Minningarorð um Guðmund Bjartmarsson

Guðmundur Magnússon og Guðmundur Bjartmarsson að störfum.

Guðmundur Magnússon kynntist Guðmundi Bjartmarssyni þegar hann nam við Kvikmyndaskóla Íslands og síðar störfuðu þeir saman. Guðmundur minnist hér nafna síns.

Ég sat við kvöldverðarborðið á fimmtudaginn var, þegar Guðmundur Bjartmarsson kom allt í einu upp í hugann; og mér var hugsað til hans allt kvöldið. Ég hugsaði með mér að ég yrði nú að hringja og heyra í honum hljóðið. Ég mundi ekki símanúmer hans og fór á netið til þess að athuga með það og það fyrsta sem blasti við mér var frétt af minningarkvöldi um Guðmund Bjartmarsson í Bíó Paradís. Mér brá mjög mikið, enda hafði ég ekki hugmynd um að maðurinn væri látinn.

Ég gleymi aldrei þegar ég sá Guðmund Bjartmarsson í fyrsta sinn. Það var fyrsta daginn minn í kvikmyndaskóla haustið 2005. Inga Rut (sem allir þekkja sem hafa stundað nám við skólann) fylgdi mér um skólann og sýndi mér það helsta. Ég var mjög stressaður enda búinn að mana mig upp lengi að fara í kvikmyndanám. Hér er svo kaffistofan sagði Inga, og heyrðu þetta er Guðmundur Bjartmarsson, hann kennir kvikmyndatöku, sagði Inga. Og framhjá okkur gengur maður í svartri dúnúlpu með gráa húfu á höfðinu, sem gerði ekki svo mikið sem að líta á okkur og strunsaði framhjá. Mér, stressuðum ungum manninum, leist nú ekki á blikuna þá.

Í fyrstu vorum við nemendurnir hálf hrædd við þennan mann sem sagði lítið og virtist hafa lítinn áhuga, en það álit breytist fljótt. Bakvið skelina var maður vitur og fullur af ástríðu og hæfileikum. Ég og Guðmundur smullum saman og ég held að enginn hafi kennt mér jafn mikið og hann í kvikmyndagerð; þá sérstaklega varðandi klippingu og lýsingu. Sem hann kenndi á sinn hátt: Hann var hreinskilin og ég gleymi ekki svarinu sem hann gaf mér, þegar ég var stressaður fyrir einu prófinu. En ég læt það vera að hafa það eftir hér. Það var svo ótrúlega óviðeigandi fyndið að ég hafði ekki miklar áhyggjur af prófraunum eftir það.

Þegar ég útskrifaðist úr náminu fór ég að safna heimildum úr mínum heimabæ fyrir heimildamyndir, sem ég hugðist gera í framtíðinni. Ég leitaði til Guðmundar til að aðstoða mig við klippivinnu og kvikmyndatöku. Hann var með mér í þrjú ár að taka viðtöl, sem við tókum í skorpum. Gömlu kallarnir sem við spjölluðum við höfðu gaman af Guðmundi og þegar ég hringdi í þá til að bóka viðtal svöruðu þeir oftast; kemur kallinn með þér? Þeir gátu rætt við hann um allt milli himins og jarðar og komu aldrei að tómum kofanum hjá Guðmundi Bjartmarssyni. Það kom mér oft á óvart hvað hann vissi mikið. Sem hann sagði frá á sinn heilsteypta hátt.

Þegar ég hugsa um það, þá voru stundum heilu dagarnir (þegar við vorum í tökum) þar sem að hann sagði lítið sem ekki neitt. En svo kom tölvupóstur frá honum um kvöldið þar sem hann fór yfir það sem betur mátti fara og hvernig ég gæti klippt efnið saman, sem er ekki mín sterkasta hlið. Stundum ef honum leiddist viðtölin eða fannst þau ekki vera með neinu viti átti hann það til að koma með spurningu bak við kvikmyndatökuvélina, viðmælendum sumum til mikillar undrunar, sem lífgaði upp á samræðurnar og kom þeim á hærra plan.

Hann var óþrjótandi og það skipti engu máli hvað dagarnir voru langir. Hann var laus við allan verkkvíða og alltaf til í allt. Síðast þegar ég hitti Guðmund var það heima hjá honum, er hann var að pakka niður á leið til Ástralíu, þar sem ætlaði að dvelja í 6 mánuði. Við vorum ekki í neinu sambandi eftir það.

Ég vildi bara með þessum fáu orðum minnast þessa skemmtilega karakters. Hann var góður og klár kall, sem kunni mikið og það var gaman að fá að kynnast honum og vinna með. Mér þótti einnig mjög leitt að heyra af andláti hans og svona löngu síðar, en svona er lífið.

Virðingarfyllst

Guðmundur Magnússon

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR