Víkingamyndir og skeggvöxtur

Ernest Borgnine, Janet Leigh og Kirk Douglas í The Vikings frá
Ernest Borgnine, Janet Leigh og Kirk Douglas í The Vikings frá

Egill Helgason leggur útaf fréttum um fyrirhugaða víkingamynd Baltasars á vef sínum og ræðir skeggvaxtarmál víkingamynda í sögulegu samhengi.

Egill segir meðal annars:

Víkingamyndir eru í raun ekkert sérlega algengar – ekki miðað við hvað sagnasjóðurinn er stór. Af íslenskum víkingaaldrarmyndum tókst best til þegar Hrafn Gunnlaugsson gerði Hrafninn flýgur. Þar fór Hrafn ekki bara í fornbókmenntirnar heldur notaði hann líka minni úr kvikmyndum, ekki síst frá Sergio Leone. Norðri Hrafns bar svipmót af klassískum vestrum.

Í víkingamyndum hefur stundum verið vandamál hvað búningarnir virðast of púkalegir, leiktjöldin ósannfærandi og tungutakið skrýtið. Upp á síðkastið hafa reyndar verið gerðir leiknir sjónvarpsþættir um víkinga sem hafa notið vinsælda – þeir fjalla um ævintýri manns sem er kallaður Ragnar Lothbrok.

1957 var gerð mikil stórmynd sem nefndist The Vikings með Kirk Douglas og Tony Curtis í aðalhlutverki. Myndin var tekin upp í Harðangursfirði í Noregi.

Þá kom upp sérkennilegt vandamál. Ekki var algengt á þeim árum að karlar væru með mikið skegg – það var alls ekki í tísku.

Því var auglýst eftir skeggjuðum karlmönnum á Norðurlöndunum, en meðal þeirra sem fóru var Stefán Karlsson handritafræðingur, síðar forstöðumaður stofnunar Árna Magnússonar. Stefán var þá ungur maður í Kaupmannahöfn. Hann fór til Noregs og dvaldi þar nokkra hríð við kvikmyndatökur ásamt öðrum skeggjuðum Norðurlandabúum.

Kirk Douglas var hins vegar vel rakaður í myndinni. Það voru aðallega statistarnir sem voru með skegg. Mér skilst reyndar að það sé fremur erfitt að koma auga á Stefán í myndinni.

Nú er þetta ekki vandamál. Skegg eru í tísku og fúlskeggjaðir karlmenn á hverju strái. Maður þarf ekki að fara lengra en í miðbæinn í Reykjavík, tína upp nokkra hipstera og þá er maður kominn langleiðina með að gera víkingamynd.

Sjá nánar hér: Víkingamyndir og skeggvöxtur « Silfur Egils.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR