Studiocanal vill „Kötlu“ Baltasars

Baltasar Kormákur (mynd: RÚV).

Evrópska framleiðslufyrirtækið Studiocanal er við það að tryggja sér sýningarréttinn á Kötlu, nýrri sjónvarpsþáttaröð úr smiðju Baltasars Kormáks. RÚV greinir frá og hefur eftir Variety.

Á vef RÚV segir:

Studiocanal mun koma að framleiðslu þáttanna og sjá um sölu þeirra á alþjóðavísu.

Enn er verið að skrifa handrit þáttanna sem verða yfirnáttúrulegir spennuþættir. Sögusviðið er Reykjavík eftir tveggja ára eldgos í Kötlu með tilheyrandi skemmdum, heilsubresti og undarlegum atburðum. Baltasar segir Ísland tilvalið sögusvið fyrir þáttaröð á borð við Kötlu. Landið treysti mikið á ferðaþjónustu og því myndu náttúruhamfarir af þessari stærðargráðu hafa gríðarleg áhrif, sagði Baltasar við Variety í Berlín þar sem hann kynnti þáttaröðina fyrir tilvonandi kaupendum á kvikmyndahátíðinni í borginni.

Baltasar leikstýrir fyrsta þættinum og verður aðalframleiðandi þáttaraðarinnar í gegnum RVK Studios. Hann stefnir svo á að beita sömu aðferð og í Ófærð þar sem ungir leikstjórar fengu að láta ljós sitt skína í hverjum þætti. Reiknað er með því að tökur hefjist í haust í nýju kvikmyndaveri Baltasars Kormáks á Gufunesi.

Sjá nánar hér: Studiocanal að tryggja sér Kötlu Baltasars | RÚV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR