina Ófærð þann 27. desember næstkomandi. Í heimildamynd um gerð þáttaraðarinnar er skyggnst á bakvið tjöldin við gerð hennar. Meðal þeirra sem er rætt er við eru Sigurjón Kjartansson, Baldvin Z, Baltasar Kormákur, Ólafur Darri Ólafsson, Ilmur Kristjánsdóttir og fleiri.
Þýska sölufyrirtækið Red Arrow International mun annast alþjóðlega sölu á þáttaröðinni Réttur 3 sem Sagafilm framleiðir og Baldvin Z leikstýrir. Sýningum á þáttaröðinni er nýlokið á Stöð 2.
Þriðja umferð af þáttaröðinni Réttur fer í loftið á Stöð 2 á sunnudagskvöld. Baldvin Z leikstýrir þáttunum. Ný stikla hefur verið opinberuð og má sjá hana hér.
Um miðjan október hefjast á Stöð 2 sýningar á þáttaröðinni Réttur 3 sem Baldvin Z leikstýrir og Sagafilm framleiðir. Baldvin er í viðtali við Drama Quarterly þar sem hann fer yfir tilurð verksins og vinnuna.
Einn kunnasti gagnrýnandi Svía Fredrik Sahlin, sem um árabil hefur fjallað um kvikmyndir hjá SVT (sænska ríkissjónvarpinu), segir Vonarstræti "perluna í stórmyndamyrkri sumarsins." Sýningar á myndinni hófust í dag í sænskum bíóum.
Tökur hófust í gær á þriðju umferð þáttaraðarinnar Réttur. Baldvin Z leikstýrir eftir handriti Þorleifs Arnarssonar og Andra Óttarssonar. Sagafilm framleiðir en um 200 leikarar og fimmtíu manna tökulið vinnur að verkefninu. Tökur standa fram í júlí.
Almennar sýningar á Vonarstræti hefjast í dönskum kvikmyndahúsum á morgun, en myndin er sýnd undir heitinu De små ting eða Litlu hlutirnir. Myndin fær almennt ágætar umsagnir í dönsku pressunni.
Vonarstræti Baldvins Z hlaut áhorfendaverðlaun frönsku hátíðarinnar Mamers en Mars sem fram fór dagana 13.-15. mars. Verðlaunafé nemur um 75 þúsund krónum.
Vonarstræti Baldvins Z var valin besta myndin á Febiofest kvikmyndahátíðinni sem fram fór í Prag í Tékklandi 19. – 27. mars. Myndin tók þátt í aðalkeppni hátíðarinnar er nefnist „New Europe“ og varð þar hlutskörpust gegn 11 öðrum kvikmyndum. Baldvin var sérstaklega boðið af aðstandendum á hátíðina og veitti verðlaununum viðtöku.
Baldvin Z hefur gert samning við bandarísku umboðsskrifstofuna Paradigm. Variety skýrir frá þessu og nefnir einnig að hugmyndir séu uppi um að endurgera Vonarstræti í sjónvarpsþáttaformi.