Reynir Oddsson og námið í London Film School í lok sjötta áratugsins

Reynir Oddsson leikstjóri og handritshöfundur Morðsögu (1977) var fyrsti Íslendingurinn til að stunda nám við þann sögufræga skóla, London Film School, sem Gísli Snær Erlingsson stýrir nú. Reynir var þar við nám veturinn 1958-59, en skólinn, sem þá hét London School of Film Technique, var stofnaður 1956 meðan formleg kvikmyndakennsla hófst 1957. Hann rifjar upp minningar sínar frá þessum tíma.

REYNIR ODDSSSON: Þá var skólinn til húsa í þeirri síðar frægu götu Electric Avenue í Brixton og gatan yfirfull af litríkum innflytjendum frá Vestur Indíum. Skólastjórinn var kempan Robert Dunbar. Ég var fyrsti Íslendingurinn sem sótti skólann en hann var eiginlega alveg nýbyrjaður þegar ég kom að honum.

Robert Dunbar.

Robert Dunbar, sem barðist í bökkum við reksturinn vegna fjárskorts var merkilegur karl í breska kvikmyndaheiminum með langa sögu að baki. Hafði meðal annars verið í Berlin hjá UFA við talsetningu þýskra mynda yfir á ensku um og uppúr 1930. Mjög hress karl sem fór með nemendunum útá pöbb í vikulokin.

Hjónin Edda Þórarinsdóttir og Gísli Gestsson á Eddunni 2015. (Ljósmynd: Styrmir Kári-mbl.is)

Á eftir mér fóru í skólann Gísli Gestsson og Lúðvík Karlsson, sá magnaði og frægi sögumaður, sem því miður kom aldrei sínum fantastísku sögum á sellulósa. Sigurður Sverrir Pálsson fór svo seinna í skólann en þá var hann fluttur yfir á það svæði sem hann hefur víst verið á síðan í Covent Garden.

Kennslan var takmörkuð vegna féleysis, sérstaklega hin verklega hlið hennar, en býsna góð eins langt og hún náði. Eitt það besta við námið var að á hverjum föstudagseftirmiðdegi komu til skólans þekktir menn úr filmubransanum (Dunbar þekkti alla) og sátu með okkur nemendunum, við vorum bara 12, í lítilli stofu og spjölluðu við okkur um allt mögulegt varðandi kvikmyndagerð.

Lindsay Anderson og Richard Harris við tökur á This Sporting Life.

Þar man ég t.d. eftir Lindsay Anderson afskaplega viðkunnanlegum manni, sem sagði okkur frá ömurlegri reynslu sinni af gerð heimildarmynda um iðnaðarvörur. Ég man að hann nefndi eitt tilfelli af mynd sem hann hafði gert um skrúfur fyrir risastóran skrúfuframleiðanda. Sagði okkur það hafa verið hrikalega leiðinlegt verkefni en eigandi verksmiðjunnar hefði hinsvegar verið athyglisverður fyrir það að hann vissi gjörsamlega allt um skrúfur. Hann sagðist glaður mundu fórna annarri hendinni fyrir tækifæri til að gera leikna mynd. Það fékk hann svo nokkru seinna með This Sporting Life (1963) án þess að þurfa að fórna hendi.

Annar merkilegur náungi sem kom til okkar var Jack Clayton sem hafði þá þegar gert Room at the Top en myndin var ekki komin út. Ég spjallaði mikið við hann og sagði honum frá íslenskri sögu sem ég hélt mikið uppá og taldi gott efni í kvikmynd, 79 af stöðinni. Hann samsinnti mér um það og spurði mig hvort hún væri til á ensku. En svo var ekki svo ég settist við og þýddi hana í einum grænum.

Jack Clayton.

Room at the Top kom svo út skömmu seinna og sló svo rækilega í gegn að Jack Clayton hafði engan tíma til að sinna þessu. En þetta varð samt til þess að ég fór af stað með að reyna að koma henni á kvikmynd, sem endaði með að Erik Balling filmaði söguna undir stjórn Guðlaugs Rósinkrans. Ég kom þó hvergi nálægt því.

Anthony “Puffin” Asquith kom einnig og var gaman að fá hann en þegar hann vissi að ég var Íslendingur sagðist hann hafa hitt Bjarna Benediktsson eitt sinn. Faðir hans (H.H. Asquith) var reyndar líka merkur stjórnmálamaður og forsætisráðherra Breta 1908-1916.

Phil Samuels kom og sagði okkur frá ævintýrum sínum við gerð King Salomon’s Mines og hvernig hann neyddist til að éta ákveðinn óþverra í veislu eins mikils höfðingja í Afríku til að fá hersveitir hans með í myndina. Margir aðrir komu sem yrði of langt mál upp að telja.

Þannig var það nú þá, rétt áður en Swinging London for í loftið. En maður fann á sér að eitthvað sérstakt lá í loftinu. Svo upphófst það stuttu seinna en þá var ég farinn til Parísar á vit Nýju bylgjunnar.

Eftir skólann

Um ári eftir að náminu á London School of Film Technique lauk gerði ég mína fyrstu mynd Slys fyrir Slysavarnafélag Íslands, samdi handrit, stjórnaði, tók og klippti. Eftirvinna og hljóðsetning hjá Nordisk Film í Kaupamannahöfn. Gestur Þorgrímsson hjá Fræðslumyndasafni Ríkisins var framleiðandi og dóttir hans Ragnheiður (11 ára) lék annað aðalhlutverkið með sæmd. Þær voru reyndar báðar frábærar ungu leikkonurnar.

Þetta var áróðursmynd sem ætluð var til sýninga í barnaskólum landsins til varnar börnum í umferðinni og lýsir einu umferðarslysi og aðdraganda þess. Ég reyndi að fara afskaplega fínt í dramatísku atriðin og sýndi aldrei neitt ógeðfellt sem hefði getað stuðað krakkana. Það fór nú hinsvegar svo þegar farið var að sýna myndina í skólunum að krakkarnir lifðu sig svo sterkt inn í myndina og sérstaklega eitt atriði, sem sett var á svið á skurðstofu Landakotsspítalans, að það leið yfir þau sum og hætta varð við sýningar myndarinnar.

Nunnurnar á Landakoti voru frábærar bæði við leik og alla aðstoð, sama hvað var, þær redduðu öllu. Einu aðstoðarmenn aðrir voru nokkrir stamgestir af Laugavegi 11 sem ýttu mér um gólf spítalans á sjúkrarúmum á hjólum mundandi myndavélina. Einn þeirra ágætu manna var Sigurjón Jóhannsson síðar arkitekt.

Ég gerði þessa mynd um haustið 1961 og notaðist við tvær gamlar kvikmyndatökuvélar sem Fræðslumyndasafnið hafði einhverntíma eignast og voru í raun forngripir. Það var kalt úti þegar ég var að taka svo olían á annarri vélinni vildi þykkna í kuldanum. Ég varð því að geyma vélina inni í leigubíl þar til allt var tilbúið til töku og vera fljótur að taka atriðið. Annars hefði vélin hægt á sér og allt verið á Chaplinmyndahraða í sýningu. Hin vélin af Victor gerð var með lausa linsufestingu svo ég varð að dangla á hana með hamri fyrir tökur til að tryggja að myndin væri í fókus.

Umsögn í Vísi um Slys í nóvember 1962.

En Slys var valin til sýningar á Kvikmyndahátíðinni í Cork á Írlandi 1962 og fékk þar einhverja viðurkenningu, sem á sínum tíma þótti fréttnæmt í Reykjavíkurpressunni og var í framhaldi af því seld til Ástralíu og Kanada.

Tíminn segir frá Slysi í nóvember 1962.
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR