Bandarísk endurgerð „Benjamín dúfu“ í eftirvinnslu

Benji The Dove, bandarísk endurgerð á íslensku kvikmyndinni Benjamín dúfa frá 1995, sem byggð var á verðlaunasögu Friðriks Erlingssonar, verður frumsýnd síðar á þessu ári. Þetta segir Erlingur Jack, einn framleiðenda myndarinnar í samtali við DV.

Í frétt DV segir:

Myndin er byggð á sögunni um Benjamín dúfu og vinum hans í reglu rauða drekans, en sögunni hefir verið breytt nokkuð og hún staðfærð. Leikstjóri er Kevin Arbouet og skartar myndin nokkrum ungum og óþekktum leikurum í aðalhlutverki.

Upptökur fóru fram í New York í fyrra, búið er að klippa myndina og er nú verið að vinna í tónlist og hljóðeftirvinnslu. „Við stefnum á að klára myndina í lok sumars og hugsanlega frumsýna hana í september, en það á þó eftir að koma betur í ljós,“ segir Erlingur. Hann segist vonast til að myndin nái inn í kvikmyndahús í Bandaríkjunum og jafnvel víðar en segir samkeppnina vera harða og vel geti verið að myndin rati beint inn á VOD-leigur og efnisveitur.

Nokkuð var fjallað um myndina í íslenskum fjölmiðlum árið 2015, meðal annars þegar tilkynnt var að Susan Kirr og Cathleen Sutherland, sem var ein af framleiðendum hinnar margverðlaunuðu þroskasögu Boyhood, myndu taka þátt í framleiðslunni. Þær sögðu sig þó báðar frá verkefninu, meðal annars vegna þess að ekki tókst að tryggja nægjanlegt fjármagn en í kjölfarið var ákveðið að taka myndina upp í New York frekar en Texas. „Þær hafa hins vegar verið frábærar í öllu ferlinu og ráðlagt mér mjög mikið,“ segir Erlingur.

Hann segir myndina hafa verið töluvert ódýrari í framleiðslu en íslensk kvikmynd á fullum styrkjum og segist hann fyrst og fremst vera virkilega sáttur við að hafa náð að klára verkefnið. „Þetta hefur verið mikið ævintýri og ég hef lært heil ósköp á því að gera þessa mynd – það er á hreinu! Við leikstjórinn grínumst stundum með að þessi mynd sé algjört kraftaverkabarn,“ segir Erlingur um Benji, the Dove.

Sjá nánar hér: Bandarísk Benjamín dúfa frumsýnd í ár – DV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR