Vera Sölvadóttir: Hvorki tími né pláss fyrir dauðann

Vera Wonder Sölvadóttir.

Vera Sölvadóttir ræðir við Fréttablaðið um sjónvarpsmynd sína Líf eftir dauðann, sem sýnd verður í tveimur hlutum á RÚV um páskana.

Á vef Vísis segir:

Myndin heitir Líf eftir dauðann og fjallar um miðaldra, ógiftan og barnlausan poppara sem er einkasonur móður sinnar og verulega tæpur á taugum eftir áfengismeðferð. Hann er leikinn af einum þekktasta poppara Íslands, Birni Jörundi Friðbjörnssyni.

„Það fer allt úr skorðum í litlum bæ úti á landi þegar fyrirmæli koma frá æðstu stöðum í borginni um að flýta jarðarför eldri konu sem dó daginn áður og verið er að kryfja. Sonur hennar, sem leikinn er af Birni Jörundi, er á leiðinni út til Ríga í Lettlandi til að keppa í Eurovision fyrir Ísland þegar móðir hans deyr skyndilega,“ segir Vera og bætir við að í kjölfarið bresti á hið þekkta íslenska „reddum því syndróm“ og hringt er í æðstu menn þjóðfélagsins til að bjarga málum.

Það er hins vegar fólkið í litla bænum úti á landi sem situr í súpunni eða hvað?

„Já, myndin er um það hvernig þau reyna sitt besta, en beita samt ýmsum vafasömum ráðum til að redda málunum þegar þessi skyndi-jarðarför setur þéttskipaða dagskrá þeirra í lífsgæðakapphlaupinu í uppnám.

Björn Jörundur Friðbjörnsson leikur aðalhlutverkið í myndinni.

Tilfinningin sem situr eftir í sögulok er að í neyslusamfélagi nútímans sé hvorki tími né pláss fyrir dauðann,“ segir Vera.

Linda Vilhjálmsdóttir handritshöfundur skrifaði handritið með Veru og fæddist hugmyndin fyrir meira en tíu árum.

„Við ræddum þessa hugmynd aftur fyrir um þremur árum, tókum verkið upp og þróuðum hugmyndina sem varð svo að þessu handriti sem fer á sjónvarpsskjá landsmanna um páskana,“ segir Vera.

Hún segir það hafa komið sér töluvert á óvart hversu vel íslensk kvikmyndaframleiðsla hefur þróast.

„Mér finnst íslensk tökulið vera algjörar hetjur. Hér vinnum við í marga daga samfleytt í tólf tíma á dag og það er mikið álag sem fylgir því. Ég ber mikla virðingu fyrir fólki sem starfar í bransanum. Þess vegna langar mig til að nýta tækifærið og klappa fólkinu mínu á bakið,“ segir hún og bætir við að hún og Linda séu nú þegar farnar að þróa næsta handrit sem fjallar um þrjár kynslóðir brotinna kvenna.

„Síðan er ég að þróa annað verk með framleiðanda sem ég hef unnið mikið með síðustu ár, Guðrúnu Eddu Þórhannesdóttur. Það er bíómynd sem ég skrifa, en hefur lent í skúffunni nokkrum sinnum. Handritið er hins vegar vel á veg komið og við brettum upp ermarnar með það um leið og færi gefst,“ segir Vera.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR