Hefur konum í leikstjórastól fjölgað á síðustu árum?

Samantekt Guðrúnar Elsu Bragadóttur á þátttöku kvenna í kvikmyndagerð gegnum tíðina er áhugaverð. Í ljósi þeirrar miklu umræðu sem verið hefur um þessi mál á undanförnum árum og Klapptré hefur fjallað mikið um er fróðlegt að skoða hvort kvenkyns leikstjórum hafi fjölgað á síðustu árum og hvert þróunin stefnir.

Semsagt, spurt er: er verið að snúa þróuninni í átt að meira jafnvægi kynjanna?

Um fjölgun kvenkyns leikstjóra heimildamynda á undanförnum árum er fjallað hér.

2016 birtist ein bíómynd eftir konu (af 6) og síðan þá hafa myndir eftir konur birst árlega (1-3 hafa verið boðaðar á þessu ári). Áður fyrr birtust bíómyndir kvenna með lengra millibili, oft liðu mörg ár á milli. Á undanförnum árum hefur þáttaröðum fyrir sjónvarp fjölgað og margar væntanlegar á þessu og næsta ári. Því er rétt að skoða hvernig staðan er þar einnig. Hefur kvenkyns leikstjórum fjölgað hlutfallslega – miðað við áratuginn á undan (2006-2015):

Skoðum fyrst bíómyndirnar

2006-2015 – 8% bíómynda leikstýrt af konum

Alls voru sýndar 65 kvikmyndir í fullri lengd. Konur leikstýrðu fimm þeirra, eða innan við 8% (þar af var einni þeirra stýrt sameiginlega af karli og konu).

2016-2021 – um 33% bíómynda leikstýrt af konum

Alls hafa verið sýndar 26 bíómyndir (til dagsins í dag, 22. sept). Konur hafa leikstýrt 6 þeirra, eða tæpum fjórðungi. Skoða má lista yfir íslenskar bíómyndir hér.

Þetta er töluverð breyting og nú er fróðlegt að skoða í hvaða átt stefnir.

Fjórar myndir teknar upp fyrir 2020 eru enn ósýndar en eru sagðar á leiðinni (Alma, Hvernig á að vera klassa drusla, Skuggahverfið og Dýrið sem boðuð er á næsta ári. Þetta er fyrir utan nokkrar low-budget myndir sem eru í vinnslu en ekkert er vitað um hvenær þær muni birtast).

Þremur þeirra er leikstýrt af konum (einni ásamt karli). Séu þessar þrjár taldar með þessu ári er fjöldi mynda 29 og myndir leikstýrt af konum 9, eða tæpur þriðjungur.

Sex aðrar bíómyndir hafa verið teknar upp á þessu ári eða eru nú í tökum. Stefnt er að tökum á þremur til viðbótar á árinu. Konur eru í leikstjórastól fjögurra þessara mynda, eða rúmlega 40% þeirra.

Ef við gefum okkur að þær birtist allar á næsta ári þá er heildarfjöldi mynda 2016-2021 alls 38 og 13 þeirra leikstýrt af konum eða rúmum þriðjungi.

Hafa þarf í huga að þessar tölur geta breyst eitthvað eftir því hvenær myndirnar eru sýndar og ný verk bætast við, en það er nokkuð ljóst að konum í hópi leikstjóra bíómynda hefur fjölgað mikið á undanförnum árum miðað við það sem var.

Hvað með þáttaraðir?

Sömu tímabil verða borin saman, en samanburður hér er að vissu leyti snúinn vegna þess að stundum koma fleiri en einn leikstjóri að þáttaröð og mismunandi hversu mikið hver og einn kemur að verkinu. Algengara er að lykilpóstar (leikstjórn, handrit, framleiðsla) séu fjölmennari hópur en í bíómyndum.

Nanna Kristín Magnúsdóttir við upptökur á Pabbahelgum (mynd: Lilja Jóns).

2006-2015 – um 8% leikstjóra konur

Alls sýndar 37 þáttaraðir (þáttaröð skilgreind hér sem tveir þættir eða fleiri, sketsaþættir undanskildir). Þremur þeirra var leikstýrt af konum (þar af einni ásamt karli), alls rúmlega 8%. Alls eru leikstjórar þáttaraða á þessu tímabili 26 talsins, þar af eru konur 2, eða tæp 8% (athugið að nokkrir leikstjórar koma að fleiri en einni þáttaröð).

2016-2021 – um 44% leikstjóra konur

Alls hafa verið sýndar 17 þáttaraðir (til dagsins í dag, 22. sept). Konur hafa komið að leikstjórn níu þeirra (rúmlega helmingur) en eru alls 10 af 23 leikstjórum, eða tæpur helmingur (44%). Skoða má lista yfir leikið sjónvarpsefni hér.

Þá hafa níu þáttaraðir ýmist verið teknar upp á árinu eða eru í tökum. 14 leikstjórar koma að þessum verkum, þar af 5 konur (rúmur þriðjungur).

Ef við gefum okkur að þessar þáttaraðir birtist á þessu og næsta ári þá er heildarfjöldi þáttaraða 2016-2021 alls 23. Konur koma að leikstjórn 13 þeirra, eða rúmlega helmings. Fjöldi leikstjóra er alls 27, þar af 12 konur eða rúmlega 44% (athugið að nokkrir leikstjórar koma að fleiri en einni þáttaröð).

Auðvitað segir fjöldi leikstjóra ekki alla söguna enda þáttaraðir dálítið önnur skepna en bíómyndir og frumkvæði og heildarumsjón þáttaraðar ekki endilega á forræði nema hluta leikstjórahópsins. Engu að síður sýna þessar tölur að mikil aukning hefur orðið á undanförnum árum í hópi kvenkyns leikstjóra þáttaraða.

Ef sömu tímabil eru borin saman varðandi þáttaraðir sem gerðar eru að frumkvæði kvenna að verulegu leyti, lítur dæmið svona út (hafa ber í huga að margar þessara og annarra þáttaraða eru um leið samvinnuverkefni kvenna og karla):

2006-2015:

5 þáttaraðir af alls 37 þáttaröðum eða um 13% (Litla stundin með Skoppu og Skrítlu, Ástríður I, Ástríður II, Makalaus, Ávaxtakarfan).

2016-2021:

8 þáttaraðir af alls 23 þáttaröðum eða um 35% (Ligeglad, Tulipop I, Tulipop II, Líf eftir dauðann, Pabbahelgar, Ráðherrann, Vitjanir, Systrabönd).

Þó ekki sé um margar þáttaraðir að ræða sést samt veruleg aukning (60%) sem og hlutfallsleg fjölgun.

Allt þetta rímar ágætlega við tölur sem Kvikmyndamiðstöð hefur tekið saman og sýna betri árangur kvenna umfram karla varðandi styrkumsóknir almennt á undanförnum árum.

Þetta rímar einnig ágætlega við mína tilfinningu varðandi stöðuga aukningu á þátttöku kvenna í lykilpóstum kvikmyndagerðar á þeim sjö árum sem Klapptré hefur komið út.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR