Hildur Guðnadóttir semur tónlist við framhald „Sicario“

Hildur Guðnadóttir tónskáld (MYND ANTJE TAIGA JANDRIG)

Hildur Guðnadóttir mun gera tónlistina við kvikmyndina Soldado, sem er framhaldsmynd spennumyndarinnar Sicario frá árinu 2015. Hildur tók þátt í gerð tónlistarinnar í fyrri myndinni sem sellóleikari, en það var Jóhann Jóhannsson sem þá samdi tónlistina og hlaut hann BAFTA- og Óskarsverðlaunatilnefningu fyrir.

DV greinir frá og þar segir ennfremur:

Sicario, sem Kanadamaðurinn Denis Villeneuve leikstýrði, fjallaði um átök lögreglu og glæpahrings á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna. Myndin þótti sérstaklega bölsýn og þótti draga upp afar myrka mynd af siðleysi fíkniefnastríðsins á milli bandarísku leyniþjónustunnar og alræmdra glæpagengja í Mexíkó, en orðið Sicario er heiti yfir leigumorðingja mexíkósku fíknefnahringjanna.

Það er Ítalinn Stefano Sollima mun leikstýra framhaldsmyndinni en handritsgerð verður í höndum Taylor Sheridan sem einnig skrifaði fyrri myndina. Hann hefur sagt að nýja myndin muni meðal annars fjalla um hervæðingu lögreglunnar í stríðinu gegn glæpagengjunum. Með aðalhlutverk fara Josh Brolin, Benicio Del Toro og Matthew Modine.

Hildur er sellóleikari, söngkona og tónskáld sem hefur gefið út fjölda platna, bæði ein og með hljómsveitinni Múm. Hún hefur samið tónlist fyrir leikhús, danssýningar og kvikmyndir, meðal annars fyrir Eiðinn, Ófærð, Tom of Finland og spilað á selló í tónlistinni fyrir The Revenant, Arrival, Prisoners og fyrstu Sicario-myndina.

„Jóhann var upphaflega beðinn um að semja tónlistina fyrir þessa mynd líka, en er mjög bundinn í öðrum verkefnum svo hann gat ekki tekið það að sér,“ segir Hildur um tildrög verkefnisins.

„Við Jóhann höfum verið bundin mjög sterkum tónlistarböndum síðastliðin 15 árin eða svo, og höfum komið með einhverjum hætti að langflestum verkefnum hvors annars alla þá tíð. Við höfum þess vegna mjög svipaða hugmynd um tónlist og hlutverk hennar, enda höfum búið og vaxið saman innan hennar svo lengi. Tónlistin fyrir Soldado verður samt ekki byggð sérstaklega á tónlistinni sem Jóhann samdi. Þetta er hugsað sem sjálfstætt framhald.“

Hildur samdi tónlistina við Eiðinn Baltasars Kormáks, Tom of Finland eftir Dome Karukoski og kom einnig að tónlist þáttaraðarinnar Ófærð.

Sjá nánar hér: Hildur gerir tónlistina við Sicario 2 – DV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR