Gagnrýnt að önnur syrpa „Ófærðar“ fái vilyrði þrátt fyrir ókláruð handrit

Önnur syrpa Ófærðar hlaut vilyrði í júnímánuði fyrir sextíu milljóna styrk frá Kvikmyndasjóði þótt ekki væri búið að skrifa handrit að öllum þáttunum í seríunni. Laufey Guðjónsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar segir reglur ekki hafa verið brotnar, en Snorri Þórisson framleiðandi hjá Pegasus gagnrýnir ákvörðunina. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu.

Fréttablaðið hefur fjallað um þetta undanfarna daga í tveimur fréttum. Í fyrri frétt Fréttablaðsins/Vísis segir:

Ófærð 2 hlaut vilyrði fyrir sextíu milljóna styrk frá Kvikmyndasjóði þótt ekki væri búið að skrifa handrit að öllum þáttunum í seríunni. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru aðrir framleiðendur en þeir sem koma að Ófærð 2 nú að skoða lagalega stöðu sína vegna ákvörðunar sjóðsins sem ber að gæta jafnræðisreglu. Þá verði kannað hvort Kvikmyndasjóður hafi brotið gegn stjórnsýslulögum og meginreglum stjórnsýsluréttar. Úthlutunin kunni því að vera ógildanleg.

Laufey Guðjónsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands segir að í þessu tilviki hafi verið hægt að meta verkefnið sem hæfast þótt handrit væri ekki fullklárað og telur reglur ekki hafa verið brotnar.

„Ég held ekki að reglur hafi verið brotnar. Við erum alltaf að meta verkefni sem er talið hæfast hverju sinni. Það eru vonsviknir aðilar sem fengu ekki styrki í ár sem hafa væntanlega komið að þessum ábendingum. Þetta er í rauninni mjög stór sería og sextíu milljónir eru hlutfallslega lágur styrkur. Við fengum þannig gögn að við töldum að það væri hægt að styrkja þetta,“ segir Laufey um úthlutunina.

Í 8. grein reglugerðar um Kvikmyndasjóð stendur: „Vilyrði um framleiðslustyrk má veita tímabundið þegar fullbúið handrit liggur fyrir ásamt fjárhags- og fjármögnunar­áætlun.“

Þann 15. maí síðastliðinn sagði Baltasar Kormákur, leikstjóri og einn framleiðenda, í viðtali við Kastljós RÚV að einungis væri búið að skrifa handrit að fjórum af tíu þáttum sem standi til að framleiða. Stuttu síðar, eða þann 6. júní, tilkynnti Kvikmyndasjóður um úthlutanir þar sem Ófærð 2 hlýtur 60 milljóna króna styrk.

„Já, það stendur í reglugerðinni að það þurfi að liggja fyrir fullbúið handrit. En í öllum tilvikum er handritið unnið áfram fram á síðasta tökudag. En allir dramatískir punktar lágu fyrir. Við töldum að við værum með nægileg gögn í höndum,“ segir Laufey.

„Ég held að reglur hafi ekki verið brotnar. Þeir framleiðendur sem kvarta undan þessu, ég veit ekki hvað þeir hafa séð mikið af efninu. Þetta er alltaf spurning um hæfasta verkefnið hverju sinni,“ segir Laufey sem samkvæmt Reglugerð um Kvikmyndasjóð er ábyrg fyrir því að að öll skilyrði fyrir úthlutun séu uppfyllt, auk þess að taka endanlega ákvörðun um styrkveitingu úr Kvikmyndasjóði að fenginni ráðgjöf kvikmyndaráðgjafa sem eru ráðnir af forstöðumanni.

Í seinni frétt Fréttablaðsins/Vísis segir:

Það skortir jafnræði við úthlutun úr Kvikmyndasjóði til framleiðenda, segir eigandi eins stærsta sjónvarpsþáttaframleiðanda á Íslandi. Hann segir að 60 milljóna króna úthlutun vegna Ófærðar 2 á dögunum hafi komið sér verulega á óvart.

Ekki var búið að skrifa handrit að nema fjórum þáttum af tíu þegar ákvörðun um úthlutunina var tekin. Þrátt fyrir það stendur í 8. grein reglugerðar um Kvikmyndasjóð að vilyrði um framleiðslustyrk megi veita tímabundið þegar fullbúið handrit liggur fyrir ásamt fjárhags- og fjármögnunaráætlun.

„Reglan hefur verið sú að það hefur þurft að skila inn handritum. Þarna er skilað inn 40 prósentum af því sem átti að skila inn,“ segir Snorri Þórisson, eigandi Pegasus.

Hann bætir við að Pegasus hafi verið með umsókn á sama tíma vegna framhalds á þáttaröðinni Hrauninu. Fyrirtækið hafi lagt handrit að öllum þáttunum inn en fengið athugasemd við þau og ekki fengið styrk.

„Það hefði kannski verið heppilegra að skila inn einu og hálfu handriti og segja svo gróflega frá því hvað við ætluðum að gera með restina. Þá hefði kannski verið minni ástæða til að gera athugasemd við það. En mér datt bara ekki í hug að það væri heimilt að skila svona fáum handritum inn,“ segir hann.

Í Fréttablaðinu á fimmtudag kom fram að aðrir framleiðendur skoðuðu réttarstöðu sína vegna ákvörðunar Kvikmyndasjóðs og hugsanlega yrði kannað hvort brotið hefði verið gegn reglum stjórnsýsluréttar þegar ákvörðun um úthlutunina var tekin. Laufey Guðjónsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar, svaraði því til að hún teldi ekki að reglur hefðu verið brotnar en vonsviknir aðilar hefðu komið ábendingunum áleiðis.

„Ég var hissa á svörum Laufeyjar Guðjónsdóttur út af þessu. Vegna þess að þar segir hún mjög ósmekklega að þeir sem fái ekki styrki séu bara spældir,“ segir Snorri. Það sé alls ekki svo en menn vilji að allir sitji við sama borð og að jafnræðisregla gildi. Þá segir hann engum hollt að sitja í sömu stöðunni eins og Laufey er búin að gera í fimmtán ár.

„Þjóðleikhússtjóri er í átta ár að hámarki og það ætti að gilda eitthvað svipað um þetta,“ segir Snorri. Hann bætir því þó við að hann hafi skoðað úthlutanir þrjú til fjögur ár aftur í tímann og honum sýnist að Baltasar Kormákur hafi á þeim tíma fengið tæpar 500 milljónir króna, Sagafilm um 300 milljónir en Pegasus um 92 milljónir. „Þannig að auðvitað ætti ég að vera spældur,“ segir hann.

Sjá nánar hér: Styrkja Ófærð 2 þrátt fyrir óklárað handrit – Visir og hér: Segir Baltasar Kormák fá meira en aðra

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR