Krummaskuðið Ísland

Ásgeir H. Ingólfsson skrifar hugleiðingu um inntak og sýn nokkurra nýlegra íslenskra kvikmynda á samfélag sitt. Hann notar kvikmyndirnar Hjartastein og American Honey sem einskonar stökkpall og segir þær „tvær splunkunýjar myndir um unglingsástir og greddu í íslensku krummaskuði og bandarískum smábæjum og vegamótelum. Þær segja okkur heilmikið um þá kvöl og gleði sem fylgir því að vera ungur – en bara önnur þeirra segir okkur eitthvað að ráði um samfélagið sem hún sprettur úr.“

Ásgeir segir:

Strákar sparka í marhnút, stelpa bjargar vespu. Vegalausir unglingar í hvorir í sinni heimsálfunni, hvorir í sinni bíómyndinni, mögulega hvorir á sinni öldinni. Strákar á bryggju fyrir austan, stelpa á móteli í suðurríkjunum.

Myndirnar tvær eru Hjartasteinn og American Honey, tvær splunkunýjar myndir um unglingsástir og greddu í íslensku krummaskuði og bandarískum smábæjum og vegamótelum. Þær segja okkur heilmikið um þá kvöl og gleði sem fylgir því að vera ungur – en bara önnur þeirra segir okkur eitthvað að ráði um samfélagið sem hún sprettur úr.

Hjartasteinn fjallar um sex unglinga, já eða börn, þau eru einhvers staðar á mörkum berskunnar og fyrstu unglingsárana. Þau eru ýmist gröð eða ráðvillt eða hvort tveggja, ganga sjálfala um smáþorpið á meðan foreldrarnir eru að mestu fjarlægir. Strákarnir gefa stelpunum auga en um leið hvor öðrum, kynuslinn vofir yfir án þess að neinn viti beinlínis hvað eigi að gera. Eða öllu heldur, strákarnir tveir sem eru í aðalhlutverki hafa ekki hugmynd um það. Allt frumkvæði í þessum málum er tekið af stelpunum – strákarnir gera bara það sem þeim er sagt að gera, sem er skemmtileg tilbreyting frá helstu klisjunum.

Við vitum ekki alveg hvaða öld er, hér er enginn með farsíma, þótt kallinn í sjoppunni hafi uppgötvað klám á internetinu. Tónlistin gefur tíunda áratuginn í skyn, þegar Emilíana var ung og Sykurmolarnir við það að hætta. En stundum bregður myndin sér í tímaflakk, Nasty Boy með Trabant er til dæmis groddaskapur frá næstu öld sem aðalpersónan er ekki alveg tilbúin fyrir en táknar þá framtíð sem eldri systur hans þrá. Þær eru bestíur myndarinnar – þrælskemmtilegar og kvikindislegar, en meðferðin á litla bróðurnum nálgast það alveg á köflum að vera kynferðislegt áreiti.

Nafnlausir smábæir

En svo það sé alveg á hreinu, þetta er fantafín bíómynd. Helsti styrkleikinn er annars vegar frábær kvikmyndataka Sturlu Brandth Grøvlen, sem hlýtur bara að vera farinn að fá margmilljónatilboð frá Hollywood (og það segi ég samt ekki út af þessari mynd eða Hrútum, jafnfallegar og þær eru, heldur út af hinni þýsku Victoriu sem er eitt mesta kvikmyndatökuafrek síðari ára), og svo einstaklega náttúrulegur leikur krakkanna sex. Strákarnir tveir eru í forgrunni en stelpurnar fá engu að síður nóg að gera – sem er því miður ekki alltaf tilfellið. Þær renna þó óþarflega mikið saman í byrjun, allar með svipaða hárgreiðslu og fatasmekk. Strákarnir tveir, Þór og Kristján, eru hins vegar gjörólíkir – annar samanrekinn dökkhærður naggur og hinn slánalegur ljóshærður krullhaus. Aðalpersónan Þór er einmitt töluvert minni en allir hinir krakkarnir. Við fáum aldrei að vita hvort hann sé yngri en þau eða bara seinþroska – en hann vinnur það upp með meiri innbyrgðri reiði en öll hin til samans.

En. Já, hér kemur þetta en. Þrátt fyrir allt líður myndin fyrir hvað hún er lík alltof mörgum nýlegum íslenskum bíómyndum. París norðursins, Hrútar, Þrestir, Hross í oss og Málmhaus – allt myndir sem gerast í sveit eða þorpi, þorpum sem iðulega eru nafnlaus – við vitum mögulega tökustaðinn úr viðtölum (Hjartasteinn er tekinn á Borgarfirði eystri og samkvæmt viðtali við leikstjórann þá er innblásturinn sóttur í æskuár á Þórshöfn) en þessir staðir fá aldrei að leika sjálfa sig, þessar myndir gerast í hinu eilífa Hvergilandi, krummaskuðinu Íslandi sem við sluppum flest frá, ef ekki í eigin bernsku þá með hjálp foreldra eða afa og ömmu. Það mætti kalla þetta myndir fyrir útlendinga en þær eru ekkert síður fyrir okkar eigin nostalgíu eftir gamla Íslandi, Íslandi sem okkur annað hvort rámar í eða höfum heyrt sögur af. Eins speglar þetta örlög Íslands í Hollywood, þar sem landið leikur oftast fjarlægar plánetur en nær aldrei sjálft sig.

Ef það koma margar svona myndir í viðbót þá verða lundamyndir sjálfstæð kvikmyndagrein. Til að gæta allrar sanngirni er rétt að taka fram að það hafa sannarlega verið framleiddar einstöku Reykjavíkur-myndir síðustu ár, en af Fúsa undanskildum þá hafa þær fæstar verið að slá í gegn erlendis. Kannski þýðir það að þetta sé það Ísland sem útlendingar vilja sjá – eða það Ísland sem dregur að sér okkar bestu leikstjóra. Að hluta til er ástæðan örugglega peningar – íslenskar myndir hafa sjaldnast mikil fjárráð og það er ódýrara að leggja heila sveit undir bíómynd en heila borg.

En staðleysan er farin að verða þreytandi. Það mætti að minnsta kosti fara að gefa þessum stöðum nöfn, fara að leyfa þeim að vera þeir sjálfir. Neskaupstaður fær væntanlega að vera hann sjálfur í væntanlegri heimildamynd Gríms Hákonarsonar, Litla Moskva, um þá tíma þegar plássið var gósenland íslensks kommúnisma – og er ágætis dæmi um alla þá vannýttu sögu sem býr í þessum smáplássum. Staðleysunni fylgir nefnilega líka söguleysi – og þú þarft oft ekki að stoppa lengi í íslenskum smáplássum til þess að átta þig á að þau eru stútfull af sögu.

Þá eru sögur af tilfinningalega bækluðum karlmönnum líka orðnar dálítið þreyttar – og mögulega líka ansi ýktar líka. Þetta virkar að vísu í Hjartasteini, þar sem óöruggir unglingar eru í aðalhlutverkum, en það er dálítið eins og íslenskir leikstjórar forðist alvöru samtöl. Einstaka menn eru kannski orðheppnir – en löng samtöl eru sjaldséð. Það er eins og það megi ekki segja meira en þrjár setningar í einu úti á landi.

Þessi tilfinningalega bæklun virðist þó vera á undanhaldi ef marka má besta atriðið í Hjartasteini, þegar aðalpersónan Þór er orðinn nostalgískur fyrir aldur fram eftir sakleysi æskunnar og horfir upp á yngri strák veiða marhnút – og í staðinn fyrir að sparka í hann eins og þeir höfðu gert sumarið áður þá sleppir hann honum lausum.

Ástin í stórmarkaðnum

„We found love in a hopeless place,“ glymur í hátölurunum. Við fundum ástina á vonlausum stað. Ekki á Borgarfirði eystri samt, heldur í Oklahoma. Í Kmart stórmarkaði. Þar kemur Star fyrst auga á Jake og örlögin virðast ráðin. Hún hefði samt máski betur leitt hugann að slæmum smekk söngkonunnar Rihönnu á karlmönnum í gegnum árin – en Star virkar samt á mann eins og stelpa sem á eftir að spjara sig, þrátt fyrir misráðin ástarævintýri.

American Honey er vegamynd bresku leikstýrunnar Andreu Arnold, sem hefur fram að þessu gert bíómyndir um breska krakka í fátæktargildrum, bæði á þessari öld (Fish Tank) og á nítjándu öld (Wuthering Heights). Hún er auðsjáanlega heilluð af nýja heiminum, því þótt myndin fjalli um þá sem eru í ræsinu þá er myndavél Robbie Ryan alltaf með augun á stjörnunum – bæði aðalleikkonunni og stjörnum himinsins.

Gredda unglingsáranna og gullfallegt landslag einkennir þannig báðar myndir. En á meðan íslensku unglingarnir virðast rótföst í sínum litla smábæ þá eru þau amerísku fullkomlega rótlaus. Þetta er vegamynd um unglinga, öllu eldri en þá í Hjartasteini – þessir unglingar eru á menntaskólaaldri eða jafnvel háskólaaldri – en munu fæstir nokkurn tímann stíga fæti inní slíkar menntastofnanir og minnast ekki á slíkt nema sem hluta af lygasögunum sem þau segja til að öðlast samúð góðborgaranna. Góðborgarana sem þau reyna að selja tímaritaáskriftir.

Jafn ólíklegt og það konsept kann að hljóma nú á dögum, þegar flestar fréttir herma að tímarit berjist í bökkunum, þá er raunverulega mikið um svona hópa í Bandaríkjunum. Þeir kallast Mag Crews og það er vonlaust að uppræta þá, enda ber enginn raunverulega ábyrgð á þeim. Tímaritaútgáfurnar útvista áskriftarsölunni – og svo virðist henni, í sumum tilfellum, vera útvistað út í hið óendanlega þangað til hún er komin í hendurnar á villingum eins og við sjáum í American Honey.

Hvar er draumurinn?

Hér er þó rétt að vara áhugamenn um stöðu tímarita í vesturheimi við; það er ekki kafað djúpt í tímaritamarkaðinn þar ytra – af því þau eru ekki raunverulega að selja tímarit; þau eru að selja sig sjálf. Selja einhverja sorgarsögu, sanna eða logna, um að þau séu að safna fyrir betri framtíð, fyrir skólavist, hverju sem er – af því þau vita að það er engin að fara að kaupa tímaritin sjálf.

Þau eru að selja drauminn, ameríska drauminn. En hvað dreymir þau sjálf? Þegar Star spyr Jake hvað hann dreymi um gleymir hann örskotsstund að vera dólgurinn sem hann oftast er og svarar: „Enginn hefur nokkurn tímann spurt mig að því áður.“ Draumar þeirra reynast þó fátæklegir; að eignast hús. Eignir. Mögulega börn. Þau þrá einfaldlega öryggið sem þau hafa aldrei átt, öryggið sem flestir viðskiptavinir þeirra ganga að sem vísu; draumar um háskólanám eða draumavinnuna eru alltof fjarlægir til þess að dreyma þá, það eru draumar sem þau hafa ekki efni á.

Þetta er Ameríka þar sem er ekkert eftir til þess að selja – en það skiptir ekki máli, því sölumennskan er orðinn öllum svo eðlislæg að það halda allir áfram að selja þetta ekkert. Þetta er götustrákagengi Fagins uppfært fyrir 21. öldina – og Fagin orðinn að Krystal, ógnvekjandi ljósku sem er leikin af Riley Keough, barnabarni sjálfs Elvis Presley.

Arnold er ljóðskáld fátæktrar æsku – það hvernig grasið og skordýrin og himininn öðlast líf á meðan brennandi olíuborpallar verða fallegir minnir á myndir Terence Malick á síðustu öld, áður en hann týndi sér í tilgerðinni. Og Arnold galdrar fram sjaldséðan frumkraft í leikhópnum, þar sem engin er betri en Sasha Lane sem Star, stjarnan sem við getum ekki tekið augun af. Leikstýran fann þau flest á flakki sínu um Bandaríkin, þau eru mörg að leika í sinni fyrstu mynd, öll reynslulítil – nema einn.

Shia LeBeouf leikur Jake – og er stóri akkílesarhæll myndarinnar. Þetta er algengt í amerískum indí-myndum að þar sé ein stjarna til að borga reikningana – og það kemur oft ágætlega út, en þótt LeBeouf sé í sjálfu sér ekkert slæmur hérna þá stingur hann óþægilega í stúf, Hollywood-stjarna innan um tifandi smástirni. Þau eru hrekklaus og ekta, hann er útspekúleraður – en nær samt að leika skíthæl ágætlega. Það er sjarmann sem skortir, það er ekki nema fyrir magnaðan leik Lane að við trúum því að Star geti verið skotin í þessum lúða.

En mögulega er þetta hluti af boðskap myndarinnar, hann er misheppnuð Hollywood-stjarna – en kannski er það einmitt það sem gerir hann samt eftirsóknarverðan – það eina sem hann hefur fram yfir hina er frægðin og framin og allir peningarnir og þess vegna fær hann stelpuna.

Guð hvíslar söngvum nýrrar aldar

Þá hefði mátt gefa mörgum aukapersónunum meiri tíma, því þótt myndin sé tæpir þrír tímar a’ð lengd fer sá tími aðallega í aðalpersónurnar. Þetta er litríkur hópur, nördastelpan Pagan með óslökkvandi áhuga á Svarthöfða og brimbrettagaurinn Kris sem á erfitt með að halda typpinu í buxunum þar á meðal. Þau halda samt hópinn ekki bara af því þau þurfa þess, heldur líka vegna þess að þau eru fósturfjölskylda hvers annars. Hálf misheppnuð fjölskylda oft og á köflum ofbeldisfull og óheiðarleg, en þó margfallt skárri og samheldnari en fjölskyldurnar sem þau eru að flýja.

Leikararnir völdu sjálfir músíkina í myndina, þannig að þetta er líklega með fyrstu bíómyndunum með tónlist 21. aldar æskulýðs. Aðrar unglingamyndir aldarinnar eru venjulega með tónlist sem valin er af músíköntum sem ólust upp við Bítlana eða Nirvana, þar sem þeir reyna að giska á hvað krakkarnir séu nú að hlusta á nú til dags. Krakkarnir leyfa Springsteen samt að fljóta með, hann er eilífur á þjóðvegum Ameríku og reynir að fá þau til að dreyma, er föðurlega röddin sem kyrjar „dream, baby, dream.“ Titillagið fjallar svo um stúlku á vegarkantinum; „She grew up on a side of the road / Where the church bells ring and strong love grows.“ En þótt þau séu í miðju Biblíubeltinu yfirgaf almættið þau fyrir löngu. Eða hvað? Guð hvíslar nefnilega ennþá ef maður hlustar vel. Eftirminnilegasta tónlistaratriði myndarinnar er undir laginu „God‘s Whisper,“ undurfurðulegt lag þar sem bakraddakórinn klappar og syngur eins og í leiðslu á meðan Raury, tvítugur blökkustrákur frá Atlanta, rappar um að hann muni ekki sætta sig við málamiðlanir, hann muni ekki eyða ævinni á hnjánum – og kyrjar svo örlitla orðsendingu til Ameríku; „You think I am nothing / I am nothing / You’ve got something coming.“

Þetta er ekki flókinn kveðskapur – en samhengið og ryþminn ljær honum dýpri merkingu, þetta er blökkustrákur úr biblíubeltinu, svæðinu sem kaus Trump – hann er að tala fyrir allar týndu kynslóðirnar í Ameríku sem er að týna sjálfri sér, þessa týndu kynslóð sem Arnold fann í vegarkantinum.

Hið persónulega verður þannig pólitískt nokkuð áreynslulaust, án þess að nokkur minnist á það – en það er vídd sem virðist nær alfarið skorta í íslenskar myndir þessi misserin. Þær fjalla flestar um mennskuna í hvergilandi, sem er ágætt út af fyrir sig, mennskan þarf stundum frið frá niði tímans og pólitískrar síbylju. En þetta er orðið dálítið langt frí. Það er ekki beint við neina eina mynd að sakast, en ef bíó-Ísland er sérheimur þá varð hér aldrei neitt hrun og við lifum í aðalatriðum ennþá á Íslandi ársins 1996. Tilraunir til þess að koma samtímanum að hafa svo mestmegnis mistekist og verið jaðarsettar, Rokland er mögulega eina skáldaða hrunmyndin sem eitthvað kveður af, Boðberi var vanmetin og forvitnileg tilraun sem týndist í nýaldarbulli og saga bankaguttans Sölva var veikasti hlekkur Vonarstrætis. En mögulega þurfa íslenskir leikstjórar bara að leyfa sér að orða hlutina og fara að semja örlítið lengri samtöl. Við erum ekki öll svona tilfinningalega bækluð lengur og ættum alveg að geta farið að ræða þetta samfélag á hvíta tjaldinu.

Sjá nánar hér: Kvikmyndakompa: Krummaskuðið Ísland | Fréttatíminn

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR