Endurgreiðslur námu einum og hálfum milljarði 2016, aldrei hærri

Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar námu rúmum einum og hálfum milljarði 2016 og hafa aldrei verið hærri. 70% af endurgreiðslunni fóru til erlendra verkefna, 29% til innlendra og 1% til samframleiðslu. 

Grafið hér að ofan birti Hilmar Sigurðsson forstjóri Sagafilm og er það unnið úr gögnum Kvikmyndamiðstöðvar Íslands sem heldur utan um endurgreiðslukerfið.

Nálgast má upplýsingar um endurgreiðslur allt aftur til 2001 á vef Kvikmyndamiðstöðvar hér, en flýtileið að árinu 2016 er hér.

Grafið sýnir glögglega hvernig umfang erlendra verkefna hefur vaxið gríðarlega frá upphafi áratugsins og farið langt fram úr innlendri framleiðslu, sem framan af hlaut lungan af endurgreiðslunni. Hafa ber í huga að fyrir 2009 nam endurgreiðslan 14%, en hækkaði það ár í 20%. Frá 2017 er endurgreiðslan 25%.

Grafið sýnir einnig verulegar sveiflur í innlendri framleiðslu á undanförnum árum, en bendir þó til þess að hún sé nokkuð að braggast.

Einnig ber að hafa í huga að þessar tölur gefa ekki alveg nákvæma mynd af heildarveltu greinarinnar til hvers árs, þær sýna aðeins hversu háar endurgreiðslurnar voru á hverju ári fyrir sig en þar inni geta einnig verið verkefni frá árunum á undan. Einnig eru ýmiskonar verkefni innan greinarinnar, t.d. auglýsingamyndir og þess háttar, ekki hluti af endurgreiðslukerfinu.

Að neðan má sjá heildarveltu sama tímabils (samtala innlendra og erlendra verkefna).

Sjá einnig umfjöllun Klapptrés um sama efni hér.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR